Kennd

Eins og lamb að vetri borið
vekur hjartans dýpstu þrá
til að vernda það og hrekja
heimsins varga bænum frá
hefur snemmbær ástúð
snortið minnar blíðu gítarstreng
og snilli tær, hve fljótt mér tókst
að frysta þennan dreng.

Því hann ilmar eins og beitilyng
og bragðast líkt og gras,
og sérhver snerting hans er korn
í háskans stundaglas.
Því eðli mitt er varnarlaust
gegn vorsins mildu hönd
sem vekur líf af dvala
og leysir fossins klakabönd.

Ljóð handa fylgjendum

Nýjum degi nægir
neyð er guðir gleyma.
Geta og þrek ef þrýtur
þín er höfnin heima
hlassi þessu þungu
þúfa ef viltu vetla
væta jarðar verða
varmi, svali og selta.

Gegnum regnið gráta
gagnast þeim er þagna
þegar þurrir dagar
þægilegir láta
léttra hlátra hljóma
hlýjan blæinn bera
Birtu að heitu hjarta
heims þá ljósin ljóma.

Fjallajurt

Ég er vaxin upp í hrjóstri, harðgerð, lítil fjallajurt
sem lifði af þegar vindar feyktu vonarblómum burt.
Það vildi enginn gróðursetja í garði sínum rós
sem aldrei bað um aðhlynningu, aðeins regn og ljós.

Þó að viðkvæmari jurtir visni fljótt í höndum þér
og gleðin sé það eina sem þú gefið hefur mér,
eins og blóm sem þráir birtu, hefur Birta saknað þín
og breiðir móti geislum þínum ljósþyrst laufin sín.

Þótt þú hlúir engu blómi, enn í hjarta mér þú býrð
ég teygað hef úr ljósi þínu lita minna dýrð.
Og varnarlaus ég heldur vildi lifa fyrir þig
en hult í skjóli eikartrés, sem skugga varpi á mig.