Kveðjur

Og eftir öll þessi ár hef ég ekki hugmyndaflug til að velja handa honum gjöf sem segir eitthvað sem skiptir máli.

Við vorum einhuga um að skiptast ekki á ljósmyndum. Til hvers að ergja síðari tíma maka með gamalli mynd af einhverjum sem mun alltaf skipta mann máli, eða á maður að fela slíka mynd? Ef út í það er farið eru myndir af okkur báðum á netinu og mynd geymir ekki snertingu, ekki hlátur, andvarp eða málróm, ekki svipbrigði þeirra augnabliksstunda sem valda efnahvörfum í heilanum. Því þegar allt kemur til alls eru það bara efnaskipti.

Ég gaf honum litla pappaöskju með einum einasta kuðungi. Skrifaði utan á hana Öll þessi ósögðu orð á aðra hliðina og teiknaði fugl með þanið vænghaf á hina. Það er þó tákn sem hann skilur.

Í morgun var póstkort í kassanum. Póststimpill en engin undirskrift. Aðeins eitt orð:

Dittó.

Best er að deila með því að afrita slóðina