Mega lyjafræðingar vera ögrandi?

háskóli_íslands_2_jpg_475x712_sharpen_q95Jafnréttisnefnd fór á límingunum út af þessari mynd sem ku víst gera lítið úr konum. Ég hef ekki lesið auglýsingatextann, veit ekki hvað er verið að auglýsa fyrir utan það sem kemur fram á vefsíðu DV að auglýsingin sé frá félagi nema í lyfjafræði.

Það er ekki sérlega trúverðugt þegar fólk segist ekki sjá neitt ögrandi eða kynferðislegt við myndina. Ég efast um að lyfjafræðingar mæti almennt í vinnuna með sýnileg, rauð sokkabönd og rauðum nærbuxum undir píkusíðum slopp. „Ögrandi stelling“ finnst mér aftur á móti full langsótt. Getur kynþokkafull kona með rauð sokkabönd yfirhöfuð fundið sér einhverja stellingu sem ekki er annaðhvort ögrandi eða niðurlægjandi? Og afhverju eru konur sem nýta sér kynþokka sinn til að hafa áhrif á aðra og komast þangað sem þær ætla sér, ómerkilegri en þeir sem nota tengsl, peninga eða stöðu í sama tilgangi?

Hvað segir myndin annars, svona þegar maður þekkir ekki textann sem væntanlega fylgir henni? Segir hún:

-Hæ strákar, það vantar fleiri karlmenn í lyfjafræði. Hér er allt fullt af lausgyrtum dræsum svo ef þú skráir þig í námið, geturðu örugglega fengið frjáls afnot af allavega einni.

Eða:

-Þótt þú sért drusla þá er það engin afsökun fyrir að fara ekki í metnaðarfullt nám.

Eða:

-Lyfjafræðinemar hvetja til lauslætis og glyðrugangs við öll tækifæri.

Eða:

-Við vitum að fallegar konur geta haft karlmenn í vasanum en góð menntun gerir þig ennþá sterkari.

Eða kannski:

-Hæ þú klára, flotta stelpa sem hyggur á framhaldsnám; það er misskilningur að konur í raungreinum séu upp til hópa „nörd“ sem kunna ekki að velja sér gleraugu og finnst bækur um hornaföll skemmtilegri félagsskapur en karlmenn.
Mig langar að sjá nákvæmlega hvað það er sem jafnréttisnefnd las úr þessari mynd.
Og nú ætla ég að reyna að finna textann sem fylgdi henni og komast að því hvað lyfjafræðinemar voru að spá.

Deildu færslunni

Share to Facebook

One thought on “Mega lyjafræðingar vera ögrandi?

 1. ——————————————————

  Góðar pælingar.

  Ég er einmitt að bíða eftir því að konur útskýri fyrir mér af hverju mörgum þeirra þykir það niðurlægjandi að vera sagðar nota kynþokka sinn eða hafa áhuga á tísku og útliti – því á meðan ekki er raunverulega verið að útiloka að þær hugsi líka um annað og séu líka klárar og hafi metnað eru það einmitt ekki augljóslega lakari aðferðir en að beita t.d. tengslum, peningum eða stöðu.

  Er það eitthvað merkilegra að spila með í karlaleiknum: kaupa sér jakkaföt, sleikja rétta fólkið upp, ná sér í rétta diplómu, hafa viðurkenndar skoðanir og mæta í kirkju þegar aðrir sjá til? Ef það þykir merkilegra, er ekki þá gagnrýnislaust verið að taka upp gildismat „feðraveldisins“ ógurlega?

  Ég held að margir femínistar séu búnir að gleypa það hrátt að kynþokkafull staðalímynd kvenna sé slæm, og það eru hreinlega viðbrögð við feðraveldinu, sem er öfugsnúin leið til að láta einmitt stjórnast af feðraveldinu – í stað þess að marka bara sín eigin spor óháð því sem hentar eða hentar ekki feðraveldinu.

  Í hausnum á heimasíðu Tinktúru eru bara myndir af konum. Hefur það einhverja hroðalega merkingu fyrir karlmenn í félaginu? Hvað segir jafnréttisráð HÍ við því?

  En það er ekkert að því að þykja kynþokki ofnotaður í auglýsingum, það er kannski bara ósmekkleg leið sem hugnast ekki öllum. Það þarf þó ekki endilega að vera kvenréttindamál, heldur spurning um smekklegt þjóðfélag sem er ekki stöðugt að ýja að kynlífi í tenglsum við alla hluti.

  Posted by: Kristinn | 2.09.2011 | 9:30:13

  ——————————————————

  Ég finn ekkert meira um þessa auglýsingu. Það eina sem ég finn er vefsíða Tinktúru en eftir henni að dæma er þetta djammklúbbur. http://www.rafnem.hi.is/tinktura/?s=1

  Posted by: Eva | 2.09.2011 | 10:40:31

  ——————————————————

  Þessi auglýsing er vegna sloppasölu. Þ.e. tinktura aflar sér penings með því að selja nemendum HÍ hvíta sloppa. Sem þeir svo nota í verklegum tímum.

  Posted by: Bjarni | 2.09.2011 | 13:06:00

  ——————————————————

  „Ég er einmitt að bíða eftir því að konur útskýri fyrir mér af hverju mörgum þeirra þykir það niðurlægjandi að vera sagðar nota kynþokka sinn eða hafa áhuga á tísku og útliti“

  Sumar okkar eru ekkert kynþokkafullar, sumar okkar eru kynþokkafullar án þess að gera neitt sérstaklega út á það og sumar okkar hafa engan sérstakan áhuga á tísku og útliti. Sumum okkar finnst neikvætt að vera álitnar yfirborðslegar og við tengjum mikinn útlitsáhuga við yfirborðsmennsku. Ég held að konur verði frekar fyrir því en karlar að sæta leiðinda framkomu og fái síður tækifæri vegna fordóma sem staðalmyndir styðja við. Ég tek fram að ég veit ekki hvort þetta er rétt, það er bara mín tilfinning að þetta skýri það allavega að hluta hversvegna fleiri konur en karlar bregðast illa við staðalmyndum.

  Þú ættir ekki að þurfa að spyrja hvers vegna mörgum konum þyki neikvætt að vera álitnar nýta kynferðsleg aðdráttarafl sér til framdráttar. Það er vegna þess að við tengjum það að vera tælandi við lauslæti og tækifærishyggju sem er náskyld vændi og það er aldalöng hefð fyrir því viðhorfi að druslan sé á sama þrepi í virðingarstiganum og síbrotamenn og rónar. Mér finnst það reyndar vera stærra vandamál en klám og sori en ég er nú sennilega í minnihluta hvað það varðar.

  Posted by: Eva | 2.09.2011 | 17:23:44

  ——————————————————

  Haha, það kemur fram í fréttinni að þær hafi verið að auglýsa sloppa. Ég hef greinilega horft meira á myndina en textann :Þ

  Myndin segir þá væntanlega; Klæðstu Tinktúruslopp og þú getur reiknað með góðri skemmtun í verklegu tímunum.

  Posted by: Eva | 2.09.2011 | 20:40:55

  ——————————————————

  Ég er orðin svo yfir mig þreytt á eilífri kynlífs-tengingu við allt og ekkert, að þessi auglýsing truflar mig, en ekki vegna niðurlægingar kvenna sérstaklega. Hún hefði truflað mig jafnmikið ef karl hefði verið notaður, það hefði verið alveg jafn hallærislegt.
  Mér finnst þetta úr sér gengin aðferð til að ná athygli, passaði kannski fyrir 50 árum, jafnvel 30, þegar kynlíf var meira tabú en það er í dag.

  Posted by: Kristín í París | 3.09.2011 | 10:23:28

  ——————————————————

  Eva

  Augljóslega eru konur mismunandi og það allt.

  Konur eru hinsvegar nokkuð augljóslega „skrautlega“ kynið í okkar dýrategund, amk í okkar menningu. Karlar eru stærra/sterkara kynið. Þegar karlar spila á eiginleika sem tengjast styrk og stærð þykir það fínt (er einhverra hluta ekki tengt við ofbeldi, fyrst kynþokki er tengdur við vændi), en þegar konur notfæra sér kynþokka og sans fyrir útliti taka þær sjálfar þátt í að tengja þá hegðun við vændi, eftir því sem þú segir.

  Það þykir mér einkennileg kvenréttindabarátta sem gengur út á að líta niður á suma almenna styrkleika og einkenni kvenna í stað þess að hampa þeim.

  Það má síðan eflaust færa rök fyrir því að mikilvægt sé að konur séu ekki hvattar til að vera í þessum kynþokkaleik, þar sem það hentar jú alls ekki öllum konum, en það er þá væntanlega spurning um að víkka rammann, en ekki spurning um að drulla yfir þær konur sem geta og vilja beita þeim hæfileikum.

  Eða hvað..

  Posted by: Kristinn | 3.09.2011 | 10:52:09

Lokað er á athugasemdir.