Kynlegar konur

Jæja. Þá er ég búin að taka fyrstu vaktina á Kynlegum konum. Það sem kemur mér mest á óvart er að ég er ekki elst. Það eru fleiri en ég sem viðurkenna að hafa logið til um aldur þegar þær sóttu um. Yana er tveimur árum eldri en ég og það var hún sem setti mig inn í starfið. Hún er búin að vera súludansari á Íslandi í tvö ár og bjó hér í nokkur ár á níunda áratugnum.

-Ekkert hafa áhyggjur af aldurinn, sagði Yana. Segja bara sona; „ahh! hvað heldur þú ég er gömul? kannski túttúgu og sex?“ ef þeir spurja. Það virkar. Punktur. Sagði hún tælandi rómi. Hún setti ótæpilegt daður í „túttúgu og seeeex“, lyfti brúnum á sexunni og strauk höndinni niður með lærinu á sér um leið.

Mér sýnist þetta í fljótu bragði mun auðveldara en ég hélt. Kúnnarnir hafa engar væntingar um að maður haldi uppi innihaldsríkum samræðum við þá þótt maður setjist niður hjá þeim til þess að reyna að fá þá til að kaupa falskt kampavín út á krít. Auk þess þarf maður ekki að hafa neina danshæfileika sem kemur sér ákaflega vel í mínu tilviki.
-Þetta ekki íþróttaálfar góða, heldur graðir kallar. Engar áhyggjur af dansinn. Þú bara gera glennu, kúnni borga. Punktur, sagði Yana.

Semsagt, danskunnátta óþörf og er það vel. Að vísu þarf maður að kunna að blaka augnhárunum og brosa flírulega til einfrumunganna sem sækja staðinn. Ég hef aldrei verið sérlega góð í því að blaka augnhárunum en það vill svo heppilega til að Birta ræður prýðilega við það.

Annars hálfvorkenni ég kúnnunum því þetta gengur að verulegu leyti út á að hafa þá að fíflum. Þeir halda, eða eiga allavega að halda, að þegar þeir borga formúu fyrir drykki handa dansistelpunum, fái þær dýrindis kampavín. Sannleikurinn er sá að við fáum er eplasafa með seltser útí, borinn fram í kampavínsglasi. Við megum alveg þiggja þetta kampavín sem þeir borga fyrir en það gerir engin. Húsið tekur 65% af verðinu fyrir hvern ódukkinn drykk sem við seljum. Við fáum restina í okkar hlut og þetta er allt of há launauppbót til þess að nokkurri konu detti í hug að hafna henni.

Best er að deila með því að afrita slóðina