Dögun

Losa auglokin rólega,
bara litlar rifur
rétt til að átta mig á deginum.
Gráleit rönd við gluggabrún
seytlar undir rúllutjaldið.

Of snemmt.
Of dimmt.
Augnlok síga,
límast saman á ný.

Nei! ekki of snemmt,
ekki í dag.
Kippi augnlokunum upp með smelli,
dreg frá glugganum.

Hvítur snjór hefur fallið
á óræktina í garðinum.
Skefur yfir gangstéttina
heim að húsinu.

Fel svitastokkinn náttkjólinn
undir koddanum,
breiði teppi yfir rúmið.
Tilbúin
að takast á við daginn.

Flísar

Undarlegt hvað sumt fólk hefur góða sjón
og það með bjálka skagandi út úr auganu.
Bjálka sem ná alla leið inn að rúmgafli hjá manni.
og rekast í tærnar á meðan maður sefur.

Suma daga vaknar maður
með flísar í tánum
og þorpsbúann sitjandi á rúmstokknum
rekandi bjálkann í rúmgaflinn,
með flísatöng á lofti
til þjónustu reiðubúinn.

En þrátt fyrir alla þessa hjálpsemi
hefur enginn reynt
að plokka myrkrið undan sænginni.

Gróður

Sjáðu grösin í garði nágrannans.
Saklausu, litlu kærleiksgrösin
sem teygja sig í fagurgrænni gleði í átt til sólar
og sjúga þyrstum rótum
svala úr frjósömum sverðinum.

Ó, hve þau dafna vel í þessum garði,
snyrt eftir þörfum og nærð á hverju sumri
mönnum til yndis.

Í minni lóð vex aðeins
gulur sinuflóki.
Svo rennblautur af gamalli rigningu
að hann brennur ekki einu sinni
þótt eldur sé borinn að honum.
Og þó er það eina leiðin til að uppræta hann.

Á lóðinni minni
vaxa puntstrá með haustinu.
En hver kærir sig
um þessháttar fegurð?

Rof

Hvað sjá menn svosem
við uppblásið rofabarð?

Fáein græn strá
í svörtum sandi
bera vitni
viðleitni mannanna
í eilífri baráttu við vinda sjó
og sand.

Ekki lái ég þér
að hugsa til framandi stranda.

Þar er ekki sandurinn auðnarland
heldur gylltur af sól og hlýr.

Þar hlaupa fallegar stúlkur
skríkjandi út með öldunni
og börn byggja kastala
í skuggi pálmatrjáa.

Þar er ekki krían
vomandi yfir,
tilbúin að gogga í þig
þegar minnst varir,
engir vindar blása sandi í augu þín
og ekki bera öldur þeirra stranda
lík barna þinna að landi.

Auðvitað ferðu þangað,
auðvitað.

Samt kemurðu aftur
og aftur
á hverju vori
með handfylli af grasfræi

í þeirri staðföstu von
að eitt þeirra skjóti rótum.

Síðsumar

Sjáðu vindinn bylgja hágresið.
Hvað býr í djúpum þess græna fljóts
sem engu fleytir?Sumarkvöld
svamlar máttvana
í grænum öldum grassins.
Nú er af því dregið,
hrekst fyrir vindum
og sekkur í djúp jarðar.
Þar sýgur það úr grasrótum
líf sitt og lit
að skila til moldar á ný
að liðnum vetri.