Sprungur

Hversu lengi hef ég setið og starað á vegginn í stofunni? Ég veit það upp á mínútu en þær mínútur hafa liðið hægar en mínútur gera almennt. Það er svosem ekki mikið að sjá á þessum vegg, nema þá sprunguna eftir jarðskjálftann í fyrra. Hún hefur stækkað og gliðnað og nýjar sprungur og grynnri liggja út frá henni. Breiðast líkt örtstækkandi kógulóarvef frá miðjunni, yfir vegginn allan, allt niður að gólfi og uppundir loft. Merkilegt að veggurinn skyldi fyrst springa í miðjunni. Rétt eins himininn hafi þrýst á móti þegar jörðin tók að titra undir fótum mínum. Hversu langt ætli sé þar til veggurinn hreinlega gefur sig og hrynur yfir stofuna mína?

Það þjónar víst litlum tilgangi að stara endalaust á sama blettinn svo ég stend upp og æði í nokkra hringi um stofuna til tilbreytingar. Ætli hann hafi skilið sígaretturnar sínar eftir? „Góða farðu nú ekki að hugleiða þann möguleika. Hafðirðu ekki nógu mikið fyrir því að hætta?“

Nei, hann hefur tekið þær með sér. Til hvers tók hann þær með? Hann ætlaði ekki að vera nema smástund. Nema þær séu frammi í eldhúsi. Fer fram í eldhús. Jú þarna liggja þær á ísskápnum. Gott mál, þá hlýtur hann að vera að koma.

„Hver er nú að ljúga að sjálfri sér? Þessi pakki er óátekinn. Þú veist fullvel að hann var með hálfreyktan pakka inni í stofu áðan. Hann er ekkert að koma strax aftur.“

Stend við eldhússgluggann og horfi út. Í gluggum húsanna skína jólaseríur og aðventuljós. Húsið ská á móti orðið eins og amerískur jólaskrautsmarkaður, magnið ber smekkvísina ofurliði. Götuljósin varpa birtu á malbikið. Reyndar skuggum líka. Sívalir ljósastauraskuggar liggja þvert yfir götuna með reglubundnu millibili. Merkilegt að ljósið og skugginn skuli koma frá sama fyrirbærinu. Ekki gott að átta sig á því hvort það er skugginn sem leggst yfir ljósið eða ljósið sem smýgur milli skugga. Ég hef kveikt í sígarettu og nú smýgur reykurinn í gegnum myrkrið í eldhúsinu. Ég er berfætt og gólfið er kalt og enginn bíll ekur inn götuna. Jæja, hann hlýtur allavega að hringja ef hann ákveður að koma ekki heim.

„Hringja! hnuhh! hann er kannski vanur því?“

Æ góða þegiðu.

Flý kulda eldhússgólfsins. Sest niður í stofunni þar sem enn loga þrjú ljós á aðventukransinum. Sígarettan er brunnin upp svo ég kveiki í nýrri. Dreg reykinn djúpt, djúpt ofan í lungun og fletti Mogganum. Man ekki stundinni lengur hvað ég les. Eins og augu mín leiti stöðugt í átt að símanum. Samt á ég í rauninni alls ekki von á að hann hringi.

Kannski hefur hann farið inn með Kollu? Hann ætlaði bara að aka henni heim og koma svo, sagði hann. En það er meira en klukkutími síðan. Hvað var ég líka að samþykkja það? Og hvað var ég eiginlega að búa honum aðstæður til að bjóða þessu fólki hingað? Hefði mátt vita að það færi svona. Ég hefði aldrei átt að hleypa honum út. Einhver hinna hefði átt að bjóða henni far. Eða hún hefði getað tekið leigubíl eins og annað fólk.

„Vertu ekki svona mikið fífl. Auðvitað má hann bjóða vinum sínum í jólaglögg og allir vita að þau eru meira en vinnufélagar, það var bara rökrétt hjá honum að bjóðast til að keyra hana.“

Ég hefði átt að keyra hana sjálf.

„Já, það hefði áreiðanlega breytt öllu. Þá væri hann sjálfsagt sofnaður núna, heldurðu ekki? Hálfviti!“

Kannski ætti ég að prófa hringja í Kollu?

„Nei, aulinn þinn, það ættirðu sko ekki að gera. Nóg að þú þjáist ein. Það sem þú átt að gera núna er ósköp einfaldlega að koma þér í bælið og láta hann sigla sinn sjó. Það er m.a.s. það eina sem þú getur gert.“

Kannski. Já, kannski. Þessi sígaretta er líka brunnin upp. Kveiki í einni enn. Horfi á símann. Ég geri reyndar ekki ráð fyrir að hann hringi en til öryggis lyfti ég tólinu, jú það er sónn.

Rúmið er kalt. Mér er kalt á fótunum. Loka glugganum. Loka augunum. Tek viðbragð í hvert sinn sem ég heyri í bíl og hendist fram úr rúminu og út í glugga en það er blár bíll eða rauður en alls ekki grár og þeir aka fram hjá.

Slökkti ég ekki örugglega á aðventukransinum? Jújú, ég gerði það. Ætti ég ekki að gá til öryggis? Fer fram úr. Aðventukransinn er fallegur. Grænt greni og hvít kerti. Í dag kveiktum við á þriðja kertinu. Spádómskertinu. Það er slökkt á kertunum. Líka á jólaseríunni í glugganum. Óþarft að brenna inni þótt maður vilji hafa jólalegt hjá sér. Síminn á borðinu. Tek símann og fer með hann fram. Snúran er ekki nógu löng til að ná inn í herbergið svo ég set hann á gólfið í holinu.

„Ertu ekki með öllum mjalla manneskja? Heldurðu virkilega að þú missir af símtali þótt þú þurfir að taka 3 skref til viðbótar?“

Ligg í rúminu og horfi á gráan símann sem stendur á miðju gólfinu í upplýstu holinu. Lít af símanum á vegginn á móti. Rimlagluggatjöldin eru opin og ljósið úti skín í gengum rimarnar og varpar mynd þeirra á vegginn.

Hlusta á hljóð hússins. Ísskápurinn suðar frammi í eldhúsinu. Á efri hæðinni er einhver í sturtu. Lágvær niður frá tölvunni frammi í holinu breytist í yfirþyrmandi hávaða. Fer fram úr og slekk á tölvunni. Sest á hækjur mér og tek upp símtólið í leiðinni þótt ég viti að það er ekkert að símanum. Hann er sjálfsagt hjá Kollu. Kannski sofnaður við hlið hennar. Tilhugsunin um þau tvö saman í rúmi er óþægileg og ég ýti henni frá mér. Ligg og bylti mér. Verkjar í kviðinn svo ég get ekki sofnað. Tifið í klukkunni er háværara en venjulega og verkurinn magnast. Reyni að hugsa sem minnst um þann möguleika að hringja í Kollu. Hugsa um góða daga framundan. Á morgun baka ég piparkökuhús fyrir krakkana og fer með þau í Kringluna til að hitta jólasveina. Hinn daginn skrifum við á jólakortin. Samt sofna ég ekki.

Svo hringir síminn. Ég hlunkast fram úr rúminu, dett í fátinu en næ samt að rífa tólið upp áður en hann nær að hringja tvisvar. Rödd Kollu í símanum:

„Sæl Guðný og fyrirgefðu að ég skuli vekja þig en ég þarf svo nauðsynlega að tala við Jóa.“
Hjarta mitt hniprar sig saman eins og hræddur íkorni. Guð minn góður, hann er þá ekki þar.
„Hann er ekki kominn. Hvenær fór hann frá þér?“
Rödd Kollu titrandi í símanum: „Hann kom ekkert inn. Ég er svo hrædd um hann að ég gat ekki sofnað. Vildi bara fullvissa mig um að hann hefði komið heim.“
„Drakk hann eitthvað í kvöld?“ spyr ég, rétt eins og það skipti einhverju máli.
„Ekki dropa, en mér fannst hann svo eirðarlaus á leiðinni hingað og hann vildi ekkert stoppa, eins og honum lægi eitthvað á. Hefurðu nokkra hugmynd um hvar hann getur verið?“
„Hvergi þar sem við finnum hann elskan“ segi ég og reyni að halda röddinni rólegri „Það eina sem við getum gert er að bíða eftir fréttum af því hvar hann endar í þetta sinn.“
„Ég hefði aldrei átt að samþykkja þessa jólaglögg“ segir Kolla kjökrandi.
Og ég hefði átt að halda honum heima, hugsa ég en í stað þess segi ég:
„Hvorug okkar hefði getað stoppað hann. Það eina sem þú getur gert er að verja sjálfa þig, taka þetta ekki of mikið inn á þig. Ég er búin að búa við þetta helvíti síðan hann var 13 ára. Þitt líf heldur áfram, engin ástæða til að eyðileggja það líka.“

„Ég var að hugsa um hvort ég ætti að fara og leita að honum“
„Láttu það nú vera. Þú hefur ekki hugmynd um hvar þú átt að leita og jafnvel þótt þú finnir hann geturðu ekkert gert. Í alvöru Kolla mín, þú getur ekki gert neitt, nema þá fyrir sjálfa þig. Það besta sem þú gerir núna er að reyna að sofna og láta hann svo róa.“

Við tölum lengi saman, alveg þar til stúlkan er orðin róleg. Hún er góð stelpa, of góð fyrir hann. Svo kveðjumst við loksins og ég legg tólið á og sit í hnipri í náttfötunum á köldu gólfinu. Herbergið hans opið og ég horfi á autt rúmið hans. Það virðist kalt. Ég stend upp og kveiki í sígarettu. Lít inn til barnanna, þau sofa bæði, þau vakna ekki. Til öryggis tek ég samt símann úr sambandi þegar ég er búin að klæða mig.

Það er kalt og bíllinn er tregur í gang en loksins hefst það. Ég stýri honum yfir skugga götuljósanna út úr götunni okkar og held í átt að miðbænum. Undarlegt hvað mér tekst vel að hundsa raddirnar í hausnum á mér þegar þær tala af skynsemi:
Hvern fjandann þykistu vera að fara?
Væri ekki nær að vera heima hjá börnunum?
Til hvers ertu að þessu?

Snjókrap þeytist undan dekkjunum og ég veit að ég ætti að draga úr hraðanum en ég geri það ekki. Hendist áfram, hraðar, hraðar, í órafjarska sé ég miðbæinn.

***

Það var þá sem ég tók eftir því. Vegurinn var farinn að lengjast. Hann óx með ofsahraða undir dekkjunum, ruddist fram svartur og gljáandi undan rimlaskuggum og miðbærinn fjarlægðist stöðugt. Ég reyndi að stýra bílnum inn á hliðarveg en hvernig sem ég sneri stýrinu hélt bílinn sömu stefnu í kapp við ört vaxandi malbiksflauminn.

Og svo kom hrafninn.

Ég sá hann þar sem hann sveimaði í hringi yfir miðbænum, biksvartur og gríðarstór. Hann tók stefnuna í áttina til mín, sveif án þess að blaka vængjum á móti mér, hratt og örugglega. Hann flaug á móti mér, stefndi beint á framrúðuna og ég fann höggið þegar hvass goggurinn hjó rúðuna.

Bíllinn stöðvaðist sjálfkarfa, sjálfsagt bensínlaus og ég horfði agndofa á hrafninn sem hékk á rúðunni, með gogginn inni í bílnum, á meðan rúðan sprakk, hægt og rólega.

Ég horfði á sprungurnar breiðast hægt frá goggnum og út að jöðrum rúðunnar, breiðast hægt og hægt og greinast í ótölulegan fjölda af smærri sprungum sem mynduðu þéttriðið net á framrúðunni. Nokkur örsmá glerbrot hrundu inn í bílinn og ég vissi að um leið og hrafninn gerði tilraun til að losa sig, myndu rúðubrotin hrynja yfir mig í þúsundatali og einhver þeirra hlytu að lenda í augum mínum.

Ég lokaði augunum og beið.

Share to Facebook