Eignarhaldið á píkunni

humor

Íslenskan á mikinn fjölda gegnsærra orða. Þar á meðal orðin „lýtaaðgerð“ og „fegrunaraðgerð“. Yfirleitt hafa lýtaaðgerðir þann tilgang sem orðið lýsir; að laga það sem talið er lýti.

Tilgangur þeirra aðgerða sem lýtalæknar fremja getur verið læknisfræðilegur, t.d. ef slöpp húð myndar fellingar sem eykur hættu á sveppasýkingum og húðsjúkdómum, en oftast er markmiðið að breyta útliti andlits eða líkama samkvæmt óskum viðskiptavinar.  Þær óskir eru venjulega í samræmi við útlitsstaðla sem eru áberandi í samfélaginu. Hugmyndir okkar um það hvernig fólk eigi að vera kallast „staðalmyndir“. Lýtalækningar miða að því mæta þessum hugmyndum, það er því beinlínis hlálegt að sjá formann félags lýtalækna afneita því að viðskipi lýtalækna velti á staðalmyndum.

Hvaða staðalmyndir falla í náðina?

Hitt er svo annað mál að þótt staðalmyndir geti verið þrúgandi þá komumst við aldrei undan þeim. Okkur ofbýður kannski þegar ákaflega fallegt fólk telur sig þurfa á áhættusömum fegrunaraðgerðum að halda, skurðaðgerðum þar sem skrapað er af beinum,  aðskotahlutum er komið fyrir eða efnum sprautað inn í líkamann, oft aðgerðum sem útheimta svæfingu með tilheyrandi áhættu. Okkur finnst þetta óhófleg þjónkun við  hégóma. Það er svo allt annað ef kona fær brjóstakrabba og þarf að gangast undir brjóstnám. Þá þykir alveg sjálfsagt að endurbyggja brjóstin því ástæðan er „raunveruleg“. Einhver allt önnur en helvítis klámvæðingarhégóminn. Það eru ekki aðgerðirnar sjálfar sem eru litnar hornauga heldur það hverra staðalmyndum er verið að þjóna.

Þeir sem gagnrýna fegrunaraðgerðir eru alveg jafn blindir á sína eigin þjónkun við staðalmyndir og formaður félags lýtalækna. Mörkin eru bara önnur. Engin manneskja með hjarta hnussar yfir því þótt kona sem er afskræmd eftir bruna eða sýru fari í umfangsmikla lýtaaðgerð. Samt sem áður hefur hún gengist inn á hugmyndir um það hvernig fólk eigi að líta út. Nú mun einhver svara því að það sé allt annað þegar slys eða ofbeldi eyðileggi það útlit sem náttúran sjálf ætlaði okkur en fæstir þeirra sem freta á fegrunariðnaðinn hafa svo einfalt viðmið. Flestum finnst t.d. alveg sjálfsagt að fjarlægja valbrá, líka þótt hún valdi engum vanda öðrum en vanlíðan yfir því að vera ekki eins og hinir. Ég hef aldrei séð ádeilu á aðgerðir sem felast í því að laga útstæð eyru eða fjarlægja meinlausa húðsepa. Einhver mun benda á að þessar aðgerðir séu lítið áhættumeiri en húðflúr og líkamsgötun en ég hef heldur ekki séð vanþóknun á algengustu aðgerðunum; skurðaðgerðum á augnlokum. Áhyggjur af áhættunni kannski, en ekki vanþóknun. Sumir þeirra sem hneykslast á brjóstastækkunum telja það líka allt annað ef brjóstin líta út eins og tómir sokkar með baun í tánni, þá er komin alvöru ástæða. Það er hinsvegar klámdjöfullinn sem er að verki ef kona sem vill fara í brjóstastækkun er, að mati gagnrýnandans, ekki nógu ljót til að leyfa sér slíkan hégóma.

Þegar upp er staðið snýst þetta ekki um það að staðalmyndir séu slæmar í sjálfu sér (sem þær kunna þó alveg að vera) heldur vilja þeir sem gagnrýna fegrunariðnaðinn fá að ákveða hvernig staðalmyndirnar eigi að vera.

Baráttan um kynferði kvenna

Aðgerðum á brjóstum og kynfærum fjölgar. Það segir okkur kannski að hugmyndir um æskilegt útlit hafi breyst en ég efast um að það sé svo einfalt. Kannski segir það okkur líka að þessi þjónusta sé aðgengilegri, áhættuminni og ódýrari en áður og að opnari umræða hafi orðið til þess að konur fari í aðgerðir sem mín kynslóð lét sér nægja að dreyma um.

Mér finnst áhugavert hversvegna fegrunaraðgerðir á brjóstum og kynfærum vekja hvað mesta hneysklun. Vandlætingin er slík að formaður lýtalæknafélagsins finnur sig knúinn til að réttlæta skapabarmaaðgerðir með því að ástæðurnar fyrir þeim hafi minnst með útlit að gera, heldur séu eiginlega læknisfræðilegar. Amk í aðra röndina. Engu líkara en að það sé verulega vafasamt af lýtalæknum að samþykkja hugmyndir kapítalsins um fallega píku þótt engum dyljist að starf þeirra felst beinlínis í því að mæta hugmyndum markaðarins um æskilegt útlit. Lýtalæknar eyða ekki púðri í að réttlæta miklu hættulegri aðgerðir sem miða að því að laga lýti sem teljast „raunveruleg“ en einhvernveginn virðist djöfullinn laus þegar píkan er annars vegar.

Hvernig á píka að líta út? Klámiðnaðurinn hefur einhverjar hugmyndir um það. Tískuheimurinn líka, það heitir víst „kameltá“ ef sést móta fyrir kynfærum kvenna í gegnum þröngar buxur og þykir ekki fínt. Feministar andæfa þeim sem halda þessum staðalmyndum á lofti og ég er sammála feministum um að það ætti að vera óþarfi að kveljast yfir útliti heilbrigðar píku sem sjaldnast er til sýnis á opinberum vettvangi. En það ætti líka að vera óþarfi að lita á sér hárið og nota varalit og það er nú samt norm.

Stúlkur mega vera hégómlegar svo fremi sem hégóminn nær ekki niður í nærbuxurnar. Þær sem gangast inn á hugmyndir um æskilegt útlit píkunnar eru ekki beinlínis fordæmdar heldur teljast þær fórnarlömb  feðraveldisins. Alls ófærar um að meta sínar eigin píkur og brjóst sjálfar og helst þarf að reka úr þeim klámvæðingardjöfulinn með postullegu knúsi. Sætta þær við hugmyndir feminista um það hvaða staðalmyndir teljist gjaldgengar og hverjar ekki.

Kapítalið og klámpostularnir togast á um það hvaða útlit teljist æskilegt og að hve miklu leyti konur beri sjálfar skynbragð á það hvaða staðalmyndir séu „heilbrigðar“ og hvenær sé of langt gengið. Þessi tvö öfl eru kannski fullkomnar andstæður á yfirborðinu en eitt eru þau þó hjartanlega sammála um; að konur, einkum ungar konur, þurfi leiðsögn um það hvað þær eigi að gera, eða gera ekki, við píkuna á sér. Það sem þau greinir á um er einungis hver eigi að veita þá leiðsögn.