Frostþoka

Frostþoka þagnar
lagði hemi
Lagarfljót augna.

Bræddi þó bros
svo flæddi
yfir bakkana báða,
hrímþoku hrjáða.

Skógar hafa brumað að vetri
svo bjarkirnar kulu.
Auga fyrir auga,
bros fyrir bros,
þögn fyrir þulu.

Í tifi nýrrar klukku

Ég vaknaði í morgun, við hljóm nýrrar klukku
sem ekki hefur áður slegið í húsi mínu.
Fagnandi leit ég í dimmbláa skífuna og spurði:
„Hvenær klukka mín,
hvenær mun tif þitt hljóðna
og þögnin ríkja á ný í húsi mínu?“

Í þeirri dimmbláu skífu sá ég engan vísi
aðeins svarta miðju og tóma,
aðeins tóma miðju og hring,
í húsi mínu.

En í tifinu hljómaði svarið,
ekki sorgbitið,
ekki ástríðufullt,
aðeins blátt-áfram staðreyndatif;
bráð-um, bráð-um.

Sett í skúffuna í ágúst 1999

Leikur

Drukknuð í rauðhærðu faðmlagi,
hef ég unað mér á freknubeit við axlir þínar.
Þambað vitleysuna af vörum þér
og prrrððrað þríhendu í hálsakotið.

Og leggi ég eyra við nafla þinn
má greina söng sálarinnar í fjarska:
„Allar vildu meyjarnar eiga hann,
hæfaddírífaddirallala og amen“.

Sting að lokum Litla Bleik í vettlinginn
og ríð til þings,
falleruð af ljóðlöngu falleríi forfeðra
sem súrraðir út úr rykugum deginum
vitja mín í hlátri.