Dögun

Losa auglokin rólega,
bara litlar rifur
rétt til að átta mig á deginum.
Gráleit rönd við gluggabrún
seytlar undir rúllutjaldið.

Of snemmt.
Of dimmt.
Augnlok síga,
límast saman á ný.

Nei! ekki of snemmt,
ekki í dag.
Kippi augnlokunum upp með smelli,
dreg frá glugganum.

Hvítur snjór hefur fallið
á óræktina í garðinum.
Skefur yfir gangstéttina
heim að húsinu.

Fel svitastokkinn náttkjólinn
undir koddanum,
breiði teppi yfir rúmið.
Tilbúin
að takast á við daginn.

Share to Facebook