Skref í rétta átt

Þú veist sem er að góðir hlutir gerast hægt
og hljótt, og hljótt.
Þó miðar lítið nema leggir við þá rækt
og þrótt, og þrótt.
Stígðu skref, stígðu skref í rétta átt
Stígðu eitt skref í einu í rétta átt.

Þér yrði heilladrýgst að hamra járnið heitt
og þá og þá
þá gæti næsta spor þitt draumi í dáðir breytt
ójá, ójá.
Hvers virði er æðruleysi ef þig vantar vit
og kjark og kjark.
Hvert grátið tár mun gefa tilverunni lit
og mark, og mark.

Lítil mús

Eitthvert undarlegt tíst
er mitt hjarta að hrjá,
og ég get ekki lýst
því sem gengur þar á.
Eins og lítil mús
sem enginn maður hræðist,
hafi sest þar að.
Lítil mús sem læðist.

Fyrir forvitni rak
trýnið titrandi út,
hrökk þá aftur á bak
og sig hnipraði í hnút.
Hungri litlar mýs
þær inn í hús þitt leita.
Mitt hjarta er mús
Og brosið þitt er beita.

Óður til vindanna

Hvert ertu að fara
og hvað viltu mér?
vindur sem örlög og vályndi ber.
Gjóstar byljum, blæs og hrín
vindum næðir, hvessir, hvín.
Kvíða minn nærir
og hvekkir og ærir
og nauðar og gnauðar
og nístir og sker.

Hlustaðu vinur
á vindanna mál,
andvarans söngva
og illviðra bál.
Hvíslar í laufi lognið milt,
fingri um vanga strýkur stillt,
„stjórnlaust þann rekur
sem stormurinn skekur
hann rífur og hrífur
þitt hjarta og sál.“

Snjókorn á kinn þína tylla sér stillt
Fannhvít þótt dansi í fjúkinu villt
-og brjáluð og tryllt.
Vindanna þekkja þau veg
og veðranna heim
og setjast að lokum um kyrrt
þótt þau svífi með þeim.

Laufblaðið vindinum leikur sér í,
fellur til jarðar og fýkur á ný
-upp í veðranna gný.
Vindanna þekkir það veg
og veðranna heim.
og fellur að lokum til jarðar
þótt feykist með þeim.

Þekkirðu bróður minn vindanna vin?
Hann elskar storma og stórveðrahvin
-og þrumunnar dyn.
Vindanna þekkir hann veg
og veðranna heim.
og hann kemur aftur til jarðar
þótt hrífist með þeim.

Þér á vald ég gefast vil
vindur kær og hrífast með.
Fljúga hærra upp í himins hvítu ský,
fljúga hærra og falla til jarðar á ný.

Ljúfur þytur í laufi
hefur hvíslað að mér.
„Lærðu vindanna veg,
fagnaðu öllu sem blærinn þér ber
Lærðu vindanna veg.“

Skjól

Ég hef um víða vegu leitað
að vísu húsi á góðum stað,
sem veitir skjól í vetur kuli
þótt vindar dynji stendur það.

Í ljósi og yl er ljúft að hvíla
við létta voð um blíða nótt.
Þar logar eldur þegar kuldinn
um þétta lúgu smýgur hljótt.

Er kvöldið tjaldar himin húmi,
í hljóðri von ég kem til þín
og veit að minni leit er lokið
ef ljós í glugga þínum skín.

Pandóra

Í nótt, þegar vötn mín vaka
og vindur í greinum hvín
og þúsund raddir þagnarinnar kvaka
hve ég þrái að opna sálar minnar skrín.

Og leysa úr viðjum angist, sorg og efa
uns ólguveður hvata minna dvín.

Og ást mína drepa úr dróma
eitt dulbúið sálarmein,
þá frelsissöngvar feigðarinnar hljóma
meðan fuglinn situr kyrr á birkigrein.

Þar hreiður sitt hann sterkum grösum greipir
sem græða þúfu, moldarbarð og stein,

við djúp minna dularsýna
um deyjandi fjallajurt.
Þó vil ég ekki opna vitund mína
því að vonin gæti líka flogið burt.

Löngu síðar gerði Gímaldin annað lag við þennan texta.