Aðeins mannúðlegra

Nánast daglega er ég spurð (oftast í netspjalli) hvernig sé að búa í Danmörku. Ég get í rauninni ekki svarað þessu þar sem ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort ég bý frekar í Danmörku eða úti á landi. Það má vel vera að lífið í Kaupmannahöfn sé öðruvísi en hér í hundsrassi. Ég er heldur ekkert vel inni í dönsku samfélagi, umgengst mest Íslendinga. Ef ég ætti að dæma Dani út frá konunum á elliheimilinu myndi ég segja að þeir væru óttalegir útnáraþumbar en ég hef nú ekki trú á að þröngsýnin sé allsstaðar á sama stigi.

Sá munur sem ég tek mest eftir er tvennt, annarsvegar að skrifræðið er hroðalegt, hinsvegar að þetta er að mörgu leyti eilítið mannúðlegra samfélag en hið íslenska. Og aftur, hugsanlega er það bara sveitamennskan. Hér er fólk einhvernveginn afslappaðra. Það er meiri ró yfir öllu, líka samkomum í barnaskólanum, fólk heilsast á götu og á miðvikudaginn fyrir jól var engin örtröð í búðunum. Allt getur þetta svosem skýrst af dreifbýlinu en eitt er það sem gerir danskt samfélag ögn mannúðlegra, sem sennilega á allsstaðar við; matur er ekki álítinn lúxusvara, ekki heldur í dreifbýlinu.

Hér í Bovrup er matvörubúð úr Spar keðjunni, sambærileg við hverfisbúðirnar ‘Þín verslun’ á Íslandi. Ég bjóst við að það yrði fokdýrt að kaupa í matinn hérna og það er vissulega hærra meðalverð hér en í stórmörkuðunum. Hinsvegar er vel hægt að fylla körfuna af tilboðsvörum og það eru mjög hagstæð kaup. Það eru nokkur mjólkursamlög hér í misháum verðflokkum en það er alltaf einhver gerð af nýmjólk eða léttmjólk á tilboði og lægsta verð hefur aldrei farið yfir 5 dkr lítrinn, þetta ár sem ég hef verið hér. Lægstu laun sem greidd eru í Danmörku eru 110 kr á tímann svo það er allavega hægt að fá töluvert meiri mjólk fyrir mánaðarlaunin hér. Alltaf er a.m.k. ein tegund af kjötáleggi á tilboði, ein af venjulegum brauðosti, ein af borðsmjörlíki eða smjöri, alltaf einhverjar pylsur, bollur eða annað unnið kjöt, alltaf einhverjar pizzur, einhver tegund af frosnum smábrauðum, o.s.frv. Yfirleitt er tilboð á t.d. 10 banönum og 10 eplum og þá er velkomið að taka 5 af hvoru. Eins ef er tilboð á tveimur kexpökkum, þá má maður alveg taka einn af hvorri gerð fremur en tvo eins.

Úrvalið á tilboðsvörum er svo mikið og afslátturinn hverju sinni svo góður að ég skil í rauninni ekki í því að búðin skuli bera sig. Hver kaupir eiginlega skinkupakka á 27 kr, þegar önnur gerð af skinku er á 13,50? Og hver kaupir jarðaberjajógúrt þegar bananajógúrt frá sama fyrirtæki fæst á hálfvirði? Einhverjir hljóta að gera það en stefnan er allavega sú að láglaunafólk eigi að geta keypt í matinn.

Merkilegt annars. Eftir að bókin mín kom út, hafa þó nokkuð margir spurt mig hvort mér finnist í alvöru eitthvað eðlilegt við það að fólk borgi fyrir kynlíf. Enginn hefur hinsvegar nokkru sinni spurt mig hvort mér finnist eðlilegt að fólk þurfi að borga fyrir mat.

Share to Facebook

One thought on “Aðeins mannúðlegra

  1. —————————-

    Persónulega gæti ég alveg hugsað mér þá stöðu að vera að rækta gulrætur og selja þær á markaði. Hins vegar fæ ég mig ekki með nokkru móti til að sjá mig fyrir mér selja sjálfa mig (þ.e. líkama minn) í kynlíf. Reyndar varð mér hálfvegis um og ó þegar vinkonur fóru að minnast á að ég myndi selja þeim grænmeti úr litla reitnum okkar, vil nú frekar bara fá að gefa þeim umframuppskeru:) Og punkturinn um að þurfa að borga fyrir matinn er ágætur. Alla vega er óþolandi níðingsskapur í verðlagi á Íslandi (og á ákveðnum svæðum í París reyndar líka).

    Posted by: Kristín í París | 13.04.2010 | 12:46:40

    —————————-

    Enginn ætti að þurfa að vinna nokkurt starf sem honum finnst ógeðfellt. Það er samt svo skrýtið að á sama tíma og verið er að bjarga konum frá því að vinna við kynlífsþjónustu (líka þeim sem hafa engan áhuga á að láta bjarga sér), viðgengst þrælahald á vegum hins opinbera í fjölmörgum ríkjum. Við lifum í heimi þar sem ekkert er eðlilegt. Markaðshagkerfi er ekki náttúrulegt fyrirbæri en við búum nú við það samt.

    Posted by: Eva | 13.04.2010 | 13:18:17

    —————————-

    Ég er svo einföld að uggur minn gagnvart klámiðnaðinum og þessu ljóta, viðbjóðslega ljóta, sem þar viðgengst, gerir það að verkum að ég fagna alltaf þegar vegið er að honum. Ég hef setið og horft á frönsku vændiskonuna sem kallar á virðingu, sem telur sig betur komna að selja líkama sinn til kynlífs en að vera láglaunuð á kassa í búð. Hún hefur margt til síns máls, en það er samt alltaf einhver gloppa í því sem hún segir frá. Já, markaðshagfokkingkerfið er það sem er viðbjóður og já, líklega er alveg bara allt í lagi að konur og karlar selji sig, svo lengi sem það er á þeirra forsendum. Og já, það er svo margt sem er svo ekki eðlilegt að það er varla hægt að ræða þessi mál eðlilega…

    Posted by: Kristín í París | 14.04.2010 | 20:11:12

    —————————-

    Sammála þér Kristín, það er varla hægt að ræða markaðshagskerfið nema vera með háskólagráðu í hagfræði eða viðskiptafræði því það byggist á lögmálum sem eru eðli mannsins fjarlæg.

    Fólk vinnur við ýmislegt ógeðfellt, t.d. smíði karnorkuvopna og við framleiðslu á alls kyns drasli sem útheimtir stórfellt eignanám og hefur jafnvel í för með sér mengun drykkjarvatns á stórum svæðum. Alvöru þrælahald viðgengst líka.

    Svo þegar menn tefla fram þeim rökum gegn frelsi kvenna til að stjórna lífi sínu án afskipta annarra að markaðsvæðing kynlífs og kvenlíkamans sé ‘óeðlileg’, þá er nú margt óeðlið sem viðgengst á markaðnum sem er brýnni þörf á að uppræta.

    Hvað gloppurnar varðar þá finnst mér ég líka greina gloppur í því þegar vinkona mín heldur því fram að hún sé ánægð í hjónabandinu sínu en þótt mér líki ekki við manninn hennar og trúi ekki á alla þessa hamingju, þá tel ég mig nú samt ekki hafa rétt til að bjarga henni frá honum.

    Posted by: Eva | 15.04.2010 | 6:45:42

    —————————-

    Mjög góður punktur. Eins og næstum alltaf, er ekki eitthvað eitt einfalt svar við þessu. Ég hugsa oft til vændiskonunnar „okkar“ þ.e. þessa konu sem kemur iðulega fram í sjónvarpi og berst fyrir réttindum vændiskvenna í Frakklandi. Þar sem ég er sjálf hætt að horfa á sjónvarpið, sé ég hana ekki lengur og játa að ég er alls ekki viss um hvernig lögin eru hérna. Þær hafa alla vega rétt til að starfa á eigin vegum meðan hórmang er bannað (það má ekki vera yfirmaður sem fær hluta af greiðslunni). Ágætis lausn, held ég. Hins vegar er ég ekki viss hver réttur kaupandans er, þori ekki alveg að fara með það.

    Posted by: Kristín í París | 19.04.2010 | 11:21:28

Lokað er á athugasemdir.