Undir setunni – smásaga

vis2_slid2-688x451

Einu sinni var kona á virðulegum aldri sem var orðin dálítið þreytt á karlmönnum. Henni þótti vissulega gott að kúra upp við loðna bringu en hún var ekki eins hrifin af aukavinnunni sem það kostaði. Ekki einasta þýddi kúr við loðna bringu það að hún þurfti að eyða ómældri vinnu í að leggja klósettsetuna niður sjálf, áður en hún tyllti sér á postulínið, heldur áttu folar þeir, sem hún dró heim með sér, greinilega í mestu vandræðum með að miða rétt, þá er þeir skvettu úr skinnsokknum. Iðulega mátti því sjá gula tauma læðast niður eftir hvítri skálinni sem fimm mínútum áður hafði verið skínandi hrein og ilmandi. Sumir þeirra afrekuðu meira að segja að spræna upp á innanverða setuna. Það lá í augum uppi að það gat varla gerst án þess að þeir legðu sig beinlínis fram um að sletta hlandinu sem víðast.

Hún hugleiddi ýmsar lausnir. Ekki dugði að ræða þetta vandamál við þá karla sem gistu ból hennar, því þeir afneituðu bara vandanum. Sumir þeirra gerðu sér meira að segja upp móðgun og þvertóku fyrir að hafa sprænt út fyrir, hvað þá upp á innanverða setuna, enda þótt hún bæri þess greinileg merki. Aðrir voru bara með dólg, brugðust illa við og einn þeirra hélt því fram að hlandfrussið á setunni hlyti að vera frá henni sjálfri komið. Nei, það þýddi augljóslega ekkert að ræða þetta. Þar sem hún var létt á bárunni kom skírlífi ekki til greina og þótt hún kynni vel við konur, sem eins og allir vita eru góðar hver við aðra, þá voru fáar þeirra loðnar á bringunni, svo það var eiginlega ekki alveg það sama.

En hetjan okkar dó ekki ráðalaus. Hún stofnaði kvennasamtök sem beittu sér fyrir sérstakri þjónustu fyrir konur sem elska karla en hata vesenið sem fylgir þeim (skammstafað KSEKEHVSFÞ). Hugmyndin var sú að koma á fót sérstökum karlageymslum, svokölluðum karlabúrum, þar sem konur gætu losað sig við næturgagn sem gerði sig sekt um að míga út fyrir. Þegar virðulegar konur fýsti svo í samneyti við loðnara kynið, gætu þær einfaldlega pantað tíma í karlabúrinu, fengið þar útrás fyrir lauslæti sitt, farið svo heim og pissað í hreint klósett, meira að segja án þess að þurfa að leggja á sig það leiðindaverk að fella setuna niður. Karlabúrunum fylgdi vitanlega bakarí, svo hægt væri að næra lærapokana að vel heppnuðu falleríi loknu. Jafnframt kom fram sú byltingarkennda hugmynd að hefja framleiðslu klósettskála með föstum setum, enda engin þörf fyrir lausa setu í heimi þar sem karlmenn eru ekki til vandræða. Sú hugmynd hlaut þó dræmar undirtektir hjá klósetthönnuðum landsins sem allir voru af hinu þvagslettandi kyni.

Að öðru leyti var áætluninni hrundið í framkvæmd og að tveimur árum liðnum var búið að hneppa alla karlmenn í landinu í karlabúr. Daginn eftir að síðasti hópurinn var fangaður, hélt hetjan okkar dýrðlega veislu fyrir vinkonur sínar í KSEKEHVSFÞ. Þær skáluðu í dýrindis kampavíni, átu snittur af hinni mestu tillitssemi og umhyggju og voru góðar hver við aðra, svo sem kvenna er háttur. Að því loknu hélt hetjan okkar ræðu, þar sem hún útskýrði að sögnin „að skála“, væri leidd af orðinu klósett-skál. Í karlfríum heimi væri nefnilega hvert klósett nógu hreint til þess að drekka mætti úr því kampavín ef áhugi væri fyrir því á annað borð. Svo leiddi hún hópinn inn á hlandtaumafrítt baðherbergið og sýndi vinkonum sínum spánnýja og glæsilega klósettskál, skreytta með sama mynstri og sjálft mávastellið frá Bing & Grøndahl.

home

Næstu dagana lifði hetjan okkar, á virðulegum aldri, hamingjusamlega í karlfríum heimi og enginn lyfti setunni á mávasalerninu hennar. En dag nokkurn þar sem hún stóð á baðgólfinu, eftir að hafa losað sig við uppsafnaðan vökva, og dáðist að hinu fagra mávamynstri, sá hún nokkuð skrýtið. Það var engu líkara en að annar mávurinn væri með sultardropa á gullnum goggnum. Hún lagðist á hnén til að skoða þetta nánar, og jú, það stóð heima; stór, gulur dropi hékk á goggi mávsins og það sem meira var, hann var ekki málaður, heldur var þetta raunverulegur, ferskur dropi af gulleitum vökva. Og nú tók hún auk þess eftir nokkrum línum sem lágu niður eftir hinni ægifögru mávaklósettskál; gulum taumum, ekki ólíkum þeim sem hún hafði svo oft séð á sunnudagsmorgnum, eftir vínarbrauðsát með eintaki af loðnara kyninu.

Hræðilegur grunur læddist að henni. Hún beit í sig kjark og lyfti setunni, þrátt fyrir vitneskjuna um að það myndi kosta hana þau óbærilegu leiðindi sem fylgja því að þurfa að setja hana niður aftur, og greip andann á lofti þegar hún sá það sem við blasti. Innanverð setan bar þess öll merki að þar hefði karlmaður verið að verki. Hræðilegur, sísprænandi tittlingur hafði einhvern veginn komist inn til hennar og migið í sjálft mávastellið. Þetta hlaut auk þess að vera hryllilegur, afburðagreindur tittlingur, því hann hafði haft vit á því að leggja setuna niður. Aldrei fyrr hafði hetjan okkar kynnst karlkynsveru sem var þeirri gáfu gædd að leggja setuna niður af sjálfsdáðum.

Hún fraus, hana sundlaði, hún hélt ekki reiður á hugsunum sínum. En svo mundi hún að ein kampavínsflaska hafði orðið afgangs úr veislunni sem hún hafði haldið KSEKEHVSFÞ til heiðurs, helgina áður. Þótt þetta væri sannarlega ekkert tilefni til að skála, komst hún einhvern veginn út af baðherberginu og fram í eldhúsið þar sem hún þambaði úr heilli flösku. Hún iðraðist þess þó þegar í  stað, því enda þótt hún róaðist dálítið, hafði kampavínsdrykkjan óþægilega aukaverkun, sem hún hafði ekkert hugsað út í; hún þurfti að pissa.

Af kvenlegu innsæi sínu vissi hún að hún gæti ekki haldið í sér endalaust og þrátt fyrir klístraða, karlmannlega, ammoníaksþefjandi hlandtaumana á mávaklósettskálinni, skjögraði hún inn á bað, grátandi af vonleysi, viðbjóði og ótta. Hún þreif klósettið vandlega, þurrkaði sultardropann af nefi hræfuglsins, vætti tusku með sínum eigin tárum og strauk með henni gular rákirnar af utanverðri skálinni. Að lokum snýtti hún sér rækilega og þvoði, með kvenlegu hori sínu, innanverða setuna, svo hún varð aftur skínandi hvít. En þrátt fyrir þetta hreinsunarstarf var hún sorgmædd, klósettið var jú vissulega eins hreint og klósett í heimi karla getur á annað borð orðið en nú hafði hlandfrussandi tittlingur vanhelgað nýja mávasalernið hennar og aldrei framar gæti hún hugsað sér að drekka kampavín úr klósettskálinni, fyndi hún til þess nokkra hvöt.

Hlandsprengurinn var nú orðinn óbærilegur. Hún leysti niður um sig og settist á postulínið. Hún brast í grát um leið og hún settist niður og vegna þess hversu hnípin hún var, horfði hún á millum fóta sér niður í skálina. Hún horfði á þvagbununa, kraftmikla, gula bununa og hún sá hvernig gulur vökvinn lenti á innri vegg hvítrar klósettskálarinnar og rann þaðan niður í vatnið, að mestu. En hún sá líka að hluti vökvans virtist alls ekki lúta lögmálum feminískrar eðlisfræði, heldur var engu líkara en að hann væri ofurseldur eðlisfræði feðraveldisins; þeirri eðlisfræði sem þykist hafa komist að einhverjum endanlegum sannleika um það hvernig þvagbunur hegða sér. Í stað þess að renna rólega niður eftir veggjum skálarinnar, frussaðist pissið til baka, til vinstri og hægri, og jafnvel upp á við, ýrðist í allar áttir, og upp undir klósettsetuna.

Hún stóð upp, í öngum sínum, og neytti síðustu krafta sinna til að lyfta klósettsetunni, í annað sinn þann daginn. Og viðurstyggðin blasti við henni. Innan á setunni var fíngerður úði, örsmáir dropar sem ýmist myndu þorna innan á setunni eða leka niður á skálarbrúnina og þaðan, í gulum taumum, niður eftir henni utanverðri, rétt eins og hið viðurstyggilega feðraveldi hefði sjálft verið að verki.

Bestu þakkir til Ragnheiðar Eiríksdóttur fyrir innblásturinn. Án hennar hefði þessi saga aldrei orðið til.

Deildu færslunni

Share to Facebook