Hvað kemur starf manns málinu við?

Allsstaðar er maður spurður um starfsheiti, jafnvel fyrir dómi.

Vandséður er tilgangur þess að spyrja fólk um starfsheiti í réttarsal nema starf þess komi málinu beinlínis við. Það er eðlilegt að starfsheiti og eða menntun komi fram þegar læknir gefur læknisfræðilegt álit en hvaða máli skiptir það annars hvort vitni er ráðherra, öryrki eða pípulagningamaður? Ef dómurinn hefur ekki hug á að nota þær upplýsingar, hversvegna er þá falast eftir þeim?

Einhvernveginn læðist að mér grunur um að sumt fólk þyki í krafti stöðu sinnar marktækara en annað og einmitt þessvegna er jafn illa við hæfi að starfsheiti sé standardspurning fyrir dómi og að krefja vitni svara um hvaða sjónvarpsþáttum þau fylgist með eða hvort þau fari reglulega til tannlæknis.

Þessi voðalegu orð

Ef maður sem hefur beitt þig andlegu, líkamlegu, fjárhagslegu og kynferðislegu ofbeldi árum saman tekur upp á því að hanga öllum stundum fyrir utan heimili þitt, þarf margra mánaða ferli til að fá því framgengt að honum verði bannað að koma nálægt þér áður en hægt er að fá lögregluna til að fjarlægja hann. Dæmin sanna þó að mjög erfitt er að fá nálgunarbann með dómi því ferðafrelsi ofbeldismannsins er talið dýrmætara en öryggi þolandans.

Það þarf hinsvegar ekki meiri ógn en skilti með áletrun á borð við stríð er glæpur til þess að maður sem aldrei hefur verið orðaður við ofbeldi af nokkru tagi, sé fjarlægður af almennri gangstétt og handtekinn ef einhverjum hjá bandaríska sendiráðinu finnst áminningin óþægileg.

(Hér eru Myndir og umfjöllun Svipunnar )um aðgerðina sem Lárus var síðar dæmdur fyrir og mótmælin gegn ákærunni á hendur honum.

Niðurstaða dómsins yfir Lalla sjúkraliða er skýr, Lárus er sekur. Borgararnir eiga samkvæmt honum að hlýða lögreglu í einu og öllu, hvort sem skipunin á við einhver lagarök að styðjast eða er bara geðþóttaákvörðun. Samkvæmt dómnum er lögreglu þannig heimilit að reka hvern sem er, af hvaða opinbera svæði sem vera skal. Nú bíð ég spennt eftir dómi um að lögreglu sé heimilit að banna manni að ganga í bol með áletrun sem fer í taugarnar á einhverjum eða bera ögrandi skartgripi og hárgreiðslu.

Og hvernig kemst dómurinn að þessari niðurstöðu? Jú í dómnum segir:

Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laganna hvílir sú skylda á íslenskum stjórnvöldum að grípa til viðeigandi ráðstafana til að vernda sendiráð fyrir árásum og koma í veg fyrir röskun á friði eða skerðingu á virðingu þess.

Ekki hefur komið fram hvort Lárus var handtekinn vegna yfirvofandi árásar á sendiráðið, röskun á vinnufriði eða hvort áletrunin stríð er glæpur skerðir virðingu þess. Eitthvað af þessu hlýtur að vera grundvöllur handtökunnar, annars væri hún ólögleg. Allir sem hafa séð myndbandið frá atburðinum (það var birt í fréttum en ég finn það ekki) hljóta að viðurkenna að þarna var engin árás í uppsiglingu og engin röskun á friði heldur. Við hljótum því að túlka dóminn á þá leið að Lárus hafi verið handtekinn fyrir að vega að virðingu sendiráðsins.

bilde Stríð er glæpur

Stríð er glæpur! Hann sagði það! Hann sagði það ekki bara, hann skrifaði það líka! Hann sagði stríð er glæpur. Hvílík gífuryrði, hvílík móðgun. Hugsa sér að nokkur skuli vega þannig að virðingu stríðsherranna og það í nafni tjáningarfrelsis. Hversu langt getur einn maður leyft sér að ganga í því að vega að virðingu hinna göfugu manna sem stjórna baráttunni fyrir heimsyfirráðum Bandaríkjamanna? Stjórnarskrá Íslendinga hefur þetta að segja um tjáningarfrelsið:

Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Þessi skilgreining á tjáningarfrelsinu tryggir Lárusi, samkvæmt dómnum, ekki rétt til að veifa skilti á gangstétt. Semsagt; Lárus Páll hefur brotið gegn allsherjarreglu og öryggi ríkisins. Hann stefnir siðgæði þjóðarinnar væntanlega í hættu með því að innleiða þá hugmynd að stríð sé glæpur og vegur að mannorði helstu stríðsherra Bandaríkjanna með því að halda þessari skoðun fram á þessum helga stað. Þá má leiða líkur að því að hann spilli heilsu manna með tiltækinu, enda munu neikvæðar tilfinningar vera heilsuspillandi. Aukinheldur vegur hann að réttindum stjórnar Bandaríkjanna til að drepa þá sem drepa þarf og svipta þá frelsi sínu sem eru yfirvöldum til leiðinda. Það hlýtur því að teljast nauðsynlegt og samræmast lýðræðishefðum að taka þennan stórhættulega glæpamann úr umferð.

Stríð er glæpur.
Ó hve voðaleg orð

noface.jpgÞetta var einu sinni barn. Afghanskt barn. Nú vitum við að það er glæpsamlegt að vega að virðingu bandaríska sendiráðsins með því að kalla það sem kom fyrir þetta barn glæp.

Lárus Páll hefur nú tvívegis verið handtekinn á Laufásveginum að beiðni starfsmanna bandaríska sendiráðsins. Ekki vegna þess að hann hafi gert neitt ólöglegt. Ekki vegna þess að hann hafi ógnað nokkrum, tafið neinn eða truflað neinn með hávaða. Hann hefur verið handtekinn og í annað skiptið dæmdur sekur, einfaldlega fyrir að skrifa þessi voðalegu orð.

 

Viðeigandi refsing fyrir fjárglæframenn

Loksins var einhver handtekinn. Loksins eygir almenningur von um einhver verði látinn svara til saka. Jibbýkóla! fyrir réttlætinu. Sumir óska Hreiðari Má og öllum hans líkum beint í steininn upp á brauð og vatn og það er svosem ósköp skiljanlegt að þyrsta eftir réttlætinu.

Hinsvegar er það ekkert lögmál að fangavist þjóni réttlætinu. Hugmyndin á bak við fangelsi er sú sama og á bak við útlegðardóma; að sá sem ekki er hæfur þjóðfélagsþegn, eigi ekki rétt á að taka þátt í þjóðfélaginu. Það er rökrétt að svipta hættulega menn frelsi sínu eða úthýsa þeim úr mannlegu samfélagi. Ofbeldismaður er líklegur til að skaða annað fólk, ergó við komum í veg fyrir að hann hitti annað fólk.

En eru braskarar og stórþjófar svo hættulegir að það sé ástæða til að hafa þá í fangelsi? Það get ég ekki séð og finnst ekkert unnið við að stinga fjárglæframönnum og vitorðsmönnum þeirra í steininn.

Í fyrsta lagi þjónar það ekki þeim tilgangi að koma í veg fyrir glæpi. Fangavist getur komið í veg fyrir ofbeldisverk á meðan maðurinn situr inni, en hún getur ekki komið í veg fyrir fjármálamisferli. Menn geta vel stundað viðskipti þótt þeir sitji inni og það er ekki bannað. Dæmi eru um að menn hafi stundað fíkniefnaviðskipti í gegnum hleraðan síma á Litla Hrauni. Við skulum athuga að fangaverðir eru ósköp venjulegir hestamenn á Eyrarbakka. Hlutverk þeirra er að gæta þess að fanginn fari ekki burt og þótt póstur sé yfirfarinn er ekki hægt að ætlast til þess að venjulegir fangaverðir eða löggur botni eitthvað í bókhaldi og viðskiptaskjölum í fórum fanga eða pappírum sem þeir senda frá sér.

Í öðru lagi munu þeir ekki koma út sem betri menn. Betrunarvist í fangelsi getur komið ógæfumanni á lappirnar en á Íslandi er ekki boðið upp á betrunarvist heldur aðeins refsivist. Þó svo væri þá getur betrunarvist kannski hjálpað mönnum að hætta að nota vímuefni og komið þeim af stað í skóla eða vinnu en hún getur ekki læknað siðblindu.

Í þriðja lagi yrði refsingin ekki sú niðurlæging sem margir álíta. Fangavist myndi ekki eyðileggja mannorð þeirra innan síns geira og þeir þurfa ekki á velþóknun almennings að halda. Nú segir einhver að tilgangurinn með fangavist sé ekki sá að betra menn heldur að refsa þeim og það er vissulega þungbært að vera sviptur frelsi sínu. Hinsvegar er stór hluti refsingarinnar sá að missa mannorð sitt, missa traust samfélagsins og ganga í gegnum þá niðurlægingu sem fylgir því að vera dæmdur til refsingar. Og það hversu þungbær sá hluti refsingarinnar er, fer nefnilega dálítið eftir félagslegum aðstæðum hins dæmda. Fangelsisdómurinn var mikil refsing fyrir Árna Johnsen, því svoleiðis nokkuð hendir þingmenn sjaldan og þykir skömm. Fyrir forhertan fíkniefnasala er fangelsisdómurinn sem slíkur hinsvegar ekki neitt rosalega niðurlægjandi. Það er viðurkennt innan hans félagahóps að það sé bara áhætta sem fylgi starfinu. Honum finnst auðvitað leiðinlegt að þurfa að segja mömmu sinni frá því en félagarnir klappa honum á bakið og bölva með honum, þeir eru sjálfir ýmist búnir að sitja inni eða reikna með að það geti komið að þeim. Það sama á við um pólitíska fanga, vistin sjálf er andstyggileg en það getur jafnvel orðið stöðutákn að hafa setið inni.

Í fjórða lagi þá yrðu skilaboðin til annarra skúrka aðeins þau að það kosti svo og svo langan tíma í grjótinu að stela svo og svo miklum pening einmitt vegna þess að þegar fangelsisvist verður norm hjá einhverri stétt manna, minnkar félagslegt refsigildi hennar. Ef 30 íslenskir bisnissmenn frá þunga dóma er hætt við því að það verði síðar á ævinni eins og hvert annað umferðarlagabrot á ferilsskránni.

Í fimmta lagi þá er hinn almenni borgari engu bættari þótt Hreiðar Már fái ekki að hitta konuna sína nema á sunnudögum og símtöl hans við börnin séu hleruð. Hefndarfýsnin hlakkar kannski í einhverjum í nokkrar vikur en það er skammvinn sæla.

Í sjötta lagi er fokdýrt að hafa menn í fangelsi. Það er hagkvæmara að dæma menn til að vinna venjulega launavinnu og borga af henni fullan tekjuskatt en að hafa þá á dagpeningum við að hugsa upp aðferðir til að komast í kringum lögin til að græða meira.

Og hvað þá? Hvernig á þá að refsa þessum mönnum ef ekki með því að loka þá inni? Mér finnst nú eiginlega hugmyndafæð löggjafans rannsóknarverkefni út af fyrir sig. Mér finnst að viðeigandi og rökrétt refsing fyrir fjárglæframenn væri bann við því að hafa nokkur afskipti af almannafé og bann við því að reka og eiga fyrirtæki eða hlut í þeim. Í svæsnustu tilvikum mætti það gilda til lífstíðar. Ég efast um að nokkur lagastoð sé fyrir slíkum dómum en væri hugsanlega hægt að binda fangavist þessháttar skilyrðum? Eða bjóða einhverskonar dómssátt? Mér finnst líka vel koma til greina að dæma þá til einhverskonar enduruppeldis en það gæti orðið dýrt þar sem viðeigandi prógramm er ekki til.

Ég er þess nokkuð viss að ef viðskiptajöfrum og bankablókum yrði boðið að sitja inni eða missa öll sín tækifæri til að setja fólk og fyrirtæki á hausinn, myndu þeir velja fangelsið. Og miklar mega sakir Hreiðars Más vera til þess að hann verði meiri ógn við kollega sína ef hann fær vinnu í Kassagerðinni en við samfélagið allt með því að plotta og plana á Kvíabryggju, í Bitru eða jafnvel á Litla Hrauni. Þessir menn eru braskarar og drulluhalar, ekki ofbeldismenn. Þeir eiga því ekkert erindi í fangelsi. Ekki frekar en vandræðaunglingurinn sem fer í fangelsi vegna óþekktar en útskrifast sem forhertur glæpon.

Eva | 6:40 | Varanleg slóð |

 

TJÁSUR

Ég var einmitt að hugsa um þetta í gær þegar ég heyrði fréttirnar af þessum handtökum. Flott að láta þessa glæpona finna til tevatnsins en ég held að fangelsisvist sé algjörlega óviðeigandi sem refsing. Heldur þætti mér við hæfi að þessir menn yrðu dæmdir í þrældóm til lífstíðar. Með þrældómi á ég við heiðarlegt starf sem er illa borgað og bíður ekki upp á miklar frístundir. Bara svona eins og venjulegt verkafólk þarf að vinna. Og auðvitað myndi fylgja með hörð skattheimta af öllum tekjum…bara til að borga uppí skuldina við þjóðina.

Posted by: Ása | 7.05.2010 | 8:58:26

Varla er auðveldara fyrir þá að stunda ólöleg viðskipti í fangelsi en utan!

Posted by: Sigrún | 7.05.2010 | 10:04:09

mikið til í þessum pælingum, en mín skoðun er að verulega þurfi að efla Betrunnarvistar möguleikann og er þá helst að vísa í bertrunnarlega einstaklinga, það var sorglegt að hlusta á núverandi Ríkislögreglustjóra er hann var Fanngelsismálastjóri lýsa því yfir óhikað að „fangelsi væri til að refsa en ekki betra“ það er sorglegt og ómannlegt viðhorf, enda af þeim sem „detta inn“ fyrir tvítugt eiga 90% örugga endurkomu í fangelsi ! það er sjúkt þegar svo er og greinilegt að mikið er að í refsiúræðum okkar ! en „siðblindu er ekki hægt að lækna“ ! er það ? ekki þekki ég þá meðferð, en Siðblinda er skilgreind sem Geðsjúkdómur ! svo á þá að vista Hreiðar (ef greindur með siðblindu) í ótímabundnu úræði að Sogni ? ekki getur við ætlast til að hann „læknist að sjálfu sér“ ef hann gegur til vinnu við heimilishjálp á vegum Félagsþjónustunnar, eða ef hann skúrar í Hagkaup ! þar sem einmitt eitt af einkennum siðblindunnar er endurtekninng á endurteknigu ofan hvað siðferðis-brot varðar ! væri ekki skást að dæma hann ótímabundið til vistar á Sogni með meðferðaúræðum til nokkura ára, og endurmeta þá hæfni hans til samskifta við annað fólk án þess að valda því skaða ?

Posted by: Gretar Eir | 7.05.2010 | 13:05:37

Það gengi náttúrulega ekki upp að hafa þá lausa nema taka af þeim réttinn til að stunda viðskipti. Þeir kæmust í kringum það með því að stunda viðskipti erlendis svo það þyrfti líka að svipta þá fjárræði.

Posted by: Eva | 7.05.2010 | 15:05:07

 

Afglapaskrá lögreglunnar

Ég hef ákveðið að taka saman afglapaskrá lögreglunnar.

Ég ætla strax að fara að halda afglapadagbók fyrir árið í ár, ekki seinna vænna, því afrekin hrannast upp. Mig langar einnig að safna saman atvikum frá fyrri árum en ætla að leggja alla áherslu á þetta ár til að byrja með. Mig langar að koma afglapaskrá áranna 2009 og 2010 í birtingu fyrir áramót  því þannig er alltaf hægt að bæta inn í síðar. Mér sýnist skráin fyrir 2009 vera orðin svo umfangsmikil að það krefjist töluverðrar vinnu að skrá og leggja út af öllum þeim fjölda atvika og til að ná þeim áhugaverðustu fyrir áramót þyrfti ég að fá aðstoð. Halda áfram að lesa

Að ala upp hryðjuverkamenn

Það kemur svosem ekki á óvart þótt hópur fólks sem gerði tilraun til þess þjóðþrifaverks að reka þingmenn út úr Alþingishúsinu, þessu tákni lýðræðis og frelsis, haustið 2008, sé talinn slík ógn við blessað yfirvaldið að ekki dugi minna en árs fangelsi til að tryggja þeim væran nætursvefn sem skópu sprækum og sniðugum útrásarstrákum æskilegt lagaumhverfi og þeim sem þvert á fyrri yfirlýsingar, eru nú búin að selja sjálfstæði okkar í hendur alþjóða gjaldeyrissjóðsins.  Halda áfram að lesa

Særð eftir sýru

 

Fréttablaðið birtir í dag frétt með fyrirsögninni Rannveig Rist særð í andliti eftir sýruárás. Þetta er sláandi fyrirsögn og rökréttast að álykta að ribbaldar hafi ráðist að henni í nótt eða gærkvöld með einhverskonar efnavopnum í þeim tilgangi að skaða hana.

Svo kemur í ljós að um er að ræða 2ja mánaða gamla frétt, sem af einhverjum dularfullum ástæðum hefur ekki verið birt áður. Ekki var ráðist á Rannveigu, heldur bílinn hennar en hún varð fyrir þessu óhappi þegar hún opnaði bílinn sinn og efnið skvettist úr hurðarfalsi. Reyndar má draga í efa dómgeind manneskju sem snertir bíl sem hefur verið meðhöndlaður með efni sem er svo sterkt að það bræddi rúðurnar í bílnum hennar. Mig langar að sjá mynd af þeim rúðum því hafi sú frétt að önnur eins efnavopn séu komin í noktun hjá aðgerðasinnum verið birt fyrr, hefur hún farið fram hjá mér.

Sé það rétt að Rannveig hafi orðið fyrir meiðslum, lýsi ég samúð minni með henni. Ég held að langflestir umhverfissinnar vilji komast hjá því að valda manneskjum skaða hversu sekar sem þær eru. Mér er hinsvegar skítsama um bílinn hennar og mér er jafn drullusama um bíl Hjörleifs Kvaran. Því eins og umhverfissinnar hafa margbent á er jörðin ekkert ‘að deyja’ heldur er verið að drepa hana. Og þeir sem bera ábyrgð á því hafa nöfn og heimilisföng.

Hættur, farinn

Á meðan fólkið sem bauð sig fram til þingsetu undir merkjum umhverfisvænnar vinstri hreyfingar keppist við að koma meiri völdum á færri hendur, sitja kjósendur aðgerðalausir og bíða eftir að ‘eitthvað’ gerist. Þeir fáu sem nenna og þora að láta ‘eitthvað’ gerast, vita nú af reynslunni að þeir eru of fáir til að ná árangri. Ekki einu sinni kannabisræktendur ná almennilegum árangri og eru þeir þó öllu fleiri en aðgerðasinnar á Íslandi.

Halda áfram að lesa