Iðrunarlagið

Vinkonurnar hafa sært hvor aðra og eru miður sín vegna þess en hvorug þorir að rétta fram sáttarhönd

Orð hafa mátt sem eflir og nærir
andvari þeirra er ljúfur og hlýr.
Hvetur til dáða, huggar og hrærir
harmi og raun til bjartsýni snýr.

Orð hafa mátt sem meiðir og særir,
vindur þess ofsa eyðir og tærir
Eldur í hverri orðræðu býr.
Og aldrei er hægt að taka
töluð orð
til baka.

Hallgerður: Vináttu okkar brotið er blað
því burt frá mér hef ég hrakið
þá einu sem hjartað þráir
-og það
er þyngra en tárum taki.
Nú veit ég hver játning á stund sína og stað
og tek ekki séns á að segja þér hvað
minn söknuður djúpt mig þjáir.

Marlín: Orðum ég hef í ógáti beitt
og einasta vininn svikið
um aðgát í návist sálar
-og meitt
Enginn veit hversu mikið
ég gæfi ef gæti ég einhverju breytt
en þori ekki að segja „mér þykir það leitt“
og þögnin er hvöss sem nálar.

Sálmur

Þótt ríki í heiminum harðræði og stríð
skal hjarta þitt friðhelgi njóta,
í kærleikans garði þú hvílist um hríð
og hversdagsins þjáningar standa til bóta.
Veröldin sýnir þér vorgrænan skóg
svo vitund þín unun þar finni
og góðvildin, blíðan og gleðinnar fró
gróa í hugarró þinni.

Í garðinum vaxa þau vináttublóm
sem von þína á hunangi næra
og aldreigi þurfa að óttast þann dóm
sem árstíðasviptingar jörðinni færa.
Þín blygðun er ástinni óþurftargrjót
sem uppræti heiðarlegt sinni,
svo breiði hún krónuna birtunni mót
og blómstri í einlægni þinni.

Með auðmýkt skal frjóvga þau fegurðarkorn
sem falla í jarðveg þíns hjarta.
Í dyggðinni vitrast þér vísdómur forn
og val þitt mun samhygð og örlæti skarta.
Þó læðist að vafi, um lostann er spurt
ég læt mér það nægja að sinni,
að nefna þá staðreynd að nautnanna jurt
nærist á ástríðu þinni.

Gímaldin gerði síðar lag við þennan texta.

Vetrarkvíði

Inn um gluggann opinn hef ég flogið
eins og lítil fluga á sumarmorgni
því eðli mitt ég saug úr sykurkorni
en samt ég hef að flestum um það logið

kankvís hef ég kitlað á þeim nefin
þó kemur mér í hug að liðnum degi
að leiki vafi á hve létt það vegi
að ljúga til að fljúga, það er efinn

hversu lengi kiltur mínar duga
því kónulærnar hlakka brátt í fenginn,
þær vetrarkvíða vefa yfir engin
og vænting mín er orðin lítil fluga.

Sagan af drengnum sem fyllti æðar mínar af endorfíni

Ég sá hann fyrst á regnvotum vormorgni. Gróðurilmurinn var svo sterkur að ég ákvað að nota ekki ilmvatn til að móðga ekki náttúruna. Það væri nefnilega eins og að mæta sem gestur í brúðkaup, í kjól sem líkist brúðarkjól og svoleiðis gerir maður ekki. Það var líka logn svo regnið streymdi beint niður og það gerist nú ekki á hverjum degi í henni Reykjavík. Þú skilur auðvitað að við slíkar aðstæður vaxa óskablóm. Halda áfram að lesa

Annars hefði hann dáið

Á kvöldin sit ég við glugga piparkökuhússins og horfi á tunglið yfir fjallinu. Stundum er það hvítt og kringlótt, hangir kyrrt í dimmbláu húminu og skín á litla hvíta steina sem börn hafa skilið eftir á skógarstígnum. Stundum veður það í grásvörtum draugaskýjum. Oftast er það sigð. Sigðin sem sker gluggatjöldin frá himnaríki. Halda áfram að lesa