Eintal

Eva: Mig langar í karlmann.
Birta: Jæja. Af hverju ertu þá ekki löngu búin að verða þér úti um einn slíkan?
Eva: Það bara vill mig enginn. Ég veit; þú verður að gera það. Ég vil að þú farir og finnir mann handa okkur eigi síðar en í hvelli.
Birta: Ég get ekkert fundið almennilegan mann nema hafa réttu græjurnar og það vill svo til að við eigum enga skó með pinnahælum.
Eva: Þetta er stórt og mikið vandamál. Þér hefur ekkert dottið í hug að leysa það bara?

Birta: Ég passa bara ekkert í neina skó. Við erum í nr 35 en 36 er það minnsta sem fæst. Ég er margbúin að reyna að nota háhælaskó sem passa ekki og það endar bara með því að ég hálsbrýt okkur.
Eva: Þetta er rosalegt. Hvað viltu gera í þessu?
Birta: Það gengur náttúrulega ekki að vera með svona gallaðar lappir, þú verður að fara með mig í fótastækkun.
Eva: Glætan spætan að ég fari að láta svoleiðs hégóma eftir þér. Hvað er eiginlega að þessum fótum?
Birta: Ég var að segja þér það; þeir passa ekki í neina skó.
Eva: Þú ert nú ljóti vitleysingurinn. Það hvarflar ekkert að þér að leita betur, leita á netinu, auglýsa eftir lítið notuðum skóm, fara til útlanda eða láta sérsmíða skó? Það eina sem þér dettur í hug er að láta breyta fótum sem eru fullkomlega nothæfir og m.a.s. fallegir líka.

Birta: Hvað var það aftur sem ég átti að útvega?
Eva: Karlmann.
Birta: Af hverju ferðu ekki bara sjálf og nærð í eitt eintak?
Eva: Það virðist bara vera að karlmannssálir í mínu númeri séu ekki til á landinu og þótt víðar væri leitað.
Birta: Og hvað á ég að gera í málinu fyrst ég á ekki einu sinni almennileg veiðistígvél?

Eva: Geturðu ekki bara farið með sálina í mér í viðgerð?
Birta: Jú, ætli það sé ekki eina leiðin? Jú veistu, ég hugsa það.

Best er að deila með því að afrita slóðina