Drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni

Birtan í mér er að gera mig brjálaða. Ég veit ekki alveg hvaðan hún kom en dag nokkurn áttaði ég mig á því að ég deildi líkama með þessari miskunnarlausu persónu sem neyðir mig til þess að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru. Hún hefur angrað mig sérstaklega mikið undanfarið.

Eva: Ég er allt of feit til þess að sé séns í helvíti að einhver vilji mig.
Birta: Ójá! Þú ert sko feit. Förum til Haffa. Núna strax!
Eva:  Ég get ekki staðið í því að sofa hjá virkum alka bara af því að ég er feit. Ég þarf alvöru kærasta.
Birta:  Ég vil ekki sjá neinn kærasta.
Eva: Nei en það er ég sem ræð hérna.

Einmitt í þessum orðum töluðum bankaði hann upp á, Drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni. Ég kenndi honum þegar hann var í tíunda bekk en hef lítið haft af honum að segja síðustu árin. Það er ekki af því að ástin á milli okkar hafi neitt dalað. Það var bara þannig að við bjuggum í sitthvorum  landshlutanum og ég er manna leiðinlegust í síma og hann gæti ekki skrifað þótt hann ætti líf sitt að leysa.

Fyrstu samskipti okkar voru í stafsetningartíma.
-Þú átt eftir að hata mig, sagði hann glaðlega þegar afhenti mér verkefnið sitt í lok tímans.
-Það efast ég um en endilega upplýstu mig. Hversvegna heldurðu að ég muni hata þig? sagði ég.
-Ég fékk tvo í stafsetningu síðast, sagði drengurinn og hljómaði eins og hann væri sérlega stoltur af því og hefði sett sér það markmið að halda tvennunni út árið.
-Þá bara kenni ég þér stafsetningu, sagði ég.
-Einmitt! Það heldur þú og þessvegna áttu eftir að hata mig, sagði hann.
-Nei yndið mitt, það er engin hætta á að ég hati þig þótt þú viljir ekki læra stafsetningu, sagði ég.
-Ég vissi það! hrópaði hann. Kennarinn er skotinn í mér!

Æ síðan hefur hann haldið því fram að ég sé skotin í sér.

Hann kom í heimsókn til okkar Spúnkhildar í Vesturbæinn, einmitt á verulega vondum degi þegar ég var með feituna á háu stigi og farin að pæla alvarlega í því að fara í ræktina eða ganga fyrir björg.
-Ekki svo að skilja að ég nenni í ræktina. Ég hata hreyfingu og hef aldrei á ævinni fengið endorfínkikk. Veit ekki einu sinni hvað það er, sagði ég. En það er styttra í ræktina en fram á einhver björg og sjórinn er kaldur.
Tuttugu mínútum síðar lá ég í hláturskrampa og feitan var liðin hjá.
-Þú kemur mér alltaf til að hlæja kjánaprikið þitt og ég er hætt við að fara í ræktina, sagði ég.
-Það er svona sem það er, sagði hann.
-Sem hvað er?
-Endorfínkikk, sagði Drengurinn. En á meðan þú þekkir mig þarftu aldrei að fara í ræktina. Ég er nefnilega drengurinn sem fyllir æðar þínar af endorfíni.

Og nú stendur hann hér í eldhúsinu okkar Spúnkhildar
-Hvað ertu að gera? spyr Drengurinn.
-Ég er að rökræða við sjálfa mig um það hvort ég eigi að sofa hjá fallegum fávita sem örugglega mun gera líf mitt erfiðara ef ég hitti hann of oft en er á hinn bóginn sá eini sem ég þekki sem er á lausu.
-Og hver er að vinna rökræðuna?
-Hin held ég.
-Þú þarft að giftast Eva.
-Ég veit en ég held að Doktorinn vilji mig ekki.

Suma daga þarf maður eitthvað meira en endorfín til að laga feituna og hálftíma síðar fékk ég Drenginn til að skutla mér til Willie Wondernail. Hann var fullur að vanda.

Best er að deila með því að afrita slóðina