Eigum við ekki bara að vera vinir?

-Hef bara svo lítið að gefa, sagði hann og stakk upp á fjarbúð eða vináttu. Eftir 8 mánaða sambúð.

Ég sagði honum að hann yrði sjálfur að pakka saman dótinu mínu þegar hann vildi losna við það, það yrði svo sótt, því ég kæmi ekki hingað aftur og ætlaði aldrei að sjá hann framar. Ég kom samt. Vantaði fáeina hluti og sá að bíllinn hans var ekki hér svo ég fór inn.

Verkefni dagsins:
-Verða mér úti um íbúð.
-Verða mér úti um karlmann.
-Verða mér úti um peninga fyrir þvottavél, kæliskáp, dýnu og flutningabíl til að sæka sófann minn og rúmin strákanna.

Þar sem ég losaði mig við megnið af veraldlegum eigum mínum svo dótið okkar kæmist fyrir á nýja heimilinu, verður lítið mál að pakka því litla sem ég á. Ég tek eitthvað af eldhússáhöldum og snyrtivörurnar mínar sjálf, hann getur séð um afganginn, mér er hvort sem er skítsama um þetta allt saman. Hef enga ánægju af brúðunum mínum lengur og bækurnar verða hvort sem er aldrei lesnar. Ég er reyndar búin að losa mig við megnið af þeim nú þegar.

Ætli það hafi ekki verið 2. júlí sem einhver hringdi frá Gallup og spurði hvað væru margir í heimili. Hann sagðist búa einn. Fullyrti samt að það merkti ekkert þegar ég bað um skýringar. Vildi bara ekki svara neinu sem hugsanlega gæti verið á vegum ríkisskattstjóra. Það hljómaði eins og hann tryði því sjálfur. Væri í alvörunni hræddur um að ríkisskattstjóri væri að njósna um hann og merkti við nafnið hans með rauðum penna í glæsilega skrifblokk í svartri margnota leðurkápu. Hlakkandi yfir hverjum skattsvikara sem kæmist upp um. Kannski ég ætti að temja mér að trúa því sem ég heyri fremur en því sem hljómar skynsamlega. Þegar allt kemur til alls hefur hausinn á mér frekar lítið vit á tilfinningum. En þar fyrir utan stóð náttúrulega aldrei til að stunda skattsvik. Við ætluðum að giftast. Vorum m.a.s. búin að tala við Kela um að gefa okkur saman.

Ég dó pínulítið. Ég er því vön að deyja með augun opin svo ég hef ekki grátið. Þá myndu tárin nefnilega renna út. Ég hef aldrei kynnst karlmanni sem er þess virði að gráta hann en venjulega orga ég samt úr mér sálina þegar einhver dömpar mér, jafnvel þótt ég sjái ekki sérstaklega mikið eftir honum. Ég grét meira að segja ósköpin öll þegar Litli-Graður fór, þótt ég vissi það með viku fyrirvara. En ekki núna.

Því er oft haldið fram að það sé gott að grenja. Það ku víst vera einhver sérstök útrás í því. Ég hef aldrei fundið fyrir því og er ég þó grátkona mikil. Ég hef gaman af því að grenja þegar ég er í sjálfsvorkunn. Tárin gera tragedíuna einhvernveginn meira sannfærandi svo maður getur trúað því smá stund að maður eigi í alvörunni ægilega bágt. En ég er ekki í neinni sjálfsvorkunn. Bara harmi slegin. Og það eina sem hægt er að gera í því er að loka augunum og halda áfram að lifa.

Best er að deila með því að afrita slóðina