Orðsending til íslenskra kvenna

Hrafnhildur Ragnarsdóttir

Mig langar að útskýra aðeins fyrir þér hvernig heimurinn lítur út frá mínum sjónarhóli. Í mínum heimi vofir stöðug hætta yfir. Ég þarf stöðugt að gæta mín á því hvað ég segi og hvenær, að hverju ég hlæ, við hvaða konur ég tala og hvernig ég nálgast konu ef ég verð hrifinn af henni. Þessar áhyggjur hefjast strax og ég er kominn með nægt vit til að ráða mér sjálfur. Ég þarf alltaf að gæta þess hvaða skilaboð ég gef frá mér því allt sem ég segi og geri kann að vera mistúlkað og notað gegn mér. Ég er oft kallaður ljótum nöfnum ef ég læt skoðanir mínar í ljós, stundum svo ég heyri til, stundum ekki. Ég get líka átt það á hættu að lenda á skrá yfir karla sem hata konur ef ég segi eitthvað sem ákveðnar konur fíla ekki.

Ég bý í landi þar sem dómskerfið er ekki skapað til að verja fólk eins og mig og ég þarf að treysta á lögregluyfirvöld þar sem alvarlegar ásakanir um kynferðislega áreitni og ofbeldi viðgangast gagnvart karlmönnum og geta auðveldlega komið saklausum manni í fangelsi. Ég starfa á vinnumarkaði þar sem mér er stöðugt sagt að ég njóti forréttinda sem karlmaður enda þótt allir viti að 99% karlmanna hafa engin völd og flestir okkar fá bara greitt eftir töxtum. Sem meðalmaður hef ég mun minni möguleika á styrkjum til náms og atvinnusköpunar en kona í sömu stöðu. Bara vegna þess að ég fæddist af öðru kyni.

Ef (þegar) ég eða vinir mínir verðum fyrir umgengnistálmunum getum við reiknað með að verða ásakaðir um ofbeldi gagnvart konum og börnum og að samband okkar við börnin verði lagt í rúst og mannorð okkar eyðilagt. Ef við fáum dómsúrskurð og sækja þarf börnin til móðurinnar með lögregluvaldi, erum það við sem erum ásakaðir um eigingirni og að láta okkar hagsmuni bitna á börnunum, en ekki mamman sem er þó að ræna okkur börnunum.

Í mínum vinahópi eru 11 karlar. Þrír þeirra búa við eða hafa búið við andlegt ofbeldi af hálfu maka og einn þeirra líkamlegt líka. Tveir hafa ranglega verið ásakaðir um kynferðisofbeldi, annar þeirra sætti lögreglurannsókn vegna þess. Sá síðasti hefur sætt umgengnistálmunum í mörg ár og verið ranglega sakaður um að lemja barnsmóður sína. Ótrúlegt en satt er þetta algilt og jafnvel verra samkvæmt tölfræði maskúlínista um ofbeldi kvenna gegn körlum.

Við vitum að karlakúgun er alþjóðlegt vandamál. Við heyrum fréttir frá löndum þar sem geisar stríð og langflestir þeirra sem deyja, verða fyrir pólitískum ofsóknum, sitja í fangelsi án þess að ákæra hafi verið gefin út, og sæta pyntingum, eru karlar. En það er ekki bara stríð í útlöndum og karlakúgun viðgengst ekki bara annars staðar. Það ríkir líka stríð gegn körlum hér, en það fer fram hljóðlaust innan veggja heimilanna, heimila karlanna sjálfra eða þar sem þeir koma sem gestir. Ásakanir um líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi er mjög áhrifaríkt vopn til að halda körlum niðri. Í stað þess að elta drauma sína eyðir stór hluti karla góðum hluta lífsins í að reyna að þóknast konum með því að hlaupa á eftir duttlungum þeirra, víkja fyrir þeim, leggja á sig meiri vinnu en þær, dekstra þær eins og smábörn og tipla á tánum í kringum þær til að styggja þær ekki. Einnig þurfa margir okkar að vinna úr áfallinu að vera sakaður um kynferðislegt ofbeldi sem hefur í ofanálag engar afleiðingar fyrir konuna sem laug upp á okkur.

Þetta er minn heimur en þú þekkir hann víst ekki neitt. Samt skapaðir þú hann ásamt systrum þínum. Þú ert í raun mín ógnarstjórn. Ég biðla því til þín að breyta hegðun þinni og þar með heimsmynd minni. Þú getur byrjað á sjálfri þér og svo systrum þínum. Ég veit og vona að þú sem ert búin að lesa svona langt hafir áhuga á breytingu. Að gera samfélagið öruggara fyrir karla. Að litlu strákarnir í dag geti strokið sér frjálst um höfuð þegar þeir verða stórir. Stöndum saman um að vinna gegn kvenlegum tíkarskap.

———

Hvernig orka svona skrif á ykkur? Mér finnst þetta vera ömurlegt aumingjavæl ofdekaðra karla. Samt er heilmikill sannleikur í þessu. Karlar verða raunverulega fyrir óréttlæti alveg eins og konur. En þessi framsetning, sú aðferð að ásaka allar konur, láta sem vandinn sé eingöngu á þeirra ábyrgð, emja yfir því hvað karlar eigi bágt, það er ekki aðferð sem vekur mér samúð og fær mig til að líta í eigin barm. Þessi aðferð svæfir mig og hafi ég ekki trúað því fyrr þá sannfærir hún mig um að karlmenn séu skaplausir aumingjar.

En þetta er ekki bréf frá karlmanni. Heldur speglun á skrifum konu.

Konur lifa í stöðugum og ástæðuríkum ótta og þú ert persónulega ábyrgur fyrir því. Eina lausnin er sú að þú hættir að vera svona mikið ógeð og takir svo að þér að reka djöfulinn úr öðrum karlmannsógeðum.

Nokkurnveginn svona er kjarninn í skilaboðum stjórnarkonu Kvenréttindafélag Íslands. Skilaboðunum er beint að elskulegum föður mínum sem alla tíð hefur staðið með mér. Að maka mínum sem umvefur mig ástúð og metur allt sem ég geri að verðleikum. Að bræðrum mínum, sonum mínum, vinum og nágrönnum; karlmönnum sem alltaf eru boðnir og búnir að rétta konu hjálparhönd og því fremur ef hætta steðjar að henni. Ég lái engum þeirra þótt þeir afgreiði Hrafnhildi og hennar líka sem ómarktækar væluskjóður.