Í tifi nýrrar klukku

Ég vaknaði í morgun, við hljóm nýrrar klukku
sem ekki hefur áður slegið í húsi mínu.
Fagnandi leit ég í dimmbláa skífuna og spurði:
„Hvenær klukka mín,
hvenær mun tif þitt hljóðna
og þögnin ríkja á ný í húsi mínu?“

Í þeirri dimmbláu skífu sá ég engan vísi
aðeins svarta miðju og tóma,
aðeins tóma miðju og hring,
í húsi mínu.

En í tifinu hljómaði svarið,
ekki sorgbitið,
ekki ástríðufullt,
aðeins blátt-áfram staðreyndatif;
bráð-um, bráð-um.

Sett í skúffuna í ágúst 1999

Leikur

Drukknuð í rauðhærðu faðmlagi,
hef ég unað mér á freknubeit við axlir þínar.
Þambað vitleysuna af vörum þér
og prrrððrað þríhendu í hálsakotið.

Og leggi ég eyra við nafla þinn
má greina söng sálarinnar í fjarska:
„Allar vildu meyjarnar eiga hann,
hæfaddírífaddirallala og amen“.

Sting að lokum Litla Bleik í vettlinginn
og ríð til þings,
falleruð af ljóðlöngu falleríi forfeðra
sem súrraðir út úr rykugum deginum
vitja mín í hlátri.

Þang

Hafaldan greiddi sólarlagið frá öxlum þér
og kyssti fjörusteina.
Greip þétt um þanghjartað
og bar það á burt.

Tvö smáhöf á brimsöltu háflæði
skorti seiðmagn
til að flétta sólarlag,
verja fjörugrjót kossum,
festa rótum þitt reikula þang.