Skepnur

Nú þegar sonur minn Pysjan er farinn í sveitina, sonur minn Byltingamaðurinn í skógræktina og Öryrkinn austur að Kárahnjúkum til að mylja undir kapítalið, hefði maður kannski haldið að yrði sæmilega rólegt í húsinu. Ekki fer neitt fyrir Myndgerði litlu fremur en fyrri daginn og spúsa mín sefur fram til fjögur á daginn. En hver hefur sinn djöful að draga og í mínu tilviki eru þeir margir skrattakollarnir sem ég sit uppi með eftir mína mörgu og innihaldsríku samninga við Djöfulinn. Sem hann svíkur svo bara.

Litla Gula Hænan er að gera mig brjálaða. Hún gaggar stöðugt, allan daginn og fram á nótt. „Gaggagagg! Þú ert búin að borða 3 kexkökur, gagggagg, rassinn á þér verður farinn að ná niður undir hnésbætur um jól með þessu áframhaldi. Gagg! Pysjan væri ekki svona hrikalegur intróvert nema af því að þú ert ömurleg móðir, hann á örugglega aldrei eftir að læra að rífa kjaft. Gaggagoggagagg, Byltingin á örugglega eftir að koma sér í vandræði af því að þú hefur haft fyrir honum virðingarleysi við yfirvaldið, hann á örugglega aldrei eftir að læra að halda kjafti þegar það á við. Aggaggagg! Hverskonar aumingi ertu að vera ekki löngu farin í doktorsnám? Hversvegna heldur jafn ömurlegur sölumaður og þú að það gangi upp að vera frílans, hvar enda þessi ósköp?“

Ég þoli þessa hænu ekki. Í gær tókst henni að vekja Fjólu, sem annars sefur álíka fast og Spúnkhildur. Hún sofnaði ekki aftur fyrr en 3 klst síðar og allan þann tíma hæddist hún að mér allan daginn fyrir að hafa tekið leigubíl heim frá leigubílstjóra. Skeit svo á hausinn á mér áður en hún flögraði aftur inn í herbergi og sofnaði í hausinn á sér.

Grái kötturinn segir svosem ekki mikið en glottir bara eins og sá sem veit betur þegar ég reyni að segja honum að þetta með Willie Wondernail segi meira um hann en mig. Í gær hótaði ég að breyta honum í prins og þá stakk hann af og kom ekki heim fyrr en í morgun.

Ég hef áhyggjur af því að sá Grái fari að sækja inn til Mannsins sem heitir ekki Guðmundur heldur Hallgrímur. Kannski ætti ég að gera alvöru úr því að breyta honum í prins. Nornir eiga hvort sem er að búa með svörtum köttum en ekki gráum.

Best er að deila með því að afrita slóðina