Endurfundir

Kyssir þú hvarmljósum líf mitt og sál
kyndir mér langsofið löngunarbál
að vita í þöginni vaka,
söknuð þinn eftir að sofna mér hjá,
ég sé inn í hug þér er horfi ég á
bráfugl þinn vængjunum blaka.

Líkn

Lýsa mér blys þinna brúna
er beygurinn dregur
yfir mig svartdrunga sæng
og sviptir mig kröftum.
Fljúga mér söngfuglar hjá
en frjáls er þú heilsar,
leggurðu líknandi hönd
á launhelgi mína.

Hvísl

Gréstu í brjósti þér góði
er gafstu mér kost á
ást þinni umbúðalaust
af órofa trausti?
Leistu mig langsvelta þjást
og listina bresta?
Sástu hve návist þín nísti?
Naustu þess? Fraustu?

Víst er ég valdi þig fyrst
það veistu minn besti.
Haltu mér, leystu minn losta
og ljóstu með þjósti.
Kreistu að kverkum mér fast
og kysstu og þrýstu.
Veist að í hljóði ég verst
ef varirnar bærast.

Tvennd

Nautnin er kát.
Hlátrar úr lófunum streyma,
ljúfstríðir lokkarnir flæða.
Snertir mig augum.
Snertir mig eldmjúkum augum.

Sektin er þung.
Bitþöglir kaldkrepptir hnefar,
hnúturinn sígur við hnakkann.
Lítur mig augum.
Lítur mig íshörðum augum.

Gímaldin gerði lag við þetta kvæði og gaf út 2012.

Ljóð handa Mark Antony

Sláðu mig lostmjúkum lófum
svo lygnstríðir strengirnir hljómi.
Heftu mig fróandi fjötrum
svo friði mig vald þitt og veki
unaðshroll ofstopablíðan,
örvi til sársauka og sefi.
Mun ég í ljúfsárum losta
þér lúta og grátfegin gefast.