Kindur

Júlí 2002. Morgunkaffi á veröndinni. Spúnkhildur lítur yfir lóðina.  Grasið nær mér í hné og limgerðið ber þess heldur engin merki að hér búi garðyrkjumenn.

Spúnkhildur:  Eva. Við ættum að fá okkur kindur.
Eva:  Já, þú meinar! Þá þyrftum við ekki að slá grasið.
Spúnkhildur:  En þær þurfa að vera hreinar. Engar klepróttar vegarollur takk heldur hreinar, hvítar kindur á grænu grasi.
Eva:  Svona eins og rollurnar hennar Lúísu Matt?
Spúnkhildur: Akkúrat. Við þurfum bara að baða þær reglulega.

Eva: Þá þurfa þær að vera hyrndar, annars náum við þeim aldrei ofan í baðkarið. Væri annars ekki einfaldara að lita þær í einhverjum fallegum litum? Ef þær eru hvítar þurfum við sennilega að baða þær á tveggja vikna fresti.

Þetta samtal rifjaði upp fyrir mér atburði úr bernsku. Móðir mín hafði sinn hátt á að leysa vandamál og eitt af vandamálunum í lífi hennar voru kindur.

Við bjuggum á Hjalteyri við Eyjafjörð og sauðfé af nágrannabæ átti það til að rangla niður á Hjalteyri og gæða sér á gróðri sem móðir mín hafði gróðursett með ærinni fyrirhöfn. Lóðin var stór og móðir mín með sérviturri konum í þessum efnum sem öðrum svo við erum ekkert að tala um sumarblóm úr gróðurhúsi heldur fjallajurtir sem hún hafði sótt langar leiðir. Auk þess jörmuðu blessaðar skepnurnar næturlangt undir svefnherbergisglugganum hennar og þegar stjúpfaðir minn stóð unghrút að verki við að  hnoða nýsprautaðan bíl með litlu hornunum sínum, var henni nóg boðið. Hún hringdi í bóndann og bað hann að passa dýrin sín.

Ekki bar sú aðgerð árangur heldur. Hún kvartaði til helstu ráðamanna en hreppstjórinn lét sér fátt um finnast og oddvitinn taldi það einfaldlega eðli sauðfjár að sækja í gróður og að sveitarfélaginu kæmi löngun hreppsbúa til þess sofa á næturnar og eiga óstangaða bíla ekkert við.

Nú var móðir mín bæði orðin reið og  orðið ljóst að hún yrði að leysa málið án aðkomu yfirvaldsins. Hún fékk þá snjallræðis-hugmynd að blanda fatalit og lita eina kind eða tvær. Slík aðgerð myndi ekki skaða dýrin eða meiða þau en hinsvegar yrði ullin ónýt eða í það minnsta myndi kosta nokkra fyrirhöfn að gera hana að söluvöru. Hún reyndi. Sendi mig m.a.s. til þess að hlaupa uppi hrút sem henni var sérlega uppsigað við.  Ég náði tökum á hornum hans en hann var of stór og sterkur til þess að ég gæti dregið hann undir mig og það endaði með því að ég reið honum stuttan spöl áður en hann hann henti mér af baki. Hinar minni skjátur voru of snöggar í hreyfingum til þess að móður minni tækist ætlunarverkið. Á endanum losnaði hún þó undan ágangi sauðfjár með því að verða sér úti um hvellhettubyssu og skjóta út um gluggann í hvert sinn sem þær nálguðust.

Mér finnst þessi hugmynd um skræpótt sauðfé ennþá dálítið heillandi en Spúnkhildur vill bara hafa hvítar kindur. Ég held að ég láti það bara eftir henni. Hún skiptir áreiðanlega um skoðun þegar hún er búin að baða þær svona þrisvar sinnum.

Best er að deila með því að afrita slóðina