Ljóð handa Megasi

Ást, þjást, brást,
„afsakið mig meðan ég æli“

Hvort það var hnífstunga í bakið
eða blaut tuska í andlitið
bíttar ekki baun.
Aðalmálið að það sé
myndskreytt
umbreytt
afleitt.

Leitt af hinu afleita
fráleita
háleita

og ég sem leitaði hátt og lágt
gerði elskhugann sjálfan út af örk
að leita þín við ystu mörk
ljóðaheims
andlegs seims
eyðimörk.

Og kannski er það ekki bara
fatamorgana á flæðiskerinu
ég held hún sé loksins fundin
þessi húfa sem hæfir derinu.

Kollsteypa

Þetta er hugsað sem tölvuljóð. Þegar lesandinn sér ljóðið fyrst eru engin bandstrik í því. Þegar aðgerð er valin, skiptir tölvan einhverjum þeirra orðastrengjum sem eru með bandstriki. Valið er af handahófi hverju sinni. Ljóðið er á svörtum grunni, öll samsett orð gul, allir slitnir orðastrengir rauðir, öll hin orðin græn. Bandstrikin eru svört og sjást því ekki. Halda áfram að lesa

Af því

Af því að augu þín minna í einlægni,
hvorki á súkkulaðikex
né lokið á Neskaffikrukkunni,
þótt hvorttveggja sé mér hjartfólgið.
Af því að fjöll munu gnæfa,
fossar dynja,
og öldur gæla við fjörugrjót
látlaust, án blygðunar
og skeyta lítt um nýja strauma.
Af því, mun ég gala þér seið
við eyglóar eldroðinn sæ
og hafdjúpan himin.

 

Landnemaljóð

Í leit minni að heimkynnum
hef ég sleppt bæði dúfum og hröfnum
sem alltaf sneru aftur
tómnefjuð
og enn rekur bát minn fyrir straumum.

Ég játa að ég treysti hröfnum betur en dúfum,
kann betur við ís og sand en ólívugreinar
og enginn flóttamaður er ég
heldur landnemi.

Ekki veit ég
hvort hrafnar sveima
yfir fjallinu hvíta í austrinu
en hitt hef ég séð;
atað dúfnasaur
er torg hins himneska friðar.

Sprungur

Hversu lengi hef ég setið og starað á vegginn í stofunni? Ég veit það upp á mínútu en þær mínútur hafa liðið hægar en mínútur gera almennt. Það er svosem ekki mikið að sjá á þessum vegg, nema þá sprunguna eftir jarðskjálftann í fyrra. Hún hefur stækkað og gliðnað og nýjar sprungur og grynnri liggja út frá henni. Breiðast líkt örtstækkandi kógulóarvef frá miðjunni, yfir vegginn allan, allt niður að gólfi og uppundir loft. Merkilegt að veggurinn skyldi fyrst springa í miðjunni. Rétt eins himininn hafi þrýst á móti þegar jörðin tók að titra undir fótum mínum. Hversu langt ætli sé þar til veggurinn hreinlega gefur sig og hrynur yfir stofuna mína? Halda áfram að lesa