Líklega er maðurinn eina dýr jarðarinnar sem hefur hugmyndir um einhvern sérstakan tilgang með lífinu. Og reyndar held ég að flest fólk hafi enga göfugri ástæðu til að fara á fætur á morgnana en þá að seðja hungur sitt.
Smá ábending
Ekkert samfélag hefur nokkru sinni þrifist án lista, fræða og afþreyingar. Hinsvegar hafa fjölmörg samfélög þrifist án stóriðju og offramleiðslu. Sennilega er eitt gott hláturskast líklegra til að auka lífsgæði fólks en heill farmur af hamingju í dós.
Hér eru tilmæli til þeirra sem vilja leggja niður opinber fjárframlög til menningarinnar á þeirri forsendu að það sé ekki hægt að éta hana: Hoppaðu upp í rassgatið á þér. Þegar þú ert búinn að éta eins og eitt klíó af áli.
Viðeigandi refsing fyrir fjárglæframenn
Loksins var einhver handtekinn. Loksins eygir almenningur von um einhver verði látinn svara til saka. Jibbýkóla! fyrir réttlætinu. Sumir óska Hreiðari Má og öllum hans líkum beint í steininn upp á brauð og vatn og það er svosem ósköp skiljanlegt að þyrsta eftir réttlætinu.
Hinsvegar er það ekkert lögmál að fangavist þjóni réttlætinu. Hugmyndin á bak við fangelsi er sú sama og á bak við útlegðardóma; að sá sem ekki er hæfur þjóðfélagsþegn, eigi ekki rétt á að taka þátt í þjóðfélaginu. Það er rökrétt að svipta hættulega menn frelsi sínu eða úthýsa þeim úr mannlegu samfélagi. Ofbeldismaður er líklegur til að skaða annað fólk, ergó við komum í veg fyrir að hann hitti annað fólk.
En eru braskarar og stórþjófar svo hættulegir að það sé ástæða til að hafa þá í fangelsi? Það get ég ekki séð og finnst ekkert unnið við að stinga fjárglæframönnum og vitorðsmönnum þeirra í steininn.
Í fyrsta lagi þjónar það ekki þeim tilgangi að koma í veg fyrir glæpi. Fangavist getur komið í veg fyrir ofbeldisverk á meðan maðurinn situr inni, en hún getur ekki komið í veg fyrir fjármálamisferli. Menn geta vel stundað viðskipti þótt þeir sitji inni og það er ekki bannað. Dæmi eru um að menn hafi stundað fíkniefnaviðskipti í gegnum hleraðan síma á Litla Hrauni. Við skulum athuga að fangaverðir eru ósköp venjulegir hestamenn á Eyrarbakka. Hlutverk þeirra er að gæta þess að fanginn fari ekki burt og þótt póstur sé yfirfarinn er ekki hægt að ætlast til þess að venjulegir fangaverðir eða löggur botni eitthvað í bókhaldi og viðskiptaskjölum í fórum fanga eða pappírum sem þeir senda frá sér.
Í öðru lagi munu þeir ekki koma út sem betri menn. Betrunarvist í fangelsi getur komið ógæfumanni á lappirnar en á Íslandi er ekki boðið upp á betrunarvist heldur aðeins refsivist. Þó svo væri þá getur betrunarvist kannski hjálpað mönnum að hætta að nota vímuefni og komið þeim af stað í skóla eða vinnu en hún getur ekki læknað siðblindu.
Í þriðja lagi yrði refsingin ekki sú niðurlæging sem margir álíta. Fangavist myndi ekki eyðileggja mannorð þeirra innan síns geira og þeir þurfa ekki á velþóknun almennings að halda. Nú segir einhver að tilgangurinn með fangavist sé ekki sá að betra menn heldur að refsa þeim og það er vissulega þungbært að vera sviptur frelsi sínu. Hinsvegar er stór hluti refsingarinnar sá að missa mannorð sitt, missa traust samfélagsins og ganga í gegnum þá niðurlægingu sem fylgir því að vera dæmdur til refsingar. Og það hversu þungbær sá hluti refsingarinnar er, fer nefnilega dálítið eftir félagslegum aðstæðum hins dæmda. Fangelsisdómurinn var mikil refsing fyrir Árna Johnsen, því svoleiðis nokkuð hendir þingmenn sjaldan og þykir skömm. Fyrir forhertan fíkniefnasala er fangelsisdómurinn sem slíkur hinsvegar ekki neitt rosalega niðurlægjandi. Það er viðurkennt innan hans félagahóps að það sé bara áhætta sem fylgi starfinu. Honum finnst auðvitað leiðinlegt að þurfa að segja mömmu sinni frá því en félagarnir klappa honum á bakið og bölva með honum, þeir eru sjálfir ýmist búnir að sitja inni eða reikna með að það geti komið að þeim. Það sama á við um pólitíska fanga, vistin sjálf er andstyggileg en það getur jafnvel orðið stöðutákn að hafa setið inni.
Í fjórða lagi þá yrðu skilaboðin til annarra skúrka aðeins þau að það kosti svo og svo langan tíma í grjótinu að stela svo og svo miklum pening einmitt vegna þess að þegar fangelsisvist verður norm hjá einhverri stétt manna, minnkar félagslegt refsigildi hennar. Ef 30 íslenskir bisnissmenn frá þunga dóma er hætt við því að það verði síðar á ævinni eins og hvert annað umferðarlagabrot á ferilsskránni.
Í fimmta lagi þá er hinn almenni borgari engu bættari þótt Hreiðar Már fái ekki að hitta konuna sína nema á sunnudögum og símtöl hans við börnin séu hleruð. Hefndarfýsnin hlakkar kannski í einhverjum í nokkrar vikur en það er skammvinn sæla.
Í sjötta lagi er fokdýrt að hafa menn í fangelsi. Það er hagkvæmara að dæma menn til að vinna venjulega launavinnu og borga af henni fullan tekjuskatt en að hafa þá á dagpeningum við að hugsa upp aðferðir til að komast í kringum lögin til að græða meira.
Og hvað þá? Hvernig á þá að refsa þessum mönnum ef ekki með því að loka þá inni? Mér finnst nú eiginlega hugmyndafæð löggjafans rannsóknarverkefni út af fyrir sig. Mér finnst að viðeigandi og rökrétt refsing fyrir fjárglæframenn væri bann við því að hafa nokkur afskipti af almannafé og bann við því að reka og eiga fyrirtæki eða hlut í þeim. Í svæsnustu tilvikum mætti það gilda til lífstíðar. Ég efast um að nokkur lagastoð sé fyrir slíkum dómum en væri hugsanlega hægt að binda fangavist þessháttar skilyrðum? Eða bjóða einhverskonar dómssátt? Mér finnst líka vel koma til greina að dæma þá til einhverskonar enduruppeldis en það gæti orðið dýrt þar sem viðeigandi prógramm er ekki til.
Ég er þess nokkuð viss að ef viðskiptajöfrum og bankablókum yrði boðið að sitja inni eða missa öll sín tækifæri til að setja fólk og fyrirtæki á hausinn, myndu þeir velja fangelsið. Og miklar mega sakir Hreiðars Más vera til þess að hann verði meiri ógn við kollega sína ef hann fær vinnu í Kassagerðinni en við samfélagið allt með því að plotta og plana á Kvíabryggju, í Bitru eða jafnvel á Litla Hrauni. Þessir menn eru braskarar og drulluhalar, ekki ofbeldismenn. Þeir eiga því ekkert erindi í fangelsi. Ekki frekar en vandræðaunglingurinn sem fer í fangelsi vegna óþekktar en útskrifast sem forhertur glæpon.
Eva | 6:40 | Varanleg slóð |
TJÁSUR
Hvað merkir orðið velferðarkerfi?
Eftir umræðuna um atvinnuleysi á facebook í gærkvöld, get ég ekki orða bundist. Það er engu líkara en að fólk skilji ekki hvað orðið velferðarkerfi merkir. Þeir eru jafnvel til sem tala með fyrirlitningu um Norræna velferðarkerfið og benda á að það sé ekki hægt að reka velferðarkerfi nema mylja undir stóriðju. Á fb síðu Heiðu B. Heiðars tjáir sig fólk sem telur að vandi atvinnulausra geti fyrst og fremst skrifast á þá sem misnota bótakerfið.
Án þess að ég ætli neitt að gera lítið úr því álagi sem fylgir fjárhagserfiðleikum, þá snýst velferðarkerfi ekki bara um bætur og niðurgreiðslur. Velferðarkerfi snýst um að skapa þær aðstæður sem þarf til að fólki líði vel. Það krefst útgjalda en þegar upp er staðið sparar það peninga að hafa sem hæst hlutfall af heilbrigðu, virku og hamingjusömu fólki, þessvegna er velferðarkerfi ekki bara mannúðarmál, heldur líka hagkvæmt.
Langvarandi atvinnuleysi hefur ekki bara fjárhagserfiðleika í för með sér, það er langtum alvarlegra en svo. Þegar maður hefur á tilfinningunni að hann sé eingöngu byrði á samfélagi sínu, að enginn hafi þörf fyrir starfskrafta hans og að eini áhugi stjórnvalda á velferð hans snúi að því að halda í honum lífinu, er eðileg afleiðing af því, það sem kallast má lært hjálparleysi. Fólk verður framtakslaust, það missir metnað sinn, sjálfsmat þess verður neikvæðara. Endalaus frítími en engir peningar til að njóta hans á þann hátt sem markaðurinn segir að sé við hæfi og takmarkaður félagsskapur (því allir sem áður töldust jafningar þínir eru í fullri vinnu) auka svo enn á einmanaleikann og eymdina. Þetta ástand getur leitt til alvarlegs þunglyndis, sem aftur er ein af orsökum aukinnar óreglu og glæpastarfsemi.
Þegar stjórnvöld sjá fram á langvarandi atvinnu leysi er nauðsynlegt að koma á einhverskonar atvinnubótavinnu. Laun fyrir vinnu þurfa að vera hærri en atvinnuleysisbætur, jafnvel þótt það séu störf sem ekki eru bráðnauðsynleg til að halda samfélaginu gangandi, vegna þess að fólk sér yfirleitt lítinn tilgang í því að vinna nema það skili því meiri lífsgæðum.
Það er enginn skortur á verkefnum sem einhver þyrfti helst að vinna. Fólk á sjúkrahúsum, elliheimilum, fangelsum og fleiri stofnunum yrði himinlifandi ef einhver kæmi til að sinna félagslegum þörfum þess nokkra klukkutíma á viku. Það hefði sáralítinn aukakostnað í för með sér.
Í ársbyrjun 2009 heyrðust hugmyndir um að atvinnulausir fengju ókeypis aðgang að ýmsum menningarviðburðum sem annars krefjast fjárútláta þegar mörg sæti væru hvort sem er laus. Hvað varð um þær hugmyndir? Það væri velferðarmál sem ekki krefðist stórra útgjalda.
Af hverju geta læknar ekki framvísað þunglyndum, feitum og bakveikum sundskírteini eða aðgangskorti að líkamsræktarstöð í stað lyfja? Það væri velferðarmál.
Af hverju viðgengst það að hús standi auð á sama tíma og hópar af duglegu en skítblönku fólki dreymir um að koma á pólitískri félags- og menningarmiðstöð fyrir almenning? Það er engin slík miðstöð í Reykjavík, Friðarhúsið kemst líklega næst því og margir hópar hafa fengið afnot af því fyrir ákveðin verkefni en það er þörf fyrir miðstöð sem er stöðugt opin og aðgengileg. Það væri velferðarmál að bjóða grasrótarhreyfingum afnot af húsum sem standa auð.
Ókeypis strætóferðir fyrir þá sem ekki eiga bíl væru líka bæði umhverfis- og velferðarmál.
Það er eitt af sjúkdómseinkennum frjálshyggjunnar að hugsa velferðarmál fyrst og fremst út frá krónutölu og hvað stóriðjulausnina varðar, bendi ég á að Danir eiga engar auðlindir en halda samt uppi velferðarkerfi sem stendur hinu íslenska mun framar.
Þess vegna vil ég ekki banna fóstureyðingar
Ég hef stöku sinnum bæði á blogginu og facebook reynt að stofna til umræðu um almenna barnfyrirlitningu í nútíma samfélagi. Áhuginn er enginn.
Um helgina birti ég grein um fóstureyðingar og kallaði eftir umræðu um það hversvegna svo mörg börn væru óvelkomin í heiminn. Ég birti með greininni gamla mynd og umdeilda, kannski vegna þess hve stuðandi hún er. Það eru trúarnöttarasamtök sem unnu hana og birtu og já, þetta hefur virkað því samkvæmt teljaranum mínum hefur þessi grein fengið meiri lestur en allt annað sem ég hef skrifað um barnfjandsamlegt samfélags til samans. Bjóddu fólki upp á klám eða gvuð og það MUN lesa.
Nú rignir yfir mig pósti frá fólki sem skilur bara ekkert í því að manneskja sem hefur margsinnis lýst yfir andúð sinni á afskiptum yfirvalda af því hvernig fólk hagi lífi sínu, skuli vilja láta banna fóstureyðingar. Ég hef reyndar ekki sagt að ég vilji láta banna fóstureyðingar, en þar fer ekki fram hjá neinum að mér finnast þessar aðgerðir ógeðfelldar.
Ég vil ekki láta banna fóstureyðingar. Það væri auðvitað í þágu þeirrar skoðunar minnar að fóstrið eigi að njóta mannréttinda og þar sem lög móta viðhorf myndi það draga verulega úr fóstureyðingum. Hinsvegar myndi bann ekki leysa vandamálið. Fóstureyðingalöggjöfin varð til vegna þess að börn voru óvelkomin og þar liggur hundurinn grafinn, þau verða ekki velkomin þótt við tökum fyrir að fólk noti þessa andstyggilegu lausn.
Samfélag okkar er á yfirborðinu barnvænt. Góð dagheimili og leikaðstaða, skólamáltíðir, nóg afþreyingarefni, leikherbergi í verslunarmiðstöðvum. Þetta lítur vel út og fyrst við gerum ekki ráð fyrir að fólk sinni börnunum sínum eða að þau séu yfirhöfuð þátttakendur í samfélaginu, er þetta allavega skárra en að þau gangi sjálfala. Samt sem áður afhjúpa öll þessi gæði þá nöturlegu staðreynd að börn eru fyrir. Hversvegna þarf alla þessa dagvistun? Það er betra að börn borði mat í hádeginu en sælgæti en er eitthvað eðlilegt við samfélag sem er þannig skipulagt að fjölskyldan hittist ekkert fyrr en á kvöldin? Hversvegna er svona mikil þörf á afþreyingarefni fyrir börn sem eru í daggæslu 30 tíma á viku eða meira? Hvað er það heima hjá þeim sem er svona leiðinlegt, eða mega þau kannski bara ekki vera með fullorðna fólkinu? Hversvegna taka innkaupaferðir svo langan tíma að ástæða sé til að koma börnum í ævintýraland á meðan?
Í alvöru talað. Auglýsingar endurspegla veruleikann. Mér ofbauð fyrir nokkrum vikum þegar ég sá auglýsingu sem hvatti fólk til að kaupa áskrift að grilljón sjónvarpsstöðvum og sofa sjálft fram eftir á meðan barnið sæti við sjónvarpið, koma því svo snemma í bælið og setjast við sjónvarpið sjálft. Ég hef ekki séð nein mótmæli við þessari auglýsingu. Af hverju ekki? Jú, vegna þess að hún er ekki móðgandi, hún sýnir veruleika sem fólk þekkir og er sátt við.
Hversvegna er það svona útbreidd skoðun að börn séu fyrir? Er hægt að breyta því?
TJÁSUR
Það er svona mikil daggæsluþörf af því að ein fyrirvinna er ekki nóg og margar einstæðar mæður. Ég held að það yrði ekki skárra ef hundruð unglinga til viðbótar myndu drita niður börnum.
Posted by: Sigrún | 4.05.2010 | 14:54:47
Ein fyrirvinna er ekki nóg miðað við þær kröfur sem við gerum og það er eðlilegt að fólk setji sér lífsgæðastandard í samræmi við það sem tíðkast í næsta umhverfi þess. Hinsvegar dugði ein fyrirvinna fyrir 30-40 árum.
Mér finnst spurningin bara ekki vera hversu slæmt það yrði ef fleiri unglingar eignuðust börn, heldur hvernig stendur á því að unglingsstúlkur verða óléttar þegar aðgengi að getnaðarvörum er svona gott. Það er algerlega tilgangslaust að tuða um að fólk eigi bara að passa sig. Við þurfum að finna út af hverju fólk passar sig ekki.
Annars eru fóstureyðingar algengastar hjá konum milli 20 og 30 ára en ekki hjá unglingum.
Posted by: Eva | 4.05.2010 | 16:13:47
Var lífið alltaf betra fyrir svo og svo mörgum árum. Man ekki eftir því sjálf að neinn af foreldrum vina minna hafi verið heimavinnandi (20-30 ár síðan). Ekki að það skipti mestu máli.
Elst sjálf upp hjá einstæðri móður sem eins og gefur að skilja hafði ekki kost á því að vera heima. Vorum svo heppin að eiga frábæra afa og ömmu sem eyddu tíma með okkur eftir skóla (þá var skólinn búinn á hádegi t.d). En það sem Mamma kenndi mér þá er að það skipti ekki máli hvað mikinn tíma við fengum saman heldur skipti gæði tímans öllu máli. Hún kennarinn eyddi öllum sínum degi í að vera voða almennileg við annarra manna. Eftir skóla hjá sér ætlaði hún því ekki að koma heim og eyða tímanum í að skamma okkur og siða til. Hún vildi njóta tímans og bakaði með okkur bollur, las ævintýri og ég upplfði svakalega hamingjusama æsku þar sem ég man aldrei eftir mömmu vinnandi. Man bara eftir frábærum stundum sem við eyddum saman.
Hún kennarinn segist finna mikin mun á foreldrum í dag og fyrir 20 til 30 árum síðan en foreldrar í dag taka báðir miklu meiri þátt í barnauppeldinu og sýna jafnmikinn áhuga á öllu skólastarfi og mæta á allar skemmtanir. Áður fyrr var þetta oft bara mamman.
Langloka hjá mér en ég ætla ekki að vera með samviskubit yfir því að vera útivinnandi. Tel að það skipti meira máli að njóta tímans sem við höfum saman, börn þurfa að vera í kringum vini sína og elska að vera í skólanum. Það er gæði tímans sem skiptir máli og hvað með það þó að stöku sinnum sé sett dvd mynd í tækið? Áður fyrr var dvd myndin bara eitthvað annað.
Posted by: Inga | 10.05.2010 | 0:40:46
Ég er ekki að biðja nokkra manneskju að hafa samviskubit yfir því að vinna úti. Ég var sjálf í háskólanámi og vann með skólanum þegar mínir voru litlir. Hinsvegar finnst mér slæmt að skuli varla teljast valkostur lengur vera heima með börnin sín.
Ég held reyndar að lífið hafi að mörgu leyti verið verra fyrir svo og svo mörgum árum en þrátt fyrir meiri fjárhagsstuðning við barnafólk, fleiri dagvistunarpláss, fleiri og fjölbreyttari námstækifæri og sérstaka tilhliðrunarsemi við einstæðar mæður sem vilja fara í nám, meiri ráðgjöf og stuðning við fjölskyldur í uppeldisvanda og með félagsleg vandamál og almennt betri lífskjör, virðast börn ekkert velkomnari en áður fyrr.
Posted by: Eva | 10.05.2010 | 9:36:49
Næsta mánudag drepa íslenskir læknar 3 börn af þægindaástæðum
Þrátt fyrir almenna þekkingu á því hvernig börn verða til og gott aðgengi að getnaðarvörnum, flykkjast íslenskar konur í fóstureyðingu sem aldrei fyrr. Á Íslandi eru framdar meira en 900 fóstureyðingar árlega. Árið 2008 var 955 fósturm eytt eða 3-4 hvern virkan vikudag. Um 16% allra fóstra eru þannig fjarlægð úr móðurkviði oftast án þess að nein ástæða sé til að ætla annað en að þau séu heilbrigð og eigi góða möguleika á að lifa eðlilegu lífi. Hæst er hlutfall þeirra kvenna sem fara í slíka aðgerð á aldrinum 20-30 ára. Stöku sinnum er fóstri eytt af því að heilsu hennar er hætta búin og í örfáum tilvikum hefur konan orðið ólétt við nauðgun. Í um 97% tilvika er það þó af ‘félagslegum ástæðum’ sem verðandi mæður óska eftir því að fóstrið sé fjarlægt.
Um ömurleik fulltrúalýðræðis
Ég trúi því að oftast sé stærsta ástæðan fyrir því að fólk býður sig fram til þingmennsku áhugi á pólitík og löngun til að hafa áhrif. Þegar fólk er svo búið að sitja á þingi í nokkurn tíma og fá staðfest að það hefur engin áhrif á meðan það er í minnihluta, fer það svo að keppa eftir völdum. Þegar þingmaðurinn er orðinn ráðherra og ræður samt enn ekki neinu er starf hans þegar farið að snúast um eitthvað allt annað en að ná fram yfirlýstum markmiðum. Hann þarf að halda vinsældum sínum, eða draga úr óvinsældum og til þess þarf að fórna prinsippum.
Það er nákvæmlega sama hvaða dýrðlingur sest í stól forsætisráðherra, á meðan almenningur lætur sér nægja að græða á daginn og grilla á kvöldin; á meðan almenningur afsalar sér ábyrgð á pólitískum ákvörðunum, afhendur ‘fulltrúum’ vald til að hugsa fyrir sig, þá mun allt starf Alþingis einkennast af valdaströggli og vinsældasamkeppni.
Ríkisstjórnin hefur tekið nokkur gæfuspor undanfarið. Það er vissulega framför að leyndinni skuli loksins hafa verið létta af orkusölu til stóriðju og mér hugnast einkar vel sú stefna að draga úr auglýsingabrjálæði stjórnmálaflokkanna. Ekki skil ég hvað Íslendingar
Bara það eitt að heilt efnahagskerfi hafi hrunið án þess að vinstri flokkarnir yrðu vinstri sinnaðir, segir okkur allt sem segja þarf um ágæti fulltrúalýðræðisins.
Aðeins mannúðlegra
Nánast daglega er ég spurð (oftast í netspjalli) hvernig sé að búa í Danmörku. Ég get í rauninni ekki svarað þessu þar sem ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort ég bý frekar í Danmörku eða úti á landi. Það má vel vera að lífið í Kaupmannahöfn sé öðruvísi en hér í hundsrassi. Ég er heldur ekkert vel inni í dönsku samfélagi, umgengst mest Íslendinga. Ef ég ætti að dæma Dani út frá konunum á elliheimilinu myndi ég segja að þeir væru óttalegir útnáraþumbar en ég hef nú ekki trú á að þröngsýnin sé allsstaðar á sama stigi. Halda áfram að lesa
Barnfyrirlitning og fjárhættuspil – hvort er ósiðlegra?
Pottþétt ráð fyrir foreldra sem vilja losna algerlega við að eiga samskipti við börnin sín!
Kaupið aðgang að grilljón sjónvarpsstöðvum, plantið grísunum fyrir framan imbann og sofið fram eftir degi. Hendið svo börnunum í bælið eins snemma og mögulegt er og setjist sjálf fyrir framan sjónvarpið.
Þetta er inntak skilaboðanna í auglýsingu sem var troðið upp á mig á meðan ég var á Íslandi.
Nú skilst mér að Ragna ráðherra ætli að leggja fram frumvarp sem eigi að hindra erlenda aðila í því að troða veðmálaauglýsingum upp á okkur. Þótt mér finnst óhugnanlegt hversu erfitt er að forðast það að verða fyrir áhrifum af auglýsingum, vil ég nú samt ekki banna þær alfarið. Mér finnst reyndar að megi vel setja einhver skilyrði um það hvaða aðferðum er beitt, t.d. ætti maður ekki að þurfa að afþakka auglýsingabæklinga sem er troðið í póstkassann hjá manni.
Ég dreg í efa að þetta frumvarp Rögnu sé samfélagsbætandi. Ég hefði orðið nokkuð kát ef hún, eða einhver annar, hefði tekið fyrir þá ósvinnu að mennta- og heilbrigðisstofnanir þurfi að gera út á peningagræðgi almennings til að geta boðið upp á góða þjónustu en að banna fyrirtækjum sem ekki eru í eigu hins opinbera að höfða til græðgi eða greddu, það finnst mér út í hött, allavega á meðan viðbjóðsfyrirtæki sem þrífast á barnaþrælkun eru látin óáreitt. Ég held að fæst bönn séu best.
Hvað varðar viðbjóði sem gera út á barnfyrirlitningu eins og þá sem skín í gegn í auglýsingunni sem ég vitnaði til í upphafi þessa pistils, þá vil ég ekki einu sinni láta banna þær. Endilega leyfum þessum drullusokkum að afhjúpa sig. Aðeins þannig er hægt að sniðganga þá.
Þótt sé reyndar lítil von til þess að jafn barnfjandsamleg þjóð og Íslendingar, standi í því að sniðganga þá sem hjálpa þeim að vanrækja börnin sín
Nató er ekki Bandaríkin
Þegar ég ræði andúð mína á NATO og hernaði almennt við hernaðarsinna, fæ ég undantekningalaust spurningu á borð við; ‘á þá bara að láta alræðisstjórnir vaða uppi? Veistu ekki hvenig talíbanastjórnin hegðaði sér í Afghanistan? Átti kannski ekki að grípa til aðgerða í Rúanda?’ Halda áfram að lesa
Ég var einmitt að hugsa um þetta í gær þegar ég heyrði fréttirnar af þessum handtökum. Flott að láta þessa glæpona finna til tevatnsins en ég held að fangelsisvist sé algjörlega óviðeigandi sem refsing. Heldur þætti mér við hæfi að þessir menn yrðu dæmdir í þrældóm til lífstíðar. Með þrældómi á ég við heiðarlegt starf sem er illa borgað og bíður ekki upp á miklar frístundir. Bara svona eins og venjulegt verkafólk þarf að vinna. Og auðvitað myndi fylgja með hörð skattheimta af öllum tekjum…bara til að borga uppí skuldina við þjóðina.
Posted by: Ása | 7.05.2010 | 8:58:26
Varla er auðveldara fyrir þá að stunda ólöleg viðskipti í fangelsi en utan!
Posted by: Sigrún | 7.05.2010 | 10:04:09
mikið til í þessum pælingum, en mín skoðun er að verulega þurfi að efla Betrunnarvistar möguleikann og er þá helst að vísa í bertrunnarlega einstaklinga, það var sorglegt að hlusta á núverandi Ríkislögreglustjóra er hann var Fanngelsismálastjóri lýsa því yfir óhikað að „fangelsi væri til að refsa en ekki betra“ það er sorglegt og ómannlegt viðhorf, enda af þeim sem „detta inn“ fyrir tvítugt eiga 90% örugga endurkomu í fangelsi ! það er sjúkt þegar svo er og greinilegt að mikið er að í refsiúræðum okkar ! en „siðblindu er ekki hægt að lækna“ ! er það ? ekki þekki ég þá meðferð, en Siðblinda er skilgreind sem Geðsjúkdómur ! svo á þá að vista Hreiðar (ef greindur með siðblindu) í ótímabundnu úræði að Sogni ? ekki getur við ætlast til að hann „læknist að sjálfu sér“ ef hann gegur til vinnu við heimilishjálp á vegum Félagsþjónustunnar, eða ef hann skúrar í Hagkaup ! þar sem einmitt eitt af einkennum siðblindunnar er endurtekninng á endurteknigu ofan hvað siðferðis-brot varðar ! væri ekki skást að dæma hann ótímabundið til vistar á Sogni með meðferðaúræðum til nokkura ára, og endurmeta þá hæfni hans til samskifta við annað fólk án þess að valda því skaða ?
Posted by: Gretar Eir | 7.05.2010 | 13:05:37
Það gengi náttúrulega ekki upp að hafa þá lausa nema taka af þeim réttinn til að stunda viðskipti. Þeir kæmust í kringum það með því að stunda viðskipti erlendis svo það þyrfti líka að svipta þá fjárræði.
Posted by: Eva | 7.05.2010 | 15:05:07