Flassbakk

Það var eitthvað við snertinguna, fingurgómum strokið eftir hnakkanum upp í hársrætur; ég tók þétt um hönd hans.

-Þetta máttu ekki gera, sagði ég.
-Hvað þá?
-Snerta mig á þennan hátt. Svona snertast bara elskendur.

Hann lagðist niður í grasið.
-Hvað þarf ég að bíða lengi? spurði hann.
-Bíða? Hvaða rugl er þetta eiginlega í þér drengur? sagði ég.

Hann settist upp og kitlaði mig með grasstrái á bak við eyrað.
-Þú elskar mig, sagði hann.

Það var óvenju heitt þennan dag.

Mörgum árum síðar kom hann til mín. Ók austur án þess að vita hvort ég yrði heima. Lá við hlið mína fram í dögun, þá reis hann upp og kvaddi mig með kossi á gagnaugað.
-Þú elskar mig, sagði hann.
Ég velti mér á hina hliðina og vafði sænginni þétt utan um mig.
-Takk yndið mitt. Ætli þú elskir mig ekki líka, sagði ég.
Svo bara sofnaði ég þótt væri farið að birta.

Best er að deila með því að afrita slóðina