Því er ennþá haldið fram sem staðreynd að það sé nánast útilokað að fá kynferðisbrota- menn sakfellda. Að allt að 80% mála sé vísað frá, og enda þótt mál fari fyrir dóm séu fáir sakfelldir, að lítið tillit sé tekið til andlegra áverka brotaþola og margar konur veigri sér við að kæra þar sem þær gangi í gegnum aðra nauðgun af hálfu réttarkerfisins.
Lengst af trúði ég þessu gagnrýnislaust. Það var ekki fyrr en ég sá þessa úttekt sem mig fór að gruna að ástæður þess að svo mörg mál falla niður séu töluvert flóknari en svo að hægt sé að skella skuldinni á „karllægt réttarkerfi“. Það er nefnilega ekki rétt túlkun að svo mörgum málum sé vísað frá hjá lögreglu, því samkvæmt þessu eiga 40% niðurfellinga sér þá skýringu að konur fylgja málum ekki eftir. Þegar ég fór svo að skoða dóma í kynferðisbrotamálum sannfærðist ég um að skýringin á því að fáar konur kæra kynferðisbrot sé ekki sú að dómskerfið haldi hlífiskildi yfir nauðgurum.
Ég hef velt því mikið fyrir mér hversvegna svo margar konur sem hafa samband við lögregluna vegna kynferðisbrota fylgi málum ekki eftir. Helstu skýringar sem mér hafa komið til hugar eru eftirfarandi:
-Konurnar sem tilkynna kynferðisofbeldi fá ekki upplýsingar um næsta skref.
-Þolendur eru hugsanlega oft veikir fyrir og fá ekki aðstoð til að fylgja málum eftir.
-Hluti þolenda átta sig á því eftir á að þótt upplifun þeirra hafi verið slæm sé málið ekki kæruhæft og þær konur sjá ekki tilgang í að kæra.
-Ekki gerðar nógu miklar kröfur til fagmennsku hjá kynferðisbrotadeild.
-Þolendur mæta fjandsamlegu viðmóti eða áhugaleysi hjá löggunni.
-Löggan spyr óþarfa spurninga eða gefur á einhvern hátt í skyn að brotaþoli beri sjálfur ábyrgð á glæpnum.
-Löggan ásakar brotaþola um að fara með rangt mál eða sýnir það með framkomu sinni að hún dragi frásögnina í efa.
-Málum stungið undir stól eða þau dagar uppi í kerfinu.
Þetta eru þó aðeins mínar eigin vangaveltur og ég hef ekki gert tilraun til að fá þær staðfestar fyrr en nú í apríl.
Um kynferðisbrotadeild
Kynferðisbrotadeild lögreglunnar tók til starfa árið 2007. Ellefu manns starfa hjá deildinni. Í fyrstu einskorðaðist starf hennar við rannsókn kynferðisbrota gagnvart fullorðnum en í dag sinnir hún einnig kynferðisbrotum gagnvart börnum, heimilsofbeldi og öðrum brotum sem eiga sér stað í nánum samböndum. Í því skyni að leita skýringa á því hversvegna svo mörg kynferðisbrotamál eru felld niður og til að grennslast fyrir um hvort einhverjar af mínum tilgátum ættu við, heimsótti ég kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þann 3ja apríl sl. Mér var fyrst sýnt móttökuherbergi sem öllum sem tilkynna kynferðisbrot er boðið inn í. Þetta er notaleg stofa með sófum, plöntu og veggteppi, lítið áberandi myndavél og upptökutæki. Gert er ráð fyrir sæti fyrir brotaþola, réttargæslumann, fulltrúa barnaverndar ef það á við og svo sæti fyrir lögreglumann sem tekur skýrsluna. Sérbúin aðstaða er því miður ekki til staðar hjá öllum lögregluembættum en kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sinnir meirihluta nauðgunarmála. Ég fékk einnig tækifæri til að ræða við þrjá starfsmenn deildarinnar. Hér á eftir fara samræður okkar.
Viðtal við þrjá fulltrúa deildarinnar
Nú eruð þið að sinna mjög viðkvæmum málaflokki. Eru einhverjar kröfur gerðar til starfsmanna kynferðisbrotadeildar umfram t.d. umferðarlöggunnar?
Það eru mjög miklar kröfur gerðar til starfsmanna kynferðisbrotadeildar. Það er enginn ráðinn hingað inn nema hafa langa og víðtæka reynslu. Reynsla af rannsókn ofbeldisbrota er skilyrði og allir starfsmenn eru sérfræðingar, þrír hafa farið á sérstök námskeið á Englandi til að taka skýrslur af börnum og þolendum ofbeldisbrota, þrír hafa sérhæft sig í að greina og meta barnaníð á netinu og við að greina kynferðislegt ofbeldi í gegnum samskiptasíður netsins, aðrir eru reyndir rannsakendur með áralanga reynslu í rannsóknum ofbeldisbrota.
Samkvæmt yfirliti um afdrif kynferðisbrotamála frá árinu 2008, eiga um 40% niðurfellinga sér þá skýringu að brotaþolar fylgja málum ekki eftir. Hafið þið einhverjar tölur um það hversu margar þessara kvenna draga kæruna til baka og hversu margar hafna samstarfi við ykkur?
Það er mjög sjaldgæft að konur dragi kærur til baka eða slíti samstarfi. Stór meirihluti þessara mála skýrist af því að kynferðisbrot er tilkynnt en svo er ekki lögð fram kæra. Við fylgjum tilkynningunum eftir með því að tala við brotaþola, við spyrjum alltaf hvort þeir ætli að kæra enda er það meginreglan að brotaþoli hafi um það að segja hvort hann vilji halda málinu áfram. Oftar en ekki er ölvun og þreyta sem valda því að það er ekki hægt að leggja fram formlega kæru strax eða eftir skoðun á neyðarmóttöku og sumar konur vilja hugsa sig um áður en þær ákveða hvort þær leggi fram kæru en þá er ákvörðunin oft tekin í samráði við réttargæslumanninn.
Getur verið að brotaþolar fái ekki fullnægjandi upplýsingar og það sé þörf fyrir meiri stuðning?
Við teljum ólíklegt að ástæðan sé upplýsingaskortur. Þegar brotaþoli kemur á
neyðarmóttöku, fær hann strax allar upplýsingar um rétt sinn og neyðarmóttakan hefur samband við réttargæslumann en eitt meginstarf hans er að upplýsa brotaþola um framgang málsins og hvað hann eigi að gera næst.
Nú lítur móttökuherbergið hjá ykkur mjög huggulega út og það hljómar traustvekjandi að þið hafið á að skipa vel menntuðu fólki, en menntun út af fyrir sig hefur lítið að segja ef fólk hefur ekki tilfinningu fyrir því sem það er að gera. Hvernig komið þið í veg fyrir slys eins og það að lögreglumaður sem tekur á móti konu sem hefur orðið fyrir nauðgun sýni framkomu sem gæti fælt hana frá?
Jafnvel þótt hingað yrði ráðinn einhver sem ekki er starfi sínu vaxinn er mjög ólíklegt að það gerist. Réttargæslumaðurinn kemur á staðinn á sama tíma og brotaþoli og það fara engar yfirheyrslur fram án þess að réttargæslumaður sé viðstaddur svo hann myndi þá strax grípa inn í ef eitthvað væri óeðlilegt við vinnubrögðin.
Getið þið lýst því fyrir mér hvernig skýrslutaka fer fram, hvaða hlutverki gegnir t.d. myndavélin?
Skýrslutakan er tekin upp á myndband með hljóðrás. Tilgangurinn er í senn sá að að forðast að trufla frásögnina á meðan verið er að skrifa niður og einnig sá að góð gögn liggi fyrir um andlegt ástand brotaþola – og reyndar líka þess sem grunaður er um brotið, en það er ómetanlegt fyrir ákæruvald að sjá hvernig brotaþoli og einnig hinn kærði lýsa þeirri atburðarás sem er verið að spyrja um þegar tekin er afstaða til þess hvort málið hafi framgang eður ei.
Þannig að þið takið ekki eingöngu tillit til áverka og annarra áþreifanlegra sönnunargagna heldur skoðið þið einnig viðbrögð sem benda til áfalls?
Já, þ.e.a.s. ekki við, heldur lögfræðingarnir sem meta það hvort málið er ákæruhæft. Okkar hlutverk er bara rannsaka málið, taka skýrslur og safna öðrum gögnum.
Nú koma þeir lögfræðingar væntanlega ekki að rannsókninni sjálfri en lögreglan getur samt sem áður haft skoðun á málinu. Er ekki hætta á því að brotaþoli fái strax þau skilaboð frá lögreglunni að það þýði ekkert að vera að kæra?
Nei, við höfum ekki áhrif á ákvörðun um það hvort málið fer áfram og enda þótt við hefðum skoðun á því þá er það ekkert í okkar verkahring að ræða okkar persónulegu skoðanir. Auk þess er réttargæslumaður viðstaddur skýrslutöku og hún er tekin upp og það væri algerlega óásættanlegt ef starfsmaður deildarinnar reyndi að hafa áhrif á það hvort mál er kært. Við höfum einnig í okkar verklagi að taka ekki afstöðu til þess hvort málið sé fyrnt eða ekki, sú ákvörðun er tekin hjá ákæruvaldi eða ríkissaksóknara, við tökum niður kæruna sem er síðan send ákæruvaldi til ákvörðunar.
Ég hef heyrt þá skýringu á því að konur fylgi málum ekki eftir, að þær séu spurðar allskyns óviðeigandi spurninga um drykkju sína, klæðnað og kynhegðun, sem verði til þess að þær fyllist sjálfsásökun eða verði hræddar um að þið trúið þeim ekki. Eru einhver takmörk fyrir því hvað þið spyrjið um?
Við spyrjum aldrei persónulegra spurninga ef hægt er að komast hjá því. Við erum með staðlað handrit sem er notað í öllum skýrslutökum. Við verðum auðvitað að spyrja óþægilegra spurninga því það er ekkert hægt að senda málið áfram nema við höfum nokkuð skýra mynd af því hvað gerðist. Við spyrjum um ölvun þegar atburðurinn átti sér stað því það getur skipt töluverðu máli hvort konan var fær um að sporna gegn verknaðinum eða ekki. Við verðum að spyrja hvernig samskiptin voru, hvað var sagt og gert og á hvaða hátt brotaþoli gaf til kynna að hún væri ekki viljug. Með því erum við auðvitað ekki að draga frásögnina í efa heldur að reyna að fá mynd af atburðinum. Við spyrjum um klæðnað þar sem það á við en eingöngu til að gera okkur ljósari mynd af því hvernig nauðgunin fór fram, t.d. með hvaða hætti gerandinn gat klætt brotaþola úr fötunum. Við spyrjum um samband geranda og þolanda og um aðdragandann að brotinu en við spyrjum ekki um kynhegðun þolanda við önnur tækifæri enda kemur hún málinu ekkert við.
Getið þið fullyrt að brotaþolar fái ekki þau skilaboð að konur eigi ekki að gera mál úr því ef maki þeirra nauðgar þeim, eða spurningar á borð við „hversvegna varstu í svona stuttu pilsi?“
Við spyrjum aldrei nokkurntíma slíkra spurninga eða annarra sem ætla má að brotaþoli tæki nærri sér, og það er bannað samkvæmt okkar verklagsreglum enda kemur það málinu ekkert við.
Verðið þið vör við að konum líði illa undir skýrslutöku?
Fólk sem hefur orðið fyrir þungbærri reynslu á oft erfitt með að ræða það sem gerðist og auðvitað líður mörgum illa vegna þess sem þær hafa gengið í gegnum. En ég fullyrði að það líður engum illa hérna vegna framkomu lögreglunnar.
Þið hafið ekki neinar skýringar á því hversvegna fólk kærir ekki? Hafið þið t.d. haft samband við konur sem hafa tilkynnt brot og hvatt þær til að kæra og fengið einhverjar skýringar á því hvers vegna þær vilja það ekki?
Já, við höfum samband ef kæra er ekki lögð fram og spyrjum hvort þær ætli að leggja fram kæru en ákvörðunin er alfarið hennar í samráði við réttargæslumanninn, enda er það ekki okkar hlutverk að hafa áhrif á það.
Fáið þið kvartanir frá brotaþolum eða réttargæslumönnum um að það sé eitthvað við ykkar vinnubrögð sem valdi því að konur vilji ekki vinna með ykkur?
Nei, við verðum miklu frekar vör við þakklæti eftir að kynferðisbrotadeildin tók til starfa árið 2007. Við fáum hinsvegar oft gagnrýni frá þeim sem liggja undir grun. Stundum gerist það t.d. að kona tilkynnir kynferðisbrot, meintur gerandi er handtekinn, yfirheyrður, settur í klefa og látinn gangast undir réttarlæknisfræðilega rannsókn en svo er engin kæra lögð fram. Ásökunin virðist oft koma manninum mjög á óvart, hann staðhæfir að engin þvingun af neinu tagi hafi átt sér stað og er mjög ósáttur við okkur. Við höfum fengið á okkur kærur vegna svona mála og menn fengið bætur en það er ekki oft.
Setjum sem svo að kona sem kærir kynferðisofbeldi sé ósátt við vinnubrögð lögreglunnar. Gæti hún þá snúið sér eitthvert annað til að leita réttar síns?
Já hún gæti kært okkur til yfirlögregluþjóns og jafnvel beint kæru sinni til ríkissaksóknara. En þar sem skýrslutaka er tekin upp á myndband og réttargæslumaður viðstaddur, yrði auðvelt að færa sönnur á það ef starfsmaður kynferðisbrotadeildar gerði sig sekan um að fara ekki eftir reglum í samskiptum við brotaþola.
Mér finnst dálítið merkilegt að samkvæmt yfirlitinu frá 2008, er mjög hátt hlutfall mála þar sem gerandinn finnst ekki. Þetta átti við í 30% þeirra mála sem voru niðurfelld þetta ár. Hversvegna gengur svona illa að finna þessa menn?
Það er ekki viljaleysi til að rannsaka málin. Skýringin er yfirleitt sú að konan getur ekki gefið upplýsingar sem hægt er að vinna út frá. Konur hafa t.d. orðið fyrir nauðgunum inni á yfirfullum skemmtistöðum, hafa engar persónuupplýsingar um manninn og hann bara finnst ekki. Við fáum líka dæmi þar sem konan hefur bara mjög óljósa hugmynd um það hvar glæpurinn fór fram. Veit kannski bara að það gerðist í blokk í tilteknu hverfi. Við gerum það sem í okkar valdi stendur í slíkum málum. Við höfum ekið um bæinn með konur tímunum saman í von um að þær átti sig á staðnum. Ef konan getur gefið einhverjar upplýsingar, þótt ekki sé nema blómapottur eða sérstakt teppi í stigagangi þá förum við og leitum. En stundum ber það bara engan árangur.
Er það þá helst í málum þar sem konan var dauðadrukkin sem gerandinn finnst ekki?
Það er mjög algengt að mikil áfengis- og vímuefnaneysla sé tengd kynferðisbrotum en það gerist líka að bláedrú konur geti ekki með nokkru móti rifjað upp neitt sem gagnast okkur við rannsókn.
Fyrir nokkrum vikum birti DV frásögn konu sem sagðist hafa kært nauðgun og beðið eftir svari í heilt ár. Er algengt að mál dagi uppi í kerfinu eða sé stungið undir stól?
Það er mjög óvenjulegt að svona langur tími líði án þess að mál sé afgreitt en ef það dregst lengi þá er skýringin ástæður sem við ráðum ekki við. T.d. gæti verið að gerandinn sé staddur erlendis og ekki hægt að ná í hann til að yfirheyra hann. Málum er aldrei stungið undir stól. Það er allt of mikið eftirlit til að það eigi að geta gerst. Það eru öll mál skráð hjá okkur og við förum yfir stöðuna í hverri einustu viku. Okkar vinnuregla er sú að það líði ekki lengri tími en 60 dagar frá því að kæra er lögð fram og þar til brotaþoli fær svar um hvort málið sé talið ákæruhæft. Því miður hefur tíminn sem rannsókn tekur verið að lengjast því verkefnum deildarinnar hefur fjölgað of mikið miðað við mannafla en við reynum að bæta það upp með því að tryggja brotaþolum mjög greiðan aðgang að lögreglunni. Þeir geta haft samband í okkar persónulegu símanúmer, jafnvel utan vinnutíma og þetta er betri þjónusta en hjá flestum öðrum stofnunum. Auk þess getur brotaþoli alltaf haft samband við sinn réttargæslumann sem á að geta aflað upplýsinga um það hversvegna mál hefur dregist.
Af og til kemur upp umræða um það misræmi sem er á milli fjölda þeirra mála sem eru kærð til lögreglu og tilkynnt til Stígamóta. Á síðasta ári voru t.d. 18 hópnauðganir tilkynntar til Stígamóta en aðeins tvær þeirra kærðar til ykkar. Fenguð þið einhverjar óformlegar tilkynningar um fleiri hópnauganir eða einhverja vitneskju um þau eftir öðrum leiðum?
Nei. Við vitum ekki um önnur mál en þessi tvö.
En hvað með aðra brotaflokka. Kannast lögreglan t.d. við fimmtán mansalsmál sem Stígamótakonur tala um?
Nei. Frá upphafi höfum við fengið tvö mál þar sem grunur lék á mansali. Þau fóru bæði fyrir dóm og í öðru þeirra var sakfellt.
Eruð þið í einhverju samstarfi við hreyfingar á borð við Stígamót og Kvennaathvarfið?
Við höfum góð samskipti við þessar hreyfingar og einnig við Blátt áfram og Drekaslóð en það hefur ekki verið um formlegt samstarf að ræða nema við Kvennaathvarfið. Þessar hreyfingar hafa veitt þolendum mikinn stuðning og einnig komið fræðslu á framfæri við almenning sem að okkar mati er mjög mikilvægt. Í dag eru konur t.d. almennt meðvitaðar um að þær eigi að leita strax á neyðarmóttöku og það sé óskynsamlegt að drífa sig í sturtu og henda rifnum fötum eða öðrum sönnunargögnum þar á meðal nærfatnaði.
Ég hef áhyggjur af hugmyndum um öfuga sönnunarbyrði í þessum málaflokki. Þessi umræða kemur upp af og til og ég hef áhyggjur af öllum tilraunum til að endurskilgreina kynferðisofbeldi. Hafið þið orðið meira vör við það á síðustu árum að mál sem eru á gráu svæði séu kærð?
Það kemur fyrir að mál eru kærð sem leikur vafi á að falli undir skilgreiningu laganna á kynferðisofbeldi en engin greinileg aukning á slíkum málum.
Niðurstaða
Niðurstaða mín eftir þessa heimsókn til kynferðisbrotadeildar er sú að ef þolendur kynferðisbrota upplifa aðra nauðgun af hálfu réttarkerfisins, þá sé skýringin allavega ekki karllægt réttarkerfi því verklagsreglur gera ráð fyrir að fullt tillit sé tekið til þess að um viðkvæm mál er að ræða. Engar reglur koma í veg fyrir mannleg mistök eða hreinan og kláran afglapahátt og reglur tryggja ekki að ekkert fari úrskeiðis. Það er vissulega mögulegt að hluti af þeim mikla fjölda kvenna sem ákveður að kæra ekki kynferðisbrot hafi orðið fyrir einhverri þeirri reynslu sem hrekur þær frá því að kæra en þær ættu þá tvímælalaust að leggja fram kæru og segja frá reynslu sinni opinberlega. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt eina einustu reynslusögu af því tagi í meira en 20 ár þótt ýmsir telji víst að konur séu yfirheyrðar um dræsuhátt sinn og sagt að hætta þessu væli þegar þær kæra nauðgun.
Ég velti því fyrir mér hvort skýringin á því að svo margar konur sem upplifa nauðgun kæra hana ekki, sé allsekki karllægt réttarkerfi, heldur sú að konur séu í ríkari mæli farnar að túlka ömulega kynlífsreynslu sem nauðgun, þótt engin nauðung hafi átt sér stað. Getur verið að ákveðinn lífsstíll sem er orðinn almennari og viðurkenndari en áður, auki áhættuna á því að fólk verði fyrir slæmri kynlífsreynslu? Getur verið að þegar fólk, stundum kornungt, stofnar til kynna við ókunnuga, jafnvel til hópkynlífs undir miklum áfengisáhrifum, aukist hættan á því að það verði fyrir kynferðislegum áföllum? Og getur verið að forvarnir ættu kannski að beinast gegn hegðun sem eykur líkurnar á því að fólk af báðum kynjum lendi í aðstæðum sem það ræður ekki við, fremur en því að dreifa hugmyndum um að nauðganir séu viðurkennd hegðun, bæði meðal almennings og innan réttarkerfsins?
Viðbót, daginn eftir birtingu
Nokkrir hafa lýst því viðhorfi sínu að það sé rangt af mér að veita kynferðisbrotadeild lögrelunnar „drottningarviðtal“.
Árum saman hafa talsmenn þolenda í nauðgununarmálum fengið að halda því fram algerlega gagnrýnislaust að ástæðan fyrir því að svo fá mál eru kærð sé sú að þolendur gangi í gegnum aðra nauðgun af hálfu réttarkerfisins. Einu tilraunirnar sem ég hef séð til að skapa einhverskonar mótvægi eru opinberar skýrslur um afdrif nauðgunarmála og stutt grein á vef dómstólanna þar sem útskýrt er að dómar byggist á túlkun laganna en ekki geðþóttaákvörðun dómara. Ég spyr því þá sem ofbýður þessi freklega árás mín á þá almennu skoðun að lögreglan leiki sér að því að pína fórnarlömb nauðgana:
– Er einhver spurning í þessu viðtali sem þér finnst ekki ástæða til að almenningur fái svar við?
– Er eitthvert svar frá lögreglunni sem þú telur að sé rangt?
– Hvern finnst þér að ég hefði átt að spyrja um verklag kynferðisbrotadeildar ef ekki lögguna sjálfa?