Hildur Lilliendahl og hatrið á netinu

tjaning

Tjáningarfrelsi þitt nær ekki lengra en svo að um leið og þú ert farinn að valda öðrum sársauka og þjáningum, þar lýkur því.

Svo mælti Hildur Lilliendahl í viðtali við Ríkisútvarpið í gær. Tilefnið var fundur, á vegum Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, um hatursorðræðu á netinu.

Netdólgur pönkast á netdólgum

Hildur Lilliendahl er með umdeildari konum. Hún er dáð vegna ábendinga um það sem hún telur kvenhatur. Hötuð vegna þess að túlkanir hennar á orðum sem hún skilgreinir sem kvenhatur eru stundum í litlu samræmi við ásetning þess sem lét orðin falla. Þegar ummæli lenda í albúminu alræmda er það Hildur sem skilgreinir hatursorðræðuna. Gerandinn (eða þolandinn?) hefur ekkert um það segja hvernig túlka beri orð hans og mönnum sem telja sig hafa lýst réttmætum skoðunum hefur sárnað ákaflega að vera stillt upp við hliðina á netsóðum sem hafa í frammi hótanir og persónulegar svívirðingar. Albúmið er kallað „Stasi-listinn hennar Hildar“ meðal þeirra sem hafa meiri áhyggjur af ritskoðunarórum sjálfskipaðrar netlöggu, en af dónaskap og fylliríisrausi.

Hildur hefur einnig verið ötul við að benda á ummæli sem ekki eru hatursfull heldur bara bjánaleg. Oft hefur hópur fólks gert grín að ummælum sem Hildur hefur bent á  (ég hef sjálf tekið þátt í þessháttar gríni) og vel gæti ég trúað að vesalingunum sem verður á að berrassa kjánaskap sinn, þyki glensið bera keim af hatri.

Vond framkoma við aðra á netinu felst ekki eingöngu í ljótum orðum, heldur einnig í ósanngjörnum tengingum og því að nudda fólki upp úr eigin skít eða bjánaskap. En það eru ekki bjánarnir á Blandinu eða facebook sem skilgreina hatursorðræðuna eða ákveða hvaða tengingar teljast meiðandi, það er Hildur sem ákveður það.

Hildur hefur sjálf látið ósmekkleg ummæli falla á netinu, bæði um nafngreint fólk og karla sem hóp. Líklega er þekktasta dæmið þegar hún kallaði Heimi Má Pétursson „nauðgaravin“. Ég hef líka séð hana kalla nafngreindan mann „ógeð“, tala um Nýhil sem „pungfýluklúbb“, frábiðja sér innlegg karla sem henni líkar ekki við með þeim skýringum að hún hafi beint oðrum sínum til „góðra“ manna (sem gefur til kynna hvað henni finnst um þá sem hún óskar ekki að tjái sig) og fara þess vinsamlegast á leit að einhver taki að sér að berja nafngreinda konu vegna ummæla sem fóru fyrir brjóstið á Hildi. Ekkert af þessu gengur fram af mér. Ég er blóðsek sjálf, hef oft uppnefnt hópa fólks og hyggst gera það áfram. Ekki einu sinni tilmælin um að berja konuna gefa tilefni til bókstafstúlkunar, ekki frekar en að fleyg orð Gillzeneggers, um „granítharðan í hárugan bílskúrinn“, fólu í sér ógnun. Hvorttveggja eru þetta dæmi um ósmekkleg viðbrögð við gremju, viðbrögð sem engin ástæða er til að taka sem hótun. Mig grunar þó  að ef karlmaður hefði spurt hvort einhver væri til í að berja Hildi, hefði hún talað um það sem hvatningu til ofbeldis og dæmi um kvenhatur.

En já, þeir eru til sem álíta Hildi sjálfa sannkallaðan netdólg og frekar óheppilegt að Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar skuli fá þennan umdeildasta netaktívista landsins til þess að tala gegn tjáningarfrelsi.

Framsóknarmenn eru líka hópur

indexMörg þeirra ummæla sem Hildur hefur bent á eru hreinn viðbjóður. Mig hryllir samt við þeirri hugmynd að lögregla hafi afskipti af skítkasti á netinu, nema þegar um er að ræða ofsóknir gegn einstaklingum, hótanir, eða hvatningu til ofbeldis. Og við skulum athuga að skilgreiningin á hvatningu til ofbeldis þarf að vera býsna þröng til þess að ná ekki yfir tilmæli Hildar sjálfrar um ofbeldi gegn tiltekinni konu.

Refsistefna fyrir hatursfull ummæli gegn hópum er tjáningarfrelsinu stórhættuleg. Ef á í þokkabót að skilgreina hatursorðræðu út frá upplifun þolandans er beinlínis verið að bjóða upp á skoðanakúgun. „Hópar“ eru ekki bara mengi varnarlausra fórnarlamba, svosem  feminista, innflytjenda, transfólks og fatlaðra. Framsóknarmenn eru hópur. Lögreglumenn líka. Ríkisstjórnin er fámennur hópur sem iðulega verður fyrir skítabombum.

Við getum rétt ímyndað okkur hverskonar fasima það byði upp á ef fólki yrði refsað fyrir móðganir gegn hópum. Baráttukonan Freyja Haraldsdóttir móðgast þegar hin fágaða Vigdís Finnbogadóttir notar orðið „fötlun“ í neikvæðri merkingu. Ef hatursorðræða er skilgreind út frá upplifun er frú Vigdís þar með komin að hættulegum mörkum. Allur húmor á kostnað hópa gæti fallið undir þessa skilgreiningu á hatursorðræðu. Gæti ég átt fangelsisdóm yfir höfði mér fyrir að gagnrýna stjórnvöld ef forsætisráðherra landsins er hörundssár? Ójá, ef við tökum upp það viðmið að tjáningarfrelsi okkar endi þegar við völdum öðrum sársauka, þá er eðilegt að refsa þeim sem móðga höfðingja.

Til að tryggja tjáningarfrelsi þitt þarftu að umbera tjáningarfrelsi annarra

Það er einstaklega kaldhæðnislegt að tillaga um að takmarka tjáningarfrelsi við upplifun annarra komi frá Hildi Lilliendahl, því aldrei líður svo vika að ég verði ekki vör við að einhver sé henni sár eða reiður. Hildur hefur ítrekað orðið fyrir því að facebook-aðgangnum hennar hefur verið lokað vegna kvartana frá stórmóðguðum notendum sem vilja takmarka tjáningarfrelsi hennar. Ef lögreglan færi að hlaupa eftir ábendingum allra sem telja sig hafa séð dæmi um særandi framkomu á netinu yrði Hildur með þeim fyrstu sem teknir yrðu til rannsóknar. En þegar öll kurl koma til grafar er hugmyndin ekki sú að fólk skilgreini sjálft hvað því finnst særandi heldur að eitthvert kennivald skeri úr um það. Ef til vill sama kennivald og það sem Norræna ráðherranefndin lítur til þegar hún leggur til að andóf gegn feminisma skuli skilgreint sem hatursorðræða og sett undir sama hatt og hægri öfgar. Yrði þetta albúm flokkað sem hatursáróður?

Ég ætla að halda áfram að kalla ríkisstjórnina „silfurskeiðabandalagið“ og lýsa andstyggð minni á yfirvöldum sem sleikja rassgöt mannréttindaníðinga. Þessvegna er mér líka annt um málfrelsi Hildar Lilliendahl og þessvegna vona ég að þeir sem lenda á Stasi-listanum hundsi hann fremur en að stefna Hildi fyrir dóm, jafnvel þótt komi á daginn að Stasi-listinn kunni að varða við lög. Vegna þess að til að tryggja mitt eigið tjáningarfrelsi þarf ég að umbera tjáningarfrelsi annarra.  Einnig tjáningarfrelsi hommahatara, nýnazista og fasystra.

Deildu færslunni

Share to Facebook