Rafmagnskallinn

Haldiði að rafmagnskallinn hafi ekki bara komið einmitt þegar ég var að birta síðustu færslu. Þetta er greinilega galdrablogg. Hann aftengdi útiljósin og þar með fékk ég rafmagn í íbúðina innanverða. Hann ætlar svo að koma og laga þetta almennilega einhvern næstu daga. Mikill öðlingur, hefði áreiðanlega komið með mér til Bosníu ef ég hefði krafist þess. Eða allavega til Tálknafjarðar. (Einu sinni hélt ég að Tálknafjörður héti eftir fisktálknum en það er önnur saga.)

Jæja, ég var allavega búin að láta Pólínu vita að ég yrði að fresta Bláalónsförinni enda of seint að pæla í því núna þar sem Sykurrófan er uppi í Grafarvogi, Pysjan farin til Snorra og sonur minn Rugludallurinn á fund hjá Tröllavinafélaginu, líklega að plana að fá landvistarleyfi fyrir pólitísk flóttatröll frá Palestínu eða eitthvað álíka viskulegt. Það hefði annars verið sérlega gaman í svona þoku.

Já, það var þetta með fegrunaraðgerðir okkar Nönnu. Best að nota kvöldið í mörkögglaupprætingu fyrst lónið klikkaði. Finnst frekar súrt að Ljúflingurinn minn sem hélt mér félagsskap í bið minni eftir rafmagnskalli, þurfti að fara heim og fóðra tíkina. Hann talaði að vísu um að reyna að fá útgönguleyfi eftir mat svo hugsanlega lokast hann úti í þokunni eða þá að það þokast eitthvað úr lokunni í kvöld. Þegar ég er orðin álfakroppur.