Um allan heim búa konur við hryllilega kúgun. Svokallað feðraveldi.
Í Íran er mönnum refsilaust að berja konurnar sínar.
Í Úganda gildir sú regla að ef kona missir manninn sinn kemur fjölskylda hans og tekur eignirnar og börnin, ekkjan er réttlaus.
Í Kína eru stúlkubörn óvelkomin í heiminn. Fóstrum er eytt á grundvelli kyns og mun meiri líkur eru á að telpur en drengir lendi á munaðarleysingjahælum.
Á Íslandi er ástandið þannig að konur eiga að vísu sömu möguleika og karlar á að fá styrki til kvikmyndagerðar, meiri ef eitthvað er, en þeim er samt, að áliti Helenu H.G. Þingholt, meinaður aðgangur að hlaðborðinu. Það kemur að vísu ekki fram í greininni hvernig þeim er meinaður aðgangur en það virðist einhvernveginn tengjast þeirri raun að konur geti átt von á því að börnin þeirra blygðist sín ef þær lyfta rasskinn til að reka við á almannafæri. Þetta prumpóþol samfélagsins í garð kvenna er skýrt dæmi um kvennakúgun eða hefur nokkur heyrt um 12 ára börn sem kunna ekki að meta það að feður þeirra sleppi einum og einum þarmagusti í viðurvist skólafélaganna?
Íslenskar konur eru ekki gerendur. Þær eru upp til hópa þolendur. En þannig þarf það ekki að vera. Með ríkisstyrktri kvikmyndagerð er hægt að lyfta sjálfsvirðingu kvenna á hærra plan. Hjálpa þeim að verða gerendur, sem hika ekki við að rífa í pjölluna á sér og reka við á kaffihúsum.
Til þess að svo megi verða þurfa þær konur sem vilja frelsa kynsystur sínar úr ánauð feðraveldisins að njóta sérstaks stuðnings. Kynjakvótar í kvikmyndagerð gætu bætt ástandið en þeir nægja þó ekki til að tryggja jafnrétti þar sem þolendur feðraveldisins gætu tekið upp á því að gera kvikmyndir um persónur sem falla að hefðbundnum kynjaímyndum. Því þarf að ganga mun lengra en Helena leggur til. T.d. mætti gera það að skilyrði fyrir styrkveitingu að kynjafræðingar leggi blessun sína yfir handritið.
Kvikmyndir um konur sem freta fúlt og klóra sér í klobbanum ættu hiklaust að njóta forgangs til styrkja, því meðan konur prumpa ekki á kaffihúsum munu þær heldur ekki prumpa við hlaðborð íslenskar kvikmyndagerðar. Gerendur af öllum kynjum eiga það nefnilega fyrst og fremst sameiginlegt að skeyta engu um viðteknar hugmyndir um það við hvaða aðstæður er viðeigandi leysa vind og klóra sér í kynfærunum.