Viðtal við barnsföður Hjördísar Svan

mynd-hj-svan-688x451

Forræðismál Hjördísar Svan hefur verið áberandi í opinberri umræðu síðustu þrjú árin. Þeir sem fylgjast með umræðunni í fjölmiðlum standa frammi fyrir óþægilegri þversögn. Við höfum ekki nógu miklar upplýsingar frá báðum hliðum til þess að mynda okkur upplýsta skoðun en um leið er erfitt að komast hjá því að mynda sér skoðun, einkum þegar við sjáum myndir af grátandi börnum og lýsingar móður og barna á ofbeldi og kúgun.

Það gekk fram af mér þegar börnin voru slitin frá móður sinni með valdi. Ég trúi því ekki að nauðsynlegt sé að beita þessháttar aðferðum í forsjárdeilum. Ég álít heldur ekki að lög séu heilög og þótt ég teldi augljóst að Hjördís hefði beitt afar slæmum baráttuaðferðum í þessu máli, þá trúði ég því líka að hún hlyti, með réttu eða röngu, að vera raunverulega hrædd um börnin. Ég skrifaði um mál Hjördísar hér.

Síðan hafa komið fram ásakanir um kynferðisofbeldi og enn veit maður ekkert hverju maður á að trúa. Varla er nokkur að ljúga upp svona ljótri sögu? En samt … það er ekki óþekkt í tálmunarmálum að ásakanir verði safaríkari eftir því sem „óvinurinn“ (hitt foreldrið) sækir fastar að fá að hitta barnið. Stundum eru börn í þessari aðstöðu jafnframt mötuð á hugmyndum um að hitt foreldrið sé slæm manneskja og því gefnar upplýsingar sem það hefur ekkert með að gera og engan þroska til að vinna úr. Þannig er barninu stundum sagt frá framhjáhaldi, óábyrgri hegðun í fjármálum, eða öðru neikvæðu sem það hefur engar forsendur til að leggja mat á.

pabbiÞegar maður lítur til þess hversu algengt er að foreldri sem tálmar umgengi sverti hitt foreldrið í augum barnsins og saki það um ofbeldi, hlýtur sú spurning að vakna hvort kunni að vera réttmæt ástæða fyrir því að dönsk barnaverndaryfirvöld taka ásakanir Hjördísar og hennar stuðningsmanna ekki til greina. Úr því verður ekki skorið hér en ég undrast það hve margir virðast tilbúnir til þess að fella dóma yfir föður barnanna án þess að þekkja hans hlið á málinu.

En hefur kerfið ekki brotið gegn rétti Hjördísar og barnanna?

Mikið hefur verið talað um forkastanleg vinnubrögð bæði íslenskra og danskra barnaverndaryfirvalda í máli Hjördísar og Kims. Samkvæmt þeim gögnum sem hér eru birt hefur þó hver dómurinn á fætur öðrum komist að þeirri niðurstöðu að engin ástæða sé til að koma í veg fyrir að börnin umgangist föður sinn.

Það er heldur ekki rétt sem sumir halda að Evrópunefnd hafi fellt úrskurð um að málið sé illa unnið af hálfu danskra yfirvalda. Hið rétta er að nefndin safnaði saman sögum og saga Hjördísar er ein þeirra. Tilgangurinn var sá að gera stjórnvöldum grein fyrir því að margir foreldrar í þessari stöðu telji sig ekki hafa fengið áheyrn og sanngjarna meðferð. Frásagnir foreldra sem telja á sér brotið eru skráðar en sannleiksgildi þeirra er ekki kannað en engin afstaða tekin til þess hvort umkvartanir séu réttmætar, enda er það ekki hlutverk nefndarinnar. Í lok skýrslunnar eru talin upp nokkur mál þar sem skorað er á stjórnvöld að endurskoða úrskurði sína. Mál Hjördísar er ekki meðal þeirra. Hér er skýrslan.

Það má gagnrýna það hvernig staðið var að því að taka telpurnar úr umsjá Hjördísar. Það getur talist slæm framkoma við börnin. Þó er varla hægt að fullyrða með neinni sanngirni að íslensk yfirvöld hafi beitt Hjördísi órétti. Þvert á móti hafa komið fram gögn sem benda til þess að Innanríkisráðuneytið hafi farið á svig við fjölþjóðlega samninga til þess að styðja hana í brottnámi barnanna. Sé það rétt er það háalvarlegt mál. Ég hef sjálf brotið lög til þess að aðstoða fólk í vanda en ef ráðherra er að stunda aktívisma í vinnunni sinni, þá er það ekki bara lögbrot sem hún er persónulega ábyrg fyrir, heldur vítaverð misnotkun á ráðherravaldi. Ég hef sent ráðuneytinu fyrirspurn vegna þessa máls og hvet aðra til að gera hið sama.

Annar barnsfaðir

Nú hefur Hjördís sagt opinberlega frá sambandinu við hinn danska barnsföður sinn. En Hjördís á líka son frá fyrra sambandi. Faðir hans er Íslendingur,  Þorsteinn Eyfjörð Benediksson að nafni. Hann skildi við Hjördísi árið 1997, þegar sonur þeirra var aðeins fjögurra mánaða. Einhverjum kann að þykja það forvitnilegt að Þorsteinn hefur aldrei umgengist son sinn. Ég náði tali af Þorsteini og spurði hann um ástæðuna fyrir því.

****

Þú átt son með Hjördísi Svan en hefur aldrei umgengist hann. Hvernig stendur á því?
Hjördís hefur komið í veg fyrir umgengni. Það byrjaði um leið og við skildum en barnið var þá 4 mánaða. Ég fór í rauninni frá henni og hún var mjög ósátt við það. Þegar ég fór, þá sagði hún mér hreint út að hún ætlaði að sjá til þess að ég hefði ekkert af þessu barni að segja framar.

Varla hefurðu bara tekið því þegjandi?
Satt að segja þá hafði ég ekkert samband við hana í þrjá mánuði. Ég hef lítið úthald gagnvart leiðindum, var hvekktur og vildi bara komast burt frá þessu sambandi. Hún var mjög ákveðin og ég vissi alveg að það yrði barátta að fá að sjá drenginn og lengi lagði ég bara ekki í meira vesen. En mig langaði auðvitað að sjá barnið og á endanum hafði ég samband. Svörin sem ég fékk þá voru þau að hún þyrfti meiri tíma eða þá að einhver úr fjölskyldunni svaraði og sagði að hún væri ekki heima.

Leitaðir þú réttar þíns hjá sýslumanni?
Nei. Ekki á þeim tíma. Ég taldi líklegt að það myndi bara herða hana í sinni afstöðu svo ég vildi ekki fara í hart fyrr en í lengstu lög. Auk þess var hann ungbarn og ég á sjó svo regluleg helgarumgengni var kannski ekki besta fyrirkomulagið. Ég reyndi af og til að ná sambandi við hana en hún var óhagganleg og lét sjaldan ná í sig.

Eva: En sérðu einhverjar ástæður fyrir því að hún vildi ekki að þú hittir barnið? Hafði mikið gengið á, slagsmál, óregla eða eitthvað svoleiðis?

Þorsteinn: Þetta var stirt samband en það kom aldrei til átaka. Ég vil bara rólegt heimilislíf og mér fannst hún erfið í sambúð. Það sem gerði útslagið af minni hálfu var það hvað hún talaði illa um  fjölskyldu mína. Mér þykir vænt um mitt fólk og vildi ekki sitja undir þessu þegjandi en það var ekkert hægt að svara henni nema fara út í rifrildi. En nei, það voru aldrei nein líkamleg átök.

Þannig að þú segir að hún hafi ekki haft ástæðu til að koma í veg fyrir samband, en hvað sagði hún sjálf, taldi hún að þú værir ofbeldishneigður eða myndir vanrækja barnið?
Nei. Henni fannst ég koma illa fram með því að fara frá henni en hún hefur ekki ásakað mig um ofbeldi. En ég hef heldur ekki farið í hart við hana. Hún ásakar seinni barnsföður sinn um ofbeldi. Maður veit auðvitað ekkert um það samband en hún er ofboðslega ákveðin í að hafa sitt fram og ég held að ég hefði bara lent í því sama ef ég hefði sýnt hörku. Ég reyndi að fara mjúku leiðina en þetta gekk bara svona í fjögur ár. Þá sá ég fram á að ég myndi aldrei ná neinu samstarfi við hana svo ég fór til sýslumanns til þess að reyna að koma á umgengni.

Hvernig fannst þér kerfið taka á málinu?
Það var viðurkennt að ég ætti að fá umgengnisrétt við barnið. Hjördís hafnaði kröfu um umgengni á þeirri forsendu að drengurinn vildi ekki hitta mig. Mér finnst frekar skrýtið að spyrja smábarn hvort það hafi áhuga á að hitta pabba sinn. Ég á tvö börn frá seinna sambandi og þau hitta mig reglulega. Það hefur aldrei verið rætt sem neitt annað en eðlilegur hluti af lífinu og það er heldur ekkert vesen. En auðvitað vill barn ekki hitta bláókunnugan mann sem mamma hans segir að sé vondur.

Þessi rök hennar Hjördísar voru heldur ekkert tekin gild og það næsta sem gerist er að sonur minn er sendur í sálfræðimat. Þar segir hann, fjögurra eða fimm ára gamalt barn, er að ég sé vondur maður og hann vilji ekki hitta mig. Hann þekkti mig náttúrlega ekkert, hafði aldrei séð mig, og hans skýringar á þessu voru þær að ég hefði farið frá mömmu hans. Þetta er kannski stóra vandamálið. Það er hægt að fá úrskurð en kerfið ræður ekkert við það hvernig er talað við börnin heima og ef móðirin er jafn ósveigjanleg og Hjördís þá er ekki hægt að fylgja úrskurði eftir nema með harkalegum þvingunaraðgerðum sem bitna á börnunum.

Þetta fór þannig að ég fékk að hitta son minn í eitt skipti. Ég keypti snjóþotu og við áttum góðan dag saman, fyrst úti og svo fór ég með hann heim. Ég skilaði honum á umsömdum tíma og átti að hitta hann aftur daginn eftir. En þá náðist ekkert í Hjördísi. Enginn heima og enginn svarar síma. Þannig liðu nokkrar vikur, kannski tveir mánuðir, þangað til ég frétti að hún væri flutt til Danmerkur.

En nú varstu kominn með umgengnisúrskurð. Hefðirðu getað látið sækja barnið til Danmerkur?
Ég reyndi það ekki. Maður þarf að meta hvað er raunhæft og hvort það sé þess virði að standa í stríði. Ég mat það svo að fyrst mér hefði ekki tekist að fá Hjördísi til samstarfs á meðan við vorum bæði á Íslandi, þá yrði vonlaust að standa í umgengnisdeilu við hana í öðru landi. Það yrðu bara erfiðleikar, kostnaður og fundir með lögfræðingum en lítil von um árangur. Svo ég gerði ekkert í því fyrr en hún kom heim aftur.

Hún flutti aftur heim þegar drengurinn var sjö ára. Hún var þá komin í sambúð með Kim. Hann hafði gengið syni mínum í föðurstað og strákurinn kallaði hann pabba. Ég fékk ekkert að hitta drenginn þótt ég hefði úrskurð um umgengni.

Ég fór aftur fram á aðstoð til að fá að sjá drenginn árið 2006. Við áttum fund með sálfræðingi og Hjördísi var gefin vika til að koma á umgengni. Ég sendi henni tölvupóst, sagði að ég hefði alveg skilning á því að þetta þyrfti að gerast rólega og bauðst til að senda honum myndir af mér og fjölskyldunni. Ég bað hana líka um upplýsingar um áhugamál hans og fatastærð og bað hana að gefa mér hugmynd að gjöf handa drengnum því það kom fram hjá sálfræðingnum að hann væri óánægður með gjafir sem ég hefði sent honum. Svörin sem ég fékk voru þau að hann vildi ekki gjafir frá mér, vildi ekki tala við mig og yrði kannski aldrei til í það. Ég bað um að fá a.m.k. einhverjar fréttir af honum og kannski myndir en hún svaraði því ekkert. Ég bauð henni að tala frekar við systur mína en svörin voru bara þau að hún vildi ekki þurfa að segja okkur í hverjum mánuði að hann vildi ekkert við okkur tala. Svo líða nokkrar vikur og þá fer hún aftur til Danmerkur. Ég hefði getað myndað traust og eðlilegt samband við strákinn ef það hefði verið samvinna á milli okkar en ég gat ekki hugsað mér að láta taka hann með valdi og þvæla honum á milli landa.

Þannig að þú fékkst að hitta hann í þetta eina skipti þegar hann var 4 ára og svo ekki meir?
Já. Það var ekki fyrr en á þessu ári sem ég hitti hann aftur. Þá hafði hann sjálfur samband við mig. Ég hafði skrifað bréf þar sem ég lýsti því að ég hefði verið beittur umgengnistálmunum og Kim lagði það fram sem hluta af gögnum í sinni forræðisdeilu. Erindi stráksins var að biðja mig að draga bréfið til baka. Þá hitti ég hann í eitt skipti. Ég gerði það fyrir hans orð að draga bréfið til baka af því að ég vonaði að þetta yrði upphafið að samskiptum milli okkar en síðan hefur hann ekkert viljað með mig hafa.

Hvernig fór á með ykkur þegar þið hittust?
Hann var í mikilli vörn og við náðum engum tengslum. Þegar ég spurði hvers vegna hann vildi ekki eiga samskipti við mig kom hann með svona ástæður eins og að ég hefði verið með of mörgum konum og ætti börn úti um allt. Ég væri ekki í nógu fínni vinnu og hefði ekki nógu góða menntun en mamma hans hefði hins vegar lokið háskólaprófi. Hann þekkir mig ekkert svo hann hefur þessar hugmyndir frá öðrum. Ég lifi bara venjulegu lífi, er í fastri vinnu og hef gott og innilegt samband við hin börnin mín og stjúpbörnin líka og það er nú hart ef maður þarf háskólapróf til þess að vera almennilegur pabbi.

Heldurðu að séu einhverjar líkur á að þú eigir eftir að ná sambandi við hann?
Ég vona það. Ég missti af því að kynnast honum sem barni en ég vona að ég fái að kynnast honum sem unglingi. Það sem er leiðinlegast við þetta allt saman er það hvaða skoðun hann hefur á mér og ég get ekki leiðrétt þá ímynd nema með því að umgangast hann. Ég er búinn að bíða í 16 ár. Það er langur tími. Ég vona að það komi að því að hann vilji hitta mig en meðan staðan er þessi þá held ég að ég geti ekki gert neitt annað en að bíða.

Þess má geta að ég hef undir höndum tölvupósta sem staðfesta að tilraunum Þorsteins til þess að fá að sjá son sinn hefur verið svarað með staðhæfingum um að drengurinn vilji ekki hitta hann og muni kannski aldrei vilja það. Barnsmóðir Þorsteins, Ásta Sóley Sölvadóttir, staðfestir að börn þeirra dvelji reglulega hjá Þorsteini, hann sé góður við þau og þeim þyki gaman að fara til hans.

Deildu færslunni

Share to Facebook