Prik

Drengir þurfa að eiga prik. Ég veit ekki hversvegna en það er bara þannig. Þegar mínir voru litlir báru þeir inn greinar sem voru notaðar sem göngustafir, hestar, vopn og eitthvað fleira sem ég skil ekki. Ég hélt alltaf að þeir væru alveg að vaxa upp úr því svo ég henti öllum prikum þegar við fluttum. Það reyndist alltaf röng tilgáta hjá mér en kosturinn við prik (eða ókosturinn, eftir því hvernig maður lítur á það) er sá að það er alltaf hægt að verða sér úti um nýtt ef mamma manns hendir því gamla í tiltektarkasti. Um helgina kom Pysjan svo heim með eitt prikið enn og nú stendur það upp við glerskápinn í eldhúsinu.

Kynvillingurinn: Þetta er voða huggulegt hjá ykkur, svona fyrir utan þessa austur-evrópsku litasamsetningu en til hvers eruð þið með trjágrein í eldhúsinu?
Spúnkhildur (móðguð): Trjágrein? Þetta er prikið okkar sko.
Kynvillingurinn: Og hvað ætlið þið að gera við þetta prik? Fljúga á því kannski?
Eva: Hey, við lifum á 21. öldinni. Heldurðu kannski að við notum þvottabretti líka?
Kynvillingurinn: Þið eruð semsagt búnar að kaupa ryksugu?
Eva: Nei en það stendur til.
Kynvillingurinn: Þannig að prikið er bara til bráðabirgða?
Spúnkhildur: Það er ekki hægt að fljúga á priki, kjáninn þinn, það þarf strá til að halda ballans. Þetta er náttúrulega flengiprikið okkar.
Kynvillingurinn: Flengiprikið? Hvern ætlið þið að flengja?
Spúnkhildur: Hvor aðra auðvitað, ef við kaupum of mikið af snyrtivörum þú veist.
Kynvillingurinn: Sjúkket, ég var farin að halda að þið væruð í einhverju dómínatrixdæmi, mikill léttir að við erum bara að tala um venjulegt heimilisofbeldi.

Í þessu kom Fjóla flögrandi inn eftir næturrandið:
-Vandaðu málfar þitt kona. Það heitir flengihóra á íslensku en ekki dómínatrix. Og það má reyndar líka nota þetta prik í þeim tilgangi, sagði hún. Svo hvarf hún inn í svefnherbergið mitt.

-Það er svosem ekki verri hugmynd en hver önnur, sagði ég. Þyrfti ekki einu sinni að vera neinn stofnkostnaður. Flengiprikið er til og Pysjan á þessar fínu bússur sem hann er vaxinn upp úr. Ég get bara tekið hvort tveggja traustataki og gert út á karlhatrið í mér. Auk þess notum við þvottaklemmurnar lítið með þennan fína þurrkara á heimilinu svo ég gæti notað þær sem geirvörtuklemmur.
-Dómínatrix í bússum og með þvottaklemmur og trjágrein, hverskonar klám horfir þú eiginlega á? sagði Kynvillingurinn hneyksluð. Veistu ekki að allar almennilegar dómínur ganga í klofháum leðurstígvélum og hýða viðföng sín með leðurstrimlasvipu?
-Flengihóra gæskan, kallaði Fjóla innan úr svefnherberginu.

Og nú er ég búin að finna bússurnar, prikið til reiðu og ekkert eftir nema að finna einhvern óþokka til að hýða. Kosningar eftir nokkra daga og þó nokkuð margir í framboði sem ég gæti hugsað mér að taka almennilega í gegn. Helst vildi ég láta helvítin borga fyrir það líka.

Best er að deila með því að afrita slóðina