Ófrægingartips


line-up-688x451
Annað veifið hugsa ég sem svo að nú sé ég búin að segja allt sem segja þurfi um kvenhyggjusinna og þeirra kjánagang. Brjósthnappabyltingin og #túrvæðingin eru ekki svo merkileg uppátæki að ég hafi fundið hjá mér neina hvöt til að ræða þau. Ekki fyrr en byltingafárið fór út í hegðun sem er beinlínis skaðleg og enn á ég eitthvað ósagt.

Ég er búin að renna yfir ummæli um pistil minn frá því í gær. Fátt er svaravert í þeim kommentahala. Ein kona álítur ósanngjarnt að bera saman þörfina fyrir kvennabaráttu í samfélögum sem eru varla sambærileg. Þetta er málefnaleg gagnrýni sem ég tek til athugunar. Fyrir mér vakti fyrst og fremst að benda á það hversu innantómt það er að tala um kvennakúgun á Íslandi en ég hefði getað gert það á annan hátt.

Önnur telur að ég sé að skammast yfir því að konur hegði sér eins og druslur með því að bera brjóst sín. Ég hefði líklega átt að taka það skýrt fram að ég hef ekkert á móti nekt. Það er hins vegar undarleg grunnhyggni að halda að brjóstasýningar slái vopnin úr höndum þeirra sem ofsækja konur með því að birta nektarmyndir í óþökk þeirra.

Eins og venjulega þegar umræðan um kynferðisofbeldi er gagnrýnd, eru athugasemdir fyrst og fremst í þá veruna að skrif mín særi þolendur. Það má ekki skrifa um svona viðkvæm mál nema út frá þeirri pólitík sem kennivaldið gúterar, sem felur það m.a. í sér að ef kona hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi megi enginn anda á hana þegar hún „stígur fram“, sama hversu ógeðfelldum aðferðum hún beitir.

Í pistlinum nefndi ég tvö dæmi um ærumeiðingar sem tengjast þessari „beauty tips-byltingu“. Í báðum tilvikum er um að ræða hefndarráð sem réttarkerfið getur ekki tekist á við, ekki frekar en svo mörg nauðgunarmál. Mér finnst ástæða til að ræða þessar aðferðir nánar.

Nefndu nöfn og lýstu atburði en ekki kalla það glæp

Segðu frá óþægilegri reynslu, óvönduðum vinnubrögðum eða skeytingarlausri framkomu, sem er þó ekki kynferðisbrot. T.d. því að kvensjúkdómalæknir hafi farið með andlitið óþægilega nálægt dýrðinni á þér. Þegar þú segir frá slíkri upplifun í hópi mörg hundruð kvenna sem eru brotnar vegna kynferðisofbeldis eða kynferðislegs yfirgangs, og tuttugu og eitthvað þúsund annarra sem liggja á hleri, eðlilega gagnteknar af viðbjóði, leggja þúsundir þeirra þá merkingu í atburðinn að þarna hafi kynferðisbrot átt sér stað. Maðurinn hafi ekki aðeins verið ófaglegur, heldur hafi hann misnotað aðstöðu sína í kynferðislegum tilgangi. Orðin dónakall og kynferðisafbrot öðlast nýja merkingu.

Þessa aðferð má útfæra á ýmsa vegu. Nafngreindu þekktan mann og lýstu því hvernig hann klóraði sér í pungnum í strætó. Nafngreindu mann sem fer í sundlaugina á sama tíma og þú og segðu að þú hafir margsinnis séð hann fara í heita pottinn einmitt á sama tíma og nokkrar 12 ára stelpur.

Þú ert ekki að lýsa neinu ólöglegu og þar með ekki að bera neitt á hann sem í lögum er skilgreint sem kynferðisglæpur. Þar með er ekki hægt að lögsækja þig fyrir ærumeiðingar en fólk mun túlka atvikið sem þú lýsir sem kynferðislega áreitni. Maðurinn stimplaður og þú stikkfrí. Snilld.

Láttu áheyrandanum eftir að draga ályktanir

Vísbendingaaðferðin er einnig snjallræði til að koma upp um þrjótinn án þess að eiga málsókn á hættu. T.d. má droppa upplýsingum um atvinnu, búsetu eða aðrar aðstæður nauðgarans og láta áheyrandanum eftir að draga ályktanir. Tónlistarmaður sem fyrir nokkrum árum flutti jólalag, er hæfilega ljóst til að beina grun að þröngum hópi manna en þú ert samt ekki að birta persónuupplýsingar.

Á sama hátt má koma upp um nauðgara með því að segja að hann sé sjómaður sem gerir út frá Grundarfirði, afreksmaður í íþróttum eða áberandi vegna starfa innan kristilegra samtaka.

Í þessum tilvikum ertu að lýsa glæp, en þar sem þú ásakar engan sérstakan er ekki hægt að flokka orð þín sem ærumeiðingar. Þeir sem draga rétta ályktun vita hvern þú átt við. Eini gallinn er sá að sumir draga rangar ályktanir og allir sem lýsingin gæti átt við standa álíka berskjaldaðir og áverkalaust nauðgunarfórnarlamb. Ábyrgðin er ekki þess sem talar, heldur þess sem túlkar. Glæsilegt.

Þetta eru tvær pottþéttar aðferðir og ef einhver gúterar þær ekki, þá er viðkomandi að beita þig #þöggun, tala óvarlega um viðkvæm mál, sýna samúð með gerandanum, gera lítið úr glæpnum og þér sem manneskju.

Komdu þá með lausn!

Ástæðan fyrir því að við höfum réttarkerfi er sú að það er skárra en að hver og einn hafi sín eigin lög og felli sjálfur dóma, en ekki sú að réttarkerfið sé frábært. Það gefur t.d. augaleið að réttarkerfið ræður ekki við stóran hluta kynferðisbrota. Ég hef fengið athugasemdir eins og „hvað viltu þá gera?“ eða „komdu þá með lausn“ þegar ég held því fram að þrátt fyrir ófullkomleik réttarkerfisins sé lausnin ekki sú að taka menn af lífi á netinu eða að vinahópar stofni sína eigin dómstóla, eins og  reyndin hefur orðið um ábyrgðarferlið sem talað er um í þessum sjónvarpsþætti.

Ég get því miður ekki bent þolendum kynferðisofbeldis á neina skárri leið en þá að leggja fram kæru en úrræðaleysi mitt sannar ekki að þær aðferðir sem beitt er til að knýja fram réttlæti utan réttarkerfisins séu réttlætanlegar. Ég kann heldur ekki að lækna geðveiki en veit samt að það gerir aðeins illt verra að særa út illa anda og taka sjúklingnum blóð. Hugsanlega gæti sáttameðferð gagnast í einhverjum kynferðisbrotamálum en hún þyrfti þá að vera í höndum fagfólks en ekki vina og vandamanna. Það er a.m.k. ekki lausn að búa til fleiri vandamál sem réttarkerfið ræður ekki við.

Nei, ég vil ekki skerða tjáningarfrelsið. Ég mæli ekki með því að þolendum kynferðisofbeldis verði bannað að droppa vísbendingum eða að þeim sem misbýður framkoma einhvers verði bannað að nafngreina hann. En þið sem farið þessar leiðir; gömul áföll gefa ykkur ekki tilkall til meiri tillitssemi en þið sýnið öðrum, svo reiknið með því að þessar aðferðir verði gagnrýndar.

Og kallið það þöggun ef þið viljið, því þegar gagnrýni á slúður er svarað með orðunum #þöggun #þöggun, heyri ég ekkert annað en #gaggagagg.

[custom-related-posts title=“Tengt efni“ order_by=“title“ order=“ASC“ none_text=“None found“]