Að nálgast viðfang giftingaróra minna

Ég er alvarlega að hugsa um að giftast Doktorsnefnunni. Sem náttúrulega algerlega alvöru Doktor, en við doktorsvörnina mismælti andmælandi hans sig hvað eftir annað og sagði Doktorsnefnan þegar hann ætlaði að segja doktorsefnið. Það er bara of fyndið til að nota það ekki.

Ég er semsagt að hugsa um að giftast honum, af því að ég veit að hann verður góður við konuna sína. Og það er mjög góð ástæða til að giftast manni.

-Hættu nú þessu bulli Eva, maðurinn hefur aldrei sýnt þér áhuga, segir Steinunn.
-Hann hefur aldrei sýnt neinni konu áhuga, svara ég, það er ekki þar
með sagt að sá áhugi sé ekki til staðar.
-Kannski hefur hann ekki áhuga á konum.
-Jú víst. Hann væri löngu kominn út úr skápnum ef það væri málið.
-Jæja, ekki skil ég þig. Þú ert ekki einu sinni hrifin af honum!

-Maður þarf ekki endilega að giftast öllum sem maður verður ástfanginn af. Maður þarf heldur ekki endilega að vera ástfanginn af öllum sem maður giftist. Þetta snýst bara um vináttu og hún dettur ekki af himnum ofan.
-En af hverju einmitt hann?
-Af því að við höfum svipuð lífsviðhorf, áhugamál sem skarast og ég VEIT að hann verður góður við konuna sína.
-Hvers vegna ertu svona viss um það?
-Ég bara veit það. Spurningin er bara hvernig ég á að nálgast hann.

Hvernig nálgast maður einhvern sem kærir sig ekki um að láta nálgast sig?

Rökrétta svarið væri auðvitað að nálgast hann alls ekki. Eða, ef maður er ákveðinn, stilla sér upp í hæfilegri fjarlægð og bíða. Þoka sér nær, smátt og smátt, hægt og rólega. Blaka augnhárunum, nota kynþokkann sem beitu. Ná honum á þriðja bjór og draga hann í rúmið. Vona að líkamleg nálægð veki sjálfkrafa tilfinningu sem minnir á traust en er samt eitthvað allt annað. Nei veistu, ég held ekki. Mér fyndist ég vera að svindla.

Ég ber fulla virðingu fyrir þeim sem fara hefðbundnar leiðir. Það er skynsamlegt að nota þaulreyndar aðferðir í stað þess að vera stöðugt að finna upp hjólið. En ég hef aldrei haft skaplyndi til þess að feta troðnar slóðir og hversu oft sem ég rek mig á það að mínar eigin leiðir skila hvorki skjótari né betri árangri, felst lífshamingja mín einmitt í því að gera sem flest eftir mínu eigin höfði.

-Kannski ætti ég að skrifa honum, hafa bara allt á hreinu.
-Vertu ekki svona víðáttuvitlaus. Af hverju býðurðu honum ekki bara í kaffi? segir Spúnkhildur sem þrátt fyrir tarotspilin trúir ekki á brjóstvit og segist myndu biðja álf um skilríki ef hann yrði á vegi hennar.
-Ok. Það má svosem prófa það en af hverju er ég svona treg til þess? Ekki er það feimni svo mikið er víst.
-Hrædd við höfnun? stingur sonur minn Byltingamaðurinn upp á.
Nei, það er ekki það. Ég hef harðan skráp, góða þjálfun í því að taka höfnun og þar sem ég er ekki einu sinni ástfangin og hef nákvæmlega enga ástæðu til að ætla að maðurinn hafi áhuga á mér, yrði það ekki áfall, ekki sársaukafullt, ekki annað en ponkulítið oooo fyrir egóið og mitt stóra egó þolir nokkuð langa runu af slíkum oooum.

Að lokum hringi ég samt en hann má ekkert vera að kaffihúsarápi –og stingur ekki einu sinni upp á öðrum tíma. Það er fínt. Mér tækist áreiðanlega að hræða hann ef hann þyrfti að sitja augliti til auglitis við mig og kyngja því að mér er fúlasta alvara.

-Þú þarft kannski ekki endilega að koma því að strax að þú viljir giftast honum segir Spúnkhildur. Það þarf þolinmæði til að draga lax að landi.

Málið er að ég lít ekki á þetta sem veiðar og þótt mér finnist leikaraskapur viðeigandi á sumum sviðum, veit ég að ætti ekki við mig að standa í þessháttar dorgi. Sjálfsagt þessvegna sem ég er ennþá ein. Ég myndi aldrei veiða fugl og loka hann í búri og þessvegna sit ég alltaf uppi með farfugla.

Best er að deila með því að afrita slóðina