Húsið

Maðurinn er eins og húsið hans segir Húsasmiðurinn.

Til að hægt væri að koma reiðu á risið þurfi að opna það upp á gátt, rífa gluggann úr og bera ruslið út og almennilegt stöff inn. Og nauðsynlegt að gera þetta allt saman með opnum huga. Næst voru brotnir veggir á miðhæðinni, hjarta hússins. Svo þurfti að moka gömlum skít út úr kjallaranum.

Líklega hefði þessi táknhugsun þurft að ná lengra. Hvað gerist ef maður flytur inn í framkvæmdaferlinu miðju? Það fer bara allt í rúst, ekkert flóknara en það. Allt í einu á enginn hlutur vísan stað og maður rífur drasl upp úr einum kassa bara til að troða því aftur ofan í einhvern annan. Ber fullan kassa af minningum upp skjöktandi stiga til að koma honum fyrir í risinu, aftur niður og reynir að finna honum stað í kjallaranum.

Ég kvíði flutningum alltaf. Líka í þetta sinn. Þetta er alveg jafn erfitt og ég hélt að það yrði. Mér finnst sálin í mér vera full af steinryki og sagi.