Klámstjarnan

Við fórum í menningarferð í Kringluna í dag með börn Spúnkhildar og Sjarmaknippið.  Við ætluðum að kaupa nokkrar kindur í garðinn en sáum enga sem okkur líkaði. Hinsvegar sáum við hið stórbrotna tónskáld og söngkonu Leoncie.

-Vitiði krakkar að þessi kona sem var að ganga hérna fram hjá er fræg? sagði Spúnkhildur. Börnin töldu sig hafa dottið í mikinn lukkupott. Það er ekki á hverjum degi sem maður sér fræga manneskju og þau vildu óð og uppvæg fá nánari skýringar á frægð hennar.
-Hún er bæði söngkona og alvöru prinsessa og svo er hún klámstjarna líka, sagði Spúnkhildur.

Börnunum þótti óstjórnlega fyndið að hafa séð klámstjörnu en Sjarmaknippið heimtaði starfslýsingu.
-Klámstjörnur eru voða asnalegar. Þær vinna á nokkurskonar börum sem heita strippbúllur. Þar eru margar klámstjörnur sem klæða sig í bikini og stígvél og dilla rassinum framan í feita kalla, sagði Spúnkhildur.

Myndgerður taldi víst að prinsessur væru jafnan ríkar og vildi fá upplýsingar um það hvar höll hennar væri staðsett. Ótrúlegt þótti þeim frændsystkinum þó að forrík og heimsfræg söngkona, prinsessa og klámstjarna hefði kosið að reisa höll sína í Sandgerði.
-Hún hefði frekar átt að láta byggja höll í Gólanhæðunum. Það eru líka áreiðanlega fleiri feitir kallar þar en í Sandgerði, sagði Myndgerður.
-Já en það er engin strippbúlla í Gólanhæðunum, sagði Sjarmaknippið. Við Spúnkhildur litum hvor á aðra en sögðum ekkert. Blessað barnið veit auðvitað ekki að í næstu götu við okkur er súludansstaðurinn „Kynlegar konur“ til húsa.

Það var á þessu augnabliki sem Birta fékk hugmynd.

Birta já, ég hef víst ekki sagt ykkur mikið frá henni ennþá. Hún er annaðhvort verri eða betri helmingurinn af mér, ég veit ekki hvort. Hún tekur iðulega ákvarðanir sem ég er efins um en þar sem hún hefur ákveðna hæfileika sem ég hef ekki, get ég ekki lifað án hennar. Hún kann t.d. að raða saman orðum og hræða fólk og hvorttveggja er afar nytsamlegt. Hún hefur hinsvegar afskaplega takmarkaða þolinmæði gagnvart heimskingjum og þar sem fólk er að jafnaði fífl getur óþol hennar komið okkur í vandræði. Hana skortir líka fágun. Hún á það t.d. til að naga neglurnar. Það geri ég reyndar líka og tel það ekki stórmál en Birta á það sko til að naga neglur annarra. Það eru ekki allir sem fíla það skiljiði.

Hvað um það, Birta var vöknuð til lífsins.
-Við sækjum um, sagði hún ákveðin.
-Fyrirgefðu en ertu að stinga upp á því að ég sæki um vinnu á klámbúllu? sagði ég.
-Jamm!

-Nú ertu ekki einmitt alltaf að tala um að þú þyrftir að hafa hærri tekjur? Það er nú ekki feitan gölt að flá í þessari textavinnu þinni, sagði hún þegar ég svaraði ekki.
-Birta.  Kona með mín læri er ekki efni í súludansmey.
-Iss. Þú tekur bara upp sviðsnafnið Lovísa og verður þekkt sem Lovísa með lærin þykku.
– Og auk þess gæti ég ekki dansað til að bjarga lífi mínu.
Birta hló.
– Leoncie er fyrst og fremst tónlistarmaður manstu. Heldurðu kannski að klámbransinn leggi meira upp úr hæfileikum en tónlistariðnaðurinn?
Ég tautaði eitthvað um að prinsessan hefði kannski ekki verulegar tekjur af listsköpun sinni en Birta lét ekki sannfærast.
-Auk þess hefðurðu reynslu, sagði hún.
-Reynslu?

Æjá. Það var einu sinni þorrablót…
Meira um það á morgun.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina