Refsiharka er áreiðanlega mjög vond aðferð til þess að breyta hegðun. Og að sjálfsögðu á að láta þá sem grunaðir eru um afbrot njóta vafans.
En væri ekki samt hægt að gera eitthvað til þess að tryggja varnarlausu fólki vernd gegn þeim sem því stendur ógn af? Væri virkilega ekki hægt að nota nálgunarbann oftar?
Nýverið staðfesti Hæstiréttur úrskurð héraðsdóms Reykjaness þar sem nálgunarbanni var hafnað. Kærði er að sögn lögreglu grunaður um líkamsárás, eignaspjöll og hótanir. Í dómi héraðsdóms segir berum orðum að rökstuddur grunur liggi fyrir um refsivert brot, þ.e. eignaspjöll, en samt töldu dómstólar ekki rétt að beita nálgunarbanni.
Ástæðan er tvíþætt; annarsvegar að gögn skortir um aðra refsiverða háttsemi en þau eignaspjöll sem maðurinn hefur sjálfur játað og hinsvegar sú að samkvæmt lögunum má aðeins beita nálgunarbanni þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti.
Auðvitað eiga dómstólar ekki dæma menn til refsinga án sönnunargagna en síðara atriðið stendur í mér. Hvaða vægari úrræði er hægt að hugsa sér en þau að banna manni að elta tiltekna manneskju, setja sig í samband við hana og sniglast í kringum heimili hennar?
Nálgunarbann er ekki mjög íþyngjandi úrræði. Það þarf að virkja það. Og það má vel vera að lögreglan þurfi að taka til heima hjá sér (kæmi mér ekki á óvart) en það er ekki réttlætanlegt að bjóða fólki upp á það að lifa við stöðuga áreitni. Ef lögin væru jafn ágæt og Brynjar Nílesson álítur væri þessi staða ekki uppi.
Það þarf að vera hægt að tryggja þolendum eltihrella vernd. Á hinn bóginn er ekki hægt að bjóða upp á þann möguleika að koma manni á sakaskrá án þess að meira en framburður einnar manneskju bendi til sektar. Væri ekki hægt að útfæra nálgunarbann þannig að því fylgdi fyrirvari um að brot teldist ósannað og yrði þar með ekki skráð á sakaskrá? Svo væri líka til bóta ef nálgunarbanni væri fylgt eftir en það hefur nú stundum gengið treglega.