Kennd

Eins og lamb að vetri borið
vekur hjartans dýpstu þrá
til að vernda það og hrekja
heimsins varga bænum frá
hefur snemmbær ástúð
snortið minnar blíðu gítarstreng
og snilli tær, hve fljótt mér tókst
að frysta þennan dreng.

Því hann ilmar eins og beitilyng
og bragðast líkt og gras,
og sérhver snerting hans er korn
í háskans stundaglas.
Því eðli mitt er varnarlaust
gegn vorsins mildu hönd
sem vekur líf af dvala
og leysir fossins klakabönd.

Frostþoka

Frostþoka þagnar
lagði hemi
Lagarfljót augna.

Bræddi þó bros
svo flæddi
yfir bakkana báða,
hrímþoku hrjáða.

Skógar hafa brumað að vetri
svo bjarkirnar kulu.
Auga fyrir auga,
bros fyrir bros,
þögn fyrir þulu.

Sálumessa

Af mold ertu kominn
til moldar skal hverfa þitt hold
og hvílast í ró
fjarri eilífð og upprisudómi
en af hverju grátum við dauðann
og greftrun í fold
ef sálin án líkama svífur
í tilgangsins tómi?

Og hver er þá tilgangur andans
ef hold verður mold
og tilgangur holdsins
ef tengslin við sálina rofna?

Eitt annarlegt faðmlag í myrki
á óræðum stað
svo holdlega andlegt
mun aftaka vafann um það;

af mold er mitt hjarta
og býður þér þreyttum að sofna.

Gímaldin samdi lag við þetta kvæði og gaf út 2012.

Skuggar

Að daðra við aðra og drekka af stút
ó drottinn minn hve gott það er.
Liggja og þiggja en laumast svo út
og lofa þeim að gleyma mér.

Ég leyni ekki neinu er leggstu mér hjá
og lætur sem viljirðu skilja og sjá
þann gáska og háska og gleði og þrá.
sem gráa svæðið vekja má.

Skoðaðu eigin skugga og þú munt skilja
þann hataða hvataflaum sem fáir vilja
horfast í augu við en hug sinn dylja
og óttast að aðrir telji
undarlegan.

Þú þekkir mig ekki og þó ertu hér
hvað þvingaði þig hingað inn?
Sáttur við dráttinn það sagðirðu mér
En samt er skammt í barlóminn.

Því lostinn er brostinn og fullnægjan feik
og frelsið er helsi ef trúin er veik.
Og þú biður því miður um mánaðarbreik
því þú meikar ekki þennan leik

Leikum þá annan leik, minn kæri ljáðu
mér eyra að heyra sögu mína og sjáðu
sálar minnar djúp og snertu og sláðu
hjarta míns heita og hrjáða
hörpustrengi.