Bréf til viðfangs giftingaróra minna

Kæri Doktor

Ég skrifa þér þetta bréf til að segja þér að mig langar til að giftast þér. Ég býst við að þér finnist ég óþægilega hreinskilin en ég er þegar búin að senda þér bónorð í formi sonnettu og þú þóttist ekki skilja neitt. Það er ekki hægt að dissa mig elskan, ég bara tek því ekki.

Þú ert hræddur við konur minn kæri. Auðvitað, annað væri óeðlilegt. Og menn sem eru almennt öldungis óhræddir við konur eru samt hræddir við mig. Kannski af því að ég segi og framkvæmi það sem aðrir láta sér nægja að hugsa. En þannig er ég.

Kosturinn við bréfaskrif(tir) er sá að viðtakandinn ræður hvort hann svarar eða ekki og þá hve miklu. Hann ræður því m.a.s. hvort hann les bréfið eður ei. Og ekki þarf að óttast hvatrænt svar því hann hefur nægan tíma til að svara.

Ég hef fullan hug á því að kynnast þér betur. Ég ætla ekki að reyna að ljúga því að þér eða sjálfri mér að ég sé ástfangin af þér. Ég býð aldrei spennt eftir þættinum þínum og hef ekki einu sinni lesið bloggið þitt. Þér hefur ekki brugðið fyrir í kynferðislegum fantasíum mínum og hjarta mitt tekur ekki aukakipp þótt ég sjái þér bregða fyrir á götu.

En ég kann vel við þig, ekki bara af því að þú ert klár og skemmtilegur (það eru allir mínir vinir og bólfélagar), ekki bara af því að mér finnst þú dæmalaust heillandi mannvera og held að við eigum vel saman. Ekki bara vegna þessa (sem þó skiptir máli) heldur trúi ég því staðfastlega, án þess að hafa fyrir því nokkrar röksemdir, að mér yrði óhætt að treysta þér fyrir sjálfri mér. Ég er viss um að þú myndir ekki dæma mig fyrir að vera sú sem ég er.

Þessvegna ætla ég að skrifa þér. Það verða mörg bréf og sjálfsagt misskemmtileg. Þú þarft ekki að svara bréfunum. Þú mátt það auðvitað ef þig langar en ég vænti þess ekki. Þú þarft ekki að segja neitt eða gera neitt sem gefur til kynna að þú hafir nokkurntíma fengið þau. Þú þarft ekki einu sinni að lesa þau en ég er viss um að þú gerir það.

Ég ætla sumsé að lofa þér að kynnast mér, án þess að ógna þér með of mikilli nærveru. Það er kannski ekki mjög skynsamlegt. Sumt í fari mínu hlýtur að kalla á svarið úff, nei; og engin leið að vega á móti því með réttum svipbrigðum í gegnum bréf. Ekki hef ég neinu að tapa.

Þér finnst ég kannski klikkuð en það er ekkert óvenjulegt að fólki finnist það og ef bréfin mín skila ekki þeim árangri að þú, einn góðan veðurdag hringir og segist tilbúinn í kaffibolla (svona án verndar frá hópnum), þá munu bókmenntafræðingar framtíðarinnar allavega líta á þessi bréf sem áhugaverða heimild.
Kær kveðja
Eva

 

Best er að deila með því að afrita slóðina