Rúnt

Skáldjöfurinn vinur minn er kominn í bæinn.

Fólk utan af landi gerir sér oft litla grein fyrir vegalengdum á höfuðborgarsvæðinu og heimsókn utan af landi getur kostað mann æði marga klukkutíma á akstri. Maður sækir einhvern á flugvöllinn, viðkomandi er á leiðinni upp í Grafarvog en biður mann aðeins og koma við í Hafnarfirði í leiðinni. Hann þarf nefnilega endilega að koma til skila sokknum sem Bjarni frændi hans gleymdi hjá ömmu Ingunni síðast þegar hann var fyrir vestan.

Auðvitað er sjálfsagt að gera fólki greiða. Ég tala nú ekki um þessum vinum mínum sem hafa hvað eftir annað flutt fyrir mig heilu búslóðirnar, þrifið fyrir mig bílinn, skotið gæsir handa mér… En það eru fleiri en þeir sem telja það sjálfsagt að maður verji mörgum klukkustundum á dag til að rúnta á milli staða og eiga jafnvel til að hálfmóðgast yfir því að maður þurfi að mæta í vinnuna.

Hvað um það, skáldið hringdi um hádegisbilið og bað mig að sækja sig inn í Garðabæ og aka sér inn í Skógarhlíð til að sækja vegabréfið sitt en hann flýgur til Ameríku í fyrramálið. Ég komst ekki á stundinni en lofaði að koma honum þangað fyrir kl. 15. Hann var eitthvað stressaður greyið, virtist halda að þeir myndu skella á nefið á honum ef hann kæmi ekki í hvelli, svo ég flýtti mér eins og ég gat og við vorum komin þangað um tvöleytið. Ég beið eftir honum úti í bíl og eftir nokkrar mínútur kom hann röltandi fremur vandræðalegur og spurði hvort ég vissi ekki um ljósmyndara í nágrenninu. Hann var semsagt að fara að sækja UM vegabréf sem átti að nota í bítið næsta morgun.

Ég spændi með hann upp í Kringlu og henti honum inn í myndavélarklefann, niður eftir aftur og beið. Og beið. Að lokum fór ég inn til að athuga hvað tefði hann. Hann kom á móti mér með grátstafinn í kverkunum.
-Búinn að standa í röð í korter og svo taka þeir ekki kort, helvítin, og það er hvergi sjáanleg nein tilkynning um það.

Klukkan var farin að ganga 4 og ekki raunhæft að ætla að ná því að fara í hraðbanka og til baka fyrir lokun. Sem betur fer var ég með peninga á mér og þótt hraðafgreiðsla taki venjulega 2 daga kom hann stuttu síðar út með löggiltan passa. Og þá átti ég bara eftir að aka honum aftur inn í Garðabæ og sækja svo fóstursoninn upp á Höfða og koma honum vestur í bæ.

Ég er að hugsa um að gúlla í mig áfengi svo ég hafi löggilta afsökun til að hreyfa ekki bíl í kvöld.

Best er að deila með því að afrita slóðina