Gróður

Sjáðu grösin í garði nágrannans.
Saklausu, litlu kærleiksgrösin
sem teygja sig í fagurgrænni gleði í átt til sólar
og sjúga þyrstum rótum
svala úr frjósömum sverðinum.

Ó, hve þau dafna vel í þessum garði,
snyrt eftir þörfum og nærð á hverju sumri
mönnum til yndis.

Í minni lóð vex aðeins
gulur sinuflóki.
Svo rennblautur af gamalli rigningu
að hann brennur ekki einu sinni
þótt eldur sé borinn að honum.
Og þó er það eina leiðin til að uppræta hann.

Á lóðinni minni
vaxa puntstrá með haustinu.
En hver kærir sig
um þessháttar fegurð?