Það er engin afsökun að hafa píku

siv

Mótmælin gegn Kárahnjúkavirkjun mörkuðu tímamót í sögu umhverfisverndar og mótmælamenningar en þótt þeir sem mótmælu þessum framkvæmdum hafi brotið blað í sögunni, þóttum við ekki par fín. Við vorum vonda fólkið sem höfðum það eitt að markmiði að drepa niður allt atvinnulíf í landinu og svelta svöngu börnin á Reyðarfirði um ókomin ár.

Áhyggjum umhverfissinna var líkt við trúarofstæki. Við vorum ekki marktæk af því að við áttum ekki hús á Reyðarfirði. Því síður vorum við marktæk ef við höfðum ekki eytt sumarfríum okkar á svæðinu sem stóð til að eyðileggja. Þau okkar sem ekki hafa áhuga á útilegum fengum að heyra að þar með hefðum við fyrirgert okkur réttinum á því að hafa skoðanir á umhverfismálum. Áhyggjur okkar af moldroki, ljóstillífun í Lagarfljóti og áhrifum þessarra stórframkvæmda á dýralíf á svæðinu voru afgreiddar sem “tilfinningarök” og “hálendisrómantík” gott ef ekki hrein og klár heimska. (Ég svaraði þessu tilfinningarakakjaftæði t.d. hér og hér)

Ómar Ragnarsson missti starf sitt sem fréttamaður enda hafði hann gert sig sekan um að misnota aðstöðu sína til að kjafta því í almenning að til stæði að leggja stórt landsvæði í rúst. Maðurinn gekk náttúrulega á endanum svo langt að fara í labbitúr niður Laugaveginn. Annar eins pappaskiltahernaður hafði ekki áður tíðkast á Íslandi svo það var ekki von að íslenskir ríkisfjölmiðlar vildu sverta orðspor sitt með því að leyfa öfgakenndum boðskap þessa mikla ofstækismanns að heyrast.

Og aðgerðarsinnar, þeir voru skilgreindir hryðjuverkamenn. Það var “hryðjuverk” að tefja vinnu í nokkra klukkutíma. Að halda til inni á skrifstofu hét “gíslataka”. Það að tefja ferðir vinnuvéla yfir gróið svæði var “skemmdarverk” og að klifra upp í byggingakrana var “að ógna lífi annarra”.

Yfirvaldið skar upp herör gegn þessum óþjóðalýð. Vel þótti við hæfi að lögreglan réðist inn í tjöld og bíla hvers þess túrista sem klæddist lopapeysu og var með groddahár (dread-locks) og drægi fólk þaðan út með ofbeldi. Maður nokkur sem hafði unnið sér það til óhelgi að sjást í nágrenni tjaldbúðanna. varð fyrir því að löggan stoppaði hann til að leita í fórum hans, án heimildar og án þess að ljóst væri hverju var verið að leita að. Ekkert fannst. Löggan ók bíl utan í mann og kærði hann svo fyrir að skemma bílinn, hann var sýknaður. Ferðir bíla með matvæli og aðrar nauðsynjar að tjaldbúðum mótmælenda voru hindraðar án nokkurra raka. Breskur njósnari var sendur til að koma upp um hroðalegar hryðjuverkaáætlanir fólks sem trúði því ekki að umhverfisáhrif Kárahjúkavirkjunar yrðu mjög lítil. Talandi um ofstæki…

Þetta kemur umhverfissinnum ekkert á óvart. Ekki okkur sem skrifuðum bréf og röltum Laugaveginn í humátt á eftir Ómari og gættum þess að trufla engan. Ekki þeim sem hlekkjuðu sig við vinnuvélar fyrir austan og voru ofsóttir fyrir vikið. Ekki fjölmiðlum og ekki starfsmönnum Landsvirkjunar, það vissu allir að svona stórframkvæmdir hafa afleiðingar. Auðvitað kemur það Siv Friðleifsdóttur og þáverandi samstarfsfólki hennar ekkert á óvart heldur og það þarf ekki umhverfissinna til að sjá í gegnum máttlausar tilraunir þeirra til að klóra yfir kúkinn.

Siv Friðleifsdóttir var umhverfisráðherra á þessum tíma. Hún hafði mikil völd og hún beitti þeim til þess að leyfa þessa ósvinnu. Og nú stígur formaður umhverfisnefndar alþingis fram (ég hef tekið upp þá reglu að skrifa alþingi með litlum staf af augljósum ástæðum) og útvegar henni afsökun!

Mörður Árnason var einn þeirra stjórnmálamanna sem hvað harðast stóð gegn Kárahjúkavirkjun á sínum tíma og vitanlega fer hann fram á rannsókn, þó það nú væri. En hann sér nú samt ástæðu til að afsaka ráðherrann sem gerði þetta mögulegt. “Hún var ekki sjálfráð í þessu máli heldur þurfti hún að beygja sig undir vilja forystumanna í ríkisstjórn sem voru Halldór Ásgrímsson og Davíð Odddsson.” M.ö.o. Ekki skamma grey Siv, hún var bara lítil, saklaus kona sem ljótu kallarnir stjórnuðu eins og strengjabrúðu.

Vera má að það hafi farið fram hjá mér en ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma séð stjórnmálamann útvega karli þá afsökun að kona hafi valtað yfir hann. Ekki kom til greina að fría Björgvin G Sigurðsson ábyrgð á afglöpum viðskiptaráðuneytisins þótt Ingibjörg Sólrún hafi misbeitt valdi sínu og leynt hann upplýsingum. Hann sagði af sér en það þurfti hinsvegar alvarleg veikindi til að losna við Ingibjörgu Sólrúnu. Um ábyrgð Ingibjargar Sólrúnar á efnahagshruninu efast enginn sem eitthvað hefur fylgst með en hún situr nú samt stikkfrí á meðan Geir er dreginn fyrir Landsdóm. Ætli það hafi eitthvað með kynferði að gera? Mig grunar það og mig rennir líka í grun að Mörður hefði ekki litið á umhverfisráðherra sem saklaust fórnarlamb ef karl hefði gegnt embættinu.

Nú er ég ekki að útiloka þann möguleika að landráðamennirnir Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson hafi valtað fyrir Siv. Mér finnst það m.a.s. frekar líklegt. En það fríar Siv Friðleifsdóttur ekki ábyrgð. Ef hún treysti sér ekki til að standa á móti karlaveldinu, þá átti hún frekar en að leyfa þetta hryllingsverk gegn betri vitund, að viðurkenna vanmátt sinn og segja af sér með þeirri skýringu að hún hafi staðið ráðalaus gegn körlum sem vildu kúga hana. En hún gerði það ekki, hún skrifaði undir. Sjálfviljug.

Þegar kona tekur við ráðherraembætti reiknar hún með að fá samskonar völd og karl í sömu stöðu og væntanlega sömu ábyrgð. Hún þiggur líka sömu kjör og karl, há laun og fríðindi sem helgast af mikilli ábyrgð eða það er allavega sú skýring sem launagreiðandanum er gefin. Það er ekki í boði fyrir konur sem vilja hafa völd að taka aðeins það þá þætti feðraveldisins sem þeim henta, svo sem mikil völd og góð laun, en neita svo að svara fyrir gjörðir sínar. Siv komst upp með það í þetta sinn en ég ætlast til þess af íslenskum fréttamönnum að þeir krefji hana svara og ég ætlast til þess af henni að hún svari þeim.

Siv Friðleifsdóttir ber persónulega ábyrgð á Kárahnjúkavirkjun. Hún er ekki sú eina sem ber ábyrgð en hún gegndi lykilhlutverki og ábyrgð hennar er bæði mikil og óumdeilanleg. Hún á að axla þá ábyrgð og það er fullkomlega óþolandi ef umhverfissinnar sem stóðu á móti virkjuninni ætla að láta hana komast upp með að sleppa billega. Ábyrgð ráðherra er nefnilega sú sama, hvort sem hann hefur typpi eða píku.

One thought on “Það er engin afsökun að hafa píku

  1. ———————————

    Viltu kanske líka meina að Jóhanna Sigurðardóttir beri ábyrgð að á fjórða tug manna fórst á Vestfjörðum 1995? En hún hafði verið skipulagsráðherra sl. sjö ár á undan og með píku allan tímann?

    Posted by: Kristján Sig. Kristjánsson | 10.09.2011 | 16:18:39

    ———————————

    Tók Jóhanna einhverja umdeilda ákvörðun um framkvæmdir sem stuðluðu beinlínis að snjóflóðum?

    Posted by: Eva | 10.09.2011 | 16:24:04
    ———————————

    Nei alls ekki. Það var ekki umdeild ákvörðun að stinga skýrslum undir stól. Það var óumdeild ákvörðun að gera ekki neitt þó fjórtán manns færust með þeim afleiðingum að tuttugu manns fórust níu mánuðum seinna út af nákvæmlega sömu ástæðum vitandi það að sextíu flóð hefðu fallið á þennann stað á síðustu fimmtíu árum.
    Þetta var svo óumdeilt að Jóhanna gat lýst mig og einn sem hafði misst þrjú börn í flóðunum opinberlega fávita fyrir að spyrja um ábyrgð.

    Menn stuðla ekki að náttúruhamförum.

    Posted by: Kristján Sig. Kristjánsson | 10.09.2011 | 16:41:00

    ———————————

    Ég man þessi mál ekki nógu vel Kristján en það er ekkert að því að vekja þessar spurningar þótt seint sé, bæði þá hvort ráðherra hafi brugðist og eins hvort karlmaður hefði fengið á sig harðari gagnrýni. Geturðu stytt mér leið með því að vísa á tengla?

    ———————————

    Posted by: Eva | 10.09.2011 | 16:46:27

    http://www.malefnin.com/ib/index.php?showtopic=81236&hl=snj%C3%B3fl%C3%B3%C3%B0

     
    ———————————

    Posted by: Kristján Sig. Kristjánsson | 10.09.2011 | 16:51:45

    Ég kannast nú reyndar ekki við það hafi verið almenn stemning fyrir þeirri kenningu að þeir sem misstu allt sitt hafi ekki orðið illa úti. Hinsvegar er að rifjast upp fyrir mér einhver sjónvarpsumfjöllun um að ekkert hafi verið gert með hættuskýrslur. Það væri fróðlegt að taka þessi mál upp aftur núna. Hefurðu farið fram á að þetta verði rannsakað? Ég veit svosem ekki hvert væri best að beina þeirri beiðni.

    ———————————

    Posted by: Eva | 10.09.2011 | 17:00:00

    Þú afsakar að ég er að fara út fyrir efnið en benti á þetta til að sýna að almenningur slær alltaf skjaldborg um um stjórnvöld þegar spurt er um ábyrgð þeirra.
    Því miður hefur Mbl. þurrkað nafn mitt úr leitarvél sinni.

    ———————————

    Posted by: Kristján Sig. Kristjánsson | 10.09.2011 | 17:36:22

    Ég held reyndar að smæð samfélagsins geri það alltaf mjög erfitt að kalla ráðamenn til ábyrgðar. Of hátt hlutfall þjóðarinnar sem hefur einhver persónuleg tengsl við hvern og einn. Ég er jafnvel farin að íhuga möguleikann á því að ganga í ESB út á það.

    ———————————

    Posted by: Eva | 10.09.2011 | 17:45:33

    Þetta er áhugaverð og réttmæt gagnrýni hjá þér. Ég las kynjakafla skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og þar var jafn fimlega skautað framhjá ábyrgð Valgerðar Sverris og hún einnig sögð hafa átt við ofurefli að etja við einkavægðingu bankanna. Feðraveldisfólin Davíð og Halldór ku hafa tekið af henni alla stjórn og hún bara staðið hjá eins og dáleidd hæna.

    Mér finnst alltaf jafn merkilegt að fólk, svona almennt, skuli ekki bera kennsl á þá kvenfyrirlitningu sem felst í því að ætla konum alltaf að vera svo meðfærilegar.

    Þetta sérkenni kemur einnig fram í refsimálum og skilar sér í umtalsverðum kynbundnum refsimun.

    ———————————

    Posted by: Sigurður Jónsson | 12.09.2011 | 0:32:52

    Björgvin G. sagði af sér korteri áður en stjórnin féll. Það var alfarið sýndarmennska hans sjálfs, væntanlega til þess að tryggja honum endurkjör.

    Svo veit ég ekki betur en að sami Björgvin hafi einmitt sloppið við að sitja við hlið Geirs H. Haarde í landsdómi af því að hann fékk ekkert að vita og réði engu, þó að hann væri ráðherra. Það var stjórinn, forsætisráðherra, sem réði öllu.

    Þannig að mál hans er alveg sambærilegt við mál Sivjar. Þetta snýst ekki um píkur eða tippi, karla eða konur, heldur einstaklinga sem taka að sér að vera ráðherrar upp á punt án þess að hafa nokkur völd, og reyna ekki einu sinni að taka sér þau völd eða gera uppreisn gegn ofurvaldi forsætisráðherra eða flokksformanna.

    ———————————

    Posted by: Anna | 12.09.2011 | 1:10:24

    ———————————

    Takk fyrir innleggið Sigurður. Ég skrifaði einmitt um konur og refsingar hér:
    http://www.norn.is/sapuopera/2011/06/kynjakvota_i_fangelsin.html
    og hér:

    http://www.norn.is/sapuopera/2011/06/fornarlambsfeminisminn_gengur.html

    Posted by: Eva | 12.09.2011 | 10:09:16

    ———————————

    Anna, ég vildi að mér þætti það augljóst að þetta snúist ekki um miðjafna afstöðu til kynjanna en því miður held ég að jafnréttisbaráttan sé bara ekki komin eins langt og ég vildi. Björgvin var sannarlega leyndur upplýsingum en hann sagði af sér samt þótt seint væri. Siv var ekki leynd neinu eða beitt neinum þeim klækjum sem hún sá ekki í gegnum.

    Björgvin var nú ekki sá eini sem slapp frá landsdómi en hann slapp þó á nokkuð sannfærandi forsendum. ISG slapp líka þótt enginn skilji almennilega út á hvað. Manstu annars eftir einhverju öðru dæmi úr íslenskri pólitík þar sem karlmaður hefur sloppið með skrekkinn út á það að hafa verið beittur ofurefli?

    Posted by: Eva | 12.09.2011 | 10:14:58

    ———————————

    Anna: Ég held að meira að segja Kynjafræðimógúlarnir sem rituðu kynjakafla Rannsóknarskýrslu Alþingis væru þér ósammála. Þeir hafa þetta að segja um stelpurnar:

    “Nokkur atriði í þessu ferli gætu bent til þess að hlutverk viðskiptaráðherra beri keim af hugtakinu styðjandi kvenleiki (e. emphasized femininity) sem kallast á við hugtakið ráðandi karlmennska (e. hegemonic masculinity)”

    Hér er Valgerður Sverris nettuð út úr jöfnunni af því að hún er kona.

    ———————————

    Eva: Takk fyrir ábendingarnar. Ég var reyndar búinn að lesa aðra færsluna og tek undir með þér. Ég hjó einmitt eftir þessu viðhorfi Helgu þegar hún setti það fram í viðtali.

    Ég á eftir að lesa rannsókn Helgu og er svolítið tvístígandi í afstöðu minni til hennar. Ég hef lesið nokkrar svona rannsóknir erlendis og þóttist hafa himinn höndum tekið þegar ég heyrði af íslenskri rannsókn á kynbundnum refsimun en á hinn bóginn finnst mér með miklum ólíkindum að nota þetta til áframhaldandi fórnarlambavæðingar.

    Posted by: Sigurður Jónsson | 12.09.2011 | 16:56:30
    ———————————

    Algerlega sammála þér. Þessi mál eru jafn mikilvæg og náttúrulega samofin öllu því sem olli hruninu. Það þarf að annað hvort rannsaka nánar, eða nýta betur rannsóknarskýrsluna ógurlegu (sem ég hef enn ekki lesið, ég játa það, en ég er háskólanemi og hef ekki mikinn tíma í lestur utan námsefnis!) allt sem viðkemur Kárahnjúkavirkjun. Hvað varðar frekari framkvæmdir, held ég að ÞEIR (whooo, they) viti að við erum allmiklu fleiri tilbúin í að taka þann slag gegn ÞEIM.

    Posted by: Kristín í París | 15.09.2011 | 21:12:41

    ———————————

    Já, og í hitanum gleymdi ég alveg að undirstrika að femínistalega séð er ég líka sammála þér, það var þá aldrei:)

    Posted by: Kristín í París | 15.09.2011 | 21:13:42

Lokað er á athugasemdir.