Að ala upp hryðjuverkamenn

Það kemur svosem ekki á óvart þótt hópur fólks sem gerði tilraun til þess þjóðþrifaverks að reka þingmenn út úr Alþingishúsinu, þessu tákni lýðræðis og frelsis, haustið 2008, sé talinn slík ógn við blessað yfirvaldið að ekki dugi minna en árs fangelsi til að tryggja þeim væran nætursvefn sem skópu sprækum og sniðugum útrásarstrákum æskilegt lagaumhverfi og þeim sem þvert á fyrri yfirlýsingar, eru nú búin að selja sjálfstæði okkar í hendur alþjóða gjaldeyrissjóðsins. 

Ekki stendur hinsvegar til að refsa þeim sem settu slík lög eða stöðva þá í frekari óskunda. Flestir þeirra sitja enn á Alþingi. Aðeins þeir fáu sem sýna viðleitni til að koma fram af heilindum hrekjast burt.

Ekki kemur það mér á óvart þótt refsingar sé krafist af hálfu ríkisins. Valdsmenn, hvort sem þeir starfa innan stjórnkerfisins eða ráðskast með almenning í krafti auðs og ætternis, hafa sannarlega ástæðu til að óttast þá sem sjá í gegnum þá og gera eitthvað í því, en aum er sú þjóð sem lætur það viðgangast að þeir sem rísa gegn spillingu og valdníðslu séu teknir úr umferð.

Þegar stjórnvöld sýna almenningi yfirgang, eru minniháttar uppreisnir, bogaraleg óhlýðni og skemmdarverk þau ráð sem fólk beitir og mun áfram beita til að fá áheyrn. Harðræði gegn slíkum aðgerðum elur af sér ótta en aðeins hjá sauðmúganum. Þeir sem hafa þó meiri réttlætiskennd en úldið ýsuflak, bregðast hinsvegar við óeðlilegri hörku með reiði og aðgerðum, Og mikil og langvarandi reiði elur af sér hatur, stundum dýpra og öflugra hatur en svo að yfirvaldið ráði almennilega við það.

Með kröfum sínum nú er ákæruvaldið að kalla á vopnaðar árásir. Verði þessum fáránlegu kröfum ákæruvaldins ekki hafnað, er þess ekki langt að bíða að óeirðir að grískri fyrirmynd verði jafn sjálfsagðar og útifundir hinna brjóstumkennanlegu hagsmunasamtaka heiglanna. Með viðbrögðum sínum við hóflegum mótmælaaðgerðum er íslenska réttarkerfið ósköp einfaldlega að ala upp hryðjuverkamenn.

Share to Facebook

One thought on “Að ala upp hryðjuverkamenn

 1. ———————————————-
  Ertu enn að mótmæla? Þitt fólk er við völd! Hvað viltu meira? Getur það verið að byltingin éti börnin sín? Vopnaðar árásir? Hvenær er nóg? Yfirvaldið – hvaða durgur er það? Hvað réttlætir vopnaðar árásir? Ég spyr af forvitni einungis, fyrir þá aðra sem rafra hér um.

  Posted by: agamemnon | 30.01.2010 | 1:27:20

  ———————————————-

  ‘Mitt fólk’ er ekki við völd. Þótt ég hafi stundum kosið vg af því að það var illskársti kosturinn sem þetta pylsulýðræði býður upp á, getur fólk sem framfylgir hægri stefnu eftir að hafa verið kosið út á vinstri stefnu aldrei verið ‘mitt fólk’.

  Vopnaðar árásir og aðrar aðgerðir sem gætu talist til hryðjuverka eru rökrétt svar við löglegu ofbeldi. Ég er ekki hrifin af átökum en fólk hefur rétt til að verja sig þegar er ráðist á það. Einnig þegar sjálfstæði þjóðarinnar er ógnað.

  Með því að beita vopnum, girðingum og hnefavaldi til að koma í veg fyrir að fólk geti varið sjálfstæði sitt er lögreglan einfaldlega að lýsa yfir stríði.

  Posted by: Eva | 31.01.2010 | 15:42:32

  ———————————————-

  Yfirvaldið er hver sá durgur sem hefur vald yfir þér.

  T.d. durgarnir sem hafa vald til að ákveða að þú og þínir niðjar eigið að borga skuldir stofnana sem eru einkafyrirtæki þegar þær græða en ríkisfyrirtæki þegar eigendur þeirra eru búnir að nota þau til að ræna þig.

  Einnig durgarnir sem mega skvetta eitri á þig þegar þú heimsækir hina fyrrnefndu durga til að láta þá vita að þú kærir þig ekki um að borga skuldir bankaræningja.

  Posted by: Eva | 31.01.2010 | 15:59:17

  ———————————————-

  Hvernig skilgreinir þú hægri stefnu? Ég hef ekki séð neitt annað en yfirþyrmandi sósialisma síðasta áratuginn – síðasta árið eða svo er reyndar tileinkað kommúnisma, en það er önnur saga. Í hnotskurn, þá stjórna sérhagsmunir öllum flokkum, en ekki almannahagsmunir (sammála?). Þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það eflaust alltaf vera. Þú komst Steina og Jóku til valda – ekki ferðu að hlaupast frá því núna?
  En ég er þér fullkomlega sammála, hver og einn hefur rétt til að verja sig þegar á hann er ráðist. Sjálfstæði þjóðarinnar – það kallar á einhver samhug er það ekki? Heiðarleika á meðal þjófa? Hverjum ætlarðu að treysta til að fylkja þér og þínum að baki tilteknum gunnfána?
  Þú skilgreinir durga nokkuð vel og ég hlýt að vera sammála þér. Það er ótækt að einkavæða gróðann en ríkisvæða tapið – svo ég grípi þessa klisju á lofti. Hverjum dettur slíkt í hug? VG kannski?

  Posted by: agamemnon | 5.02.2010 | 23:09:28

  ———————————————-

  Ég tók þátt í því að koma vanhæfri ríkisstjórn frá völdum. Ég óskaði hinsvegar ekki eftir því að önnur eins tæki við.

  Aðalmunurinn á hægri og vinstri stefnu er sá að hægri menn vilja sem mesta einkavæðingu em minnst afskipti ríkisins af fjárreiðum fyrirtækja á meðan vel gengur. Hins vegar er sjálfsagt að ríkið sitji uppi með skaðann þegar þeir eru búnir að keyra allt í gjaldþrot með svikum og þjófnaði og það var fyrri ríkisstjórn en ekki VG sem á heiðurinn af því.

  Annars er marklaust að tala um hægri og vinstri í dag. Vinstri menn jafnt sem hægri aðhyllast heimsvaldastefnu og um það snúast hin raunverulegu pólitísku átök í dag. Ekki hægri og vinstri, heldur það hvort maður styður heimsvaldastefnu eða vill forðast að safna völdum á fáar hendur.

  Það er ekki á mínu valdi að treysta einhverjum ákveðnum hópum til að standa með baráttunni fyrir þátttökulýðræði. Það verður bara að koma í ljós hverjir standa sig þegar á reynir. En þeir verða fáir, allavega á meðan lýðurinn hefur brauð og leika.

  Posted by: Eva | 6.02.2010 | 8:42:58

  ———————————————-

  Þið höfðuð þá ekki árangur sem erfiði.
  Eflaust kemur það þér ekki á óvart, en ég er ósammála þér varðandi skilgreiningu þína á hægri stefnu. Mér er gjörsamlega ómögulegt að skilja hvers vegna sú leið var valin að ríkisvæða allan þennan ósóma. Það hefur ekkert með „hægri“ stefnu að gera. Því síður frjálshyggju – hvað þá nýfrjálshyggju (hvað svo sem það er).
  Það að ríkisvæða tap í einkarekstri hefur ekkert með hægri stefnu að gera – en það hefur allt með spillingu að gera! Fyrri ríkisstjórn innihélt Samfylkinguna, þannig að því sé til haga haldið. Og sú nýja með þátttöku VG á heiðurinn að hinu meinta Icesave samkomulagi, sem er hannað til að standa vörð um hagsmuni Baugsveldisins (íslenskir „hagsmunir“ í veldi Breta í Landsbankaútibúinu hið ytra).
  Spilling hefur ekkert með hægri né vinstri að gera. Og hérna held ég að við séum sammála.
  Ég efast stórlega um að í kollinum á forsætis- eða fjármálaráðherra örli á heimsvaldastefnu. Þau hafa hvorki vitsmuni né burði til að framfylgja slíku. Spurning: hvernig lítur „heimsvaldsstefna“ út; séð frá sjónarhóli íslenskra molbúa?

  Posted by: agamemnon | 6.02.2010 | 20:38:05

  ———————————————-

  Íslensk stjórnvöld hafa ekki haft neitt bolmagn til að útfæra eða framfylgja eigin heimsvaldastefnu, til þess er okkar hagkerfi allt of lítið. Íslenskt stjórnarfar er hinsvegar þáttur í, og afleiðing af heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Það sem mun gerast á næstu árum er að AGS tekur hér yfir, kemur ríkisfyrirtækjum í hendur erlendra stórfyrirtækja og einkavæðir vatnsréttindin.

  Ég held að íslenskir Molbúar hafi afskaplega óljósa hugmynd um hvað heimsvaldastefna er og hvernig hún birtist og sú fáfræði kemur valdhöfum (og við skulum hafa hugfast að það eru auðmenn sem eru stærstu og hættulegustu valdhafarnir) ákaflega vel.

  Posted by: Eva | 7.02.2010 | 5:30:25

  ———————————————-

  Þátttökulýðræði hefur tvær hliðar. Annars vegar hina vel meintu og menntuðu hlið, sem snýr að jafnræði, hógværð, hluttekningu, skilningi o.s.frv. og vissu þess að sakir vitsmunalegrar orðræðu muni þjóðfélagið komast að bestu lausn. Hin hliðin er að sjálfsögðu raunveruleikinn, sem snýr að múgæsingu, ofstæki, ofríki, yfirgangi og fleira af þeim toga. Enda ekki að ástæðulausu að ýmis máltæki eru til um þessa vegferð, svo sem eins og: The road to hell is paved with good intentions.
  Voru það ekki Rómverjar sem lögðu áherslu á að halda lýðnum í skefjum með brauði og leikum?
  Ég held að þú hafir of miklar áhyggjur af hinni meintu heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Í þessum rituðum orðum eru efnahagskerfi Vesturlanda að hrynja. Hægt og bítandi. Gjaldmiðlarnir eru á leið að verða verðlausir – við fengum forsmekkinn af því fyrir ári síðan eða svo. Það sem þú þarft að hafa í huga er að ekkert er línulegt eða exponential út í hið óendanlega. Á einhverjum tímapunkti er allur vindur úr seglunum. Það er lögmál.
  AGS mun aldrei taka hér yfir. Áður en að slíku kemur gerumst við öll framsóknarmenn og förum að jarma í kór.

  Posted by: agamemnon | 12.02.2010 | 20:09:55

  ———————————————-

  Jæja.

  Posted by: Eva | 18.02.2010 | 14:48:55

  ———————————————-

  Hvernig er þetta eiginlega, telur þú þig gegna því hlutverki að vera einskonar tilkynningaskylda um hryðjuverkaógn sem steðjar að íslenska ríkinu!?

  Man ekki betur en að þú hafir áður komið fram með svona yfirlýsingar við hið opinbera, í viðtali við umhverfisráðherra fyrir nokkrum árum.

  Hvað ætli löggan hafi fengið margar hlerunarheimildir í gegn í krafti þessara yfirlýsinga þinna?

  Það er tími til kominnn að þú, Eva norn, farir að passa svolítið betur þennan stóra yfirlýsingaglaða kjaft.

  Posted by: Garðar | 4.06.2010 | 12:34:15

  ———————————————-

  Ætli þú stjórnir nokkuð mínum skrifum litli minn.

  Posted by Eva:   |10.06.2010 | 12:34:15

Lokað er á athugasemdir.