Og svo fór ég að hjóla

Treysti ég þér ekki segirðu? Kannski er það rétt. Kannski treysti ég engum neitt sérstaklega. Enda ekki ástæða til. Og kemur ekki að sök því ég er ekki varnarlaust barn og þarf þ.a.l. engum að treysta.

Hversu margar kvikmyndir og bækur skyldu fela í sér sömu ógeðslegu klisjusöguna þegar ég lærði að hjóla. Alltaf á sömu leið: pabbi/mamma stóð fyrir aftan hjólið og studdi við það, lofaði að grípa mig ef ég dytti, og allt í einu varð ég þess var að ég þurfti ekki á því að halda. Málið er, ástin mín að þegar ég lærði að hjóla stóð enginn fyrir aftan, tilbúinn til að grípa mig. Og ég lærði það samt.

Þegar ég varð 9 ára bað ég afa og ömmu að gefa mér hjól í afmælisgjöf. Ekki af því að mig langaði í hjól. Mig langaði í prinsessukjól. Úr bleiku silki. Helst með pilsaglennu. En litla systir mín hafði fengið hjól í afmælisgjöf og allir áttu hjól nema ég svo einhvernveginn fannst mér að mig hlyti að vanta hjól líka. Auk þess vissi ég að ég fengi ekki prinsessukjól. Í mesta lagi kjól sem ömmu þætti sætur og hann yrði úr bómull eða flaueli og stelpulegur en ekki með síðu og víðu pilsi og perlusaumuðu brjósti og stórri slaufu á rassinum. Og örugglega ekki pilsaglennu. Ég fékk hjól. Grænt og með gírum og alvöru lás.

Ég kunni ekki að hjóla. Hafði ekki meiri áhuga á hjóli systur minnar en svo að ég hafði aldrei prófað það nema einu sinni með hjálpardekkjum. Sem hún var löngu búin að sleppa. Mitt var með hjálpardekkjum en ég var of fullorðin til að láta sjá mig á hjóli með hjálpardekkjum svo ég tók þau strax af. Og svo fór ég að hjóla. Ég datt. Aftur og aftur.

Á fjórða degi var ég enn ekki búin að ná tökum á listinni að hjóla. Var ennþá sídettandi og dauðhrædd. Og grenjandi af reiði yfir því að geta ekki það sama og öll smábörn í hverfinu. Ég vissi hvað var að. Það var ekkert að hjólinu og það var ekkert að mér. Ég var bara of hrædd. Veistu hvað ég gerði? Heldurðu að ég hafi farið til mömmu og beðið um hjálp? Einhvern til að standa fyrir aftan og grípa mig. Nei, það gerði ég ekki. Af því að ég þurfti ekki á því að halda að treysta á einhvern annan en sjálfa mig. Þess í stað lét ég mig gossa niður Brekkugötu. Þú þekkir Brekkugötu á Akureyri. Hún er mjög brött. Ekki heppilegur æfingastaður fyrir byrjanda sem dettur á jafnsléttu. En ég var heldur ekki að þessu til að læra að hjóla, heldur til að læra að vera ekki hrædd. Ég hugsaði sem svo að ef ég dytti á hjólinu í Brekkugötu, væri lítil ástæða til að óttast byltu á jafnsléttu. Og það var satt.

Ég man ennþá angistarsvipinn á manninum sem sá mig detta. Hann stöðvaði umferðina, öskraði á mig, sagði mér að ég ætti að liggja grafkyrr. Það gerði ég ekki. Ég stóð upp og makaði blóði, tárum og hori í fötin mín. Þegar maðurinn var búinn að sannfæra sig um að ég væri ekki brotin, staulaðist ég heim. Maðurinn teymdi hjólið fyrir mig. Sem betur fór var enginn heima. Ég hafði skafið af mér bæði hnén og annan olnbogann og rifið fötin mín. Það var svosem ekkert óvenjulegt en ég reiknaði með að ef móðir mín sæi útganginn á mér myndi hún banna mér að hjóla niður brattar brekkur. Ég henti fötunum, ég átti nóg af fötum og bjóst ekki við að neinn tæki eftir því þótt einar buxur hyrfu. Svo setti ég plástra á sárin og fór í ermalanga peysu. Ég var svolítið marin í andliti þannig að móðir mín tók eftir því að ég var meidd en það var ekki fyrr en nokkrum dögum síðar sem hún áttaði sig á því hversu mikið. Ég fór nefnilega ekki að haltra að ráði fyrr en plástrarnir sem ég hafði klístrað yfir blóðrisa hnén á mér festust í greftrinum. Ég þurfti hjálp til að ná þeim af og hreinsa sárin og held að móðir mín hafi ekki veinað minna en ég sjálf.

Þetta var ekki í síðasta sinn sem ég datt á hjóli. En ég varð aldrei framar hrædd og ég þurfti aldrei aftur aðstoð til að hreinsa sár. Eftir þetta hellti ég spritti í öll sár strax, hversu lítil sem þau voru. Til öryggis, því mér fannst gröftur lykta illa.

Best er að deila með því að afrita slóðina