Fundarlaun fyrir réttan maka

Mig langar í mann og það er laugardagskvöld. Ætti ég þá ekki að vera á leiðinni út á lífið? Það er víst lítill tilgangur í því að kasta ástargaldri ef maður fylgir honum svo aldrei eftir.

Málið er að ég nenni því ekki. Mig langar í mann en ekki nógu mikið til að ég sé tilbúin til að leggja það á mig að fara inn á þá subbulegu og þrautleiðinlegu staði sem kallast skemmtistaðir. (Auk þess eru mennirnir sem ég hef áhuga á ekki þar, heldur einir heima hjá sér með góða bók eða bíómynd.)

Ég hef önglað saman 100.000 kalli í makasjóð. Ég ætla ekki að nota hann til að gera eitthvað sem mig langar ekki, heldur hef ég ákveðið að greiða þeim sem kynnir mig fyrir framtíðarmaka mínum þennan pening í fundarlaun.

Ég er ekki að djóka. Ef þú þekkir mann sem er:
-í alvarlegri makaleit
-vantar ekki fleiri börn
-heimakær
-trúlaus
-afar áhugalaus um drykkjuskap og svallmenningu
-með góða stjórn á fjármálum sínum
-og auðvitað sætur klár og skemmtilegur og frábær og allt það (ekki skemmir ef hann kann á borvél, gítar eða eitthvert annað karlmannlegt verkfæri)
…kynntu hann þá fyrir mér.

Þú þarft ekkert að sóa dýrmætum tíma þínum í að skipuleggja deit eða neitt svoleiðis. Það er alveg nóg að senda mér tölvupóst með nafni hins útvalda, senda svo gripinn í Nornabúðina og ef með okkur takast ástir færðu 100.000 kall í fundarlaun.