Samkvæmt íslenskum lögum á barn rétt á að þekkja báða foreldra sína. Það er að vísu ekki einfalt að framfylgja þeim lögum ef foreldrið vill ekkert með barnið hafa en barnið ætti þó, samkvæmt anda laganna, í það minnsta að fá að vita hverjir foreldrarnir eru. Ættleidd börn eiga lagalegan rétt á að fá upplýsingar um kynforeldra sína þegar þau ná 18 ára aldri en kjörforeldrum ber auk þess að upplýsa þau um að þau séu ættleidd, helst ekki síðar en um 6 ára aldur.
En hvað ef barnið er getið með gjafasæði? Samkvæmt lögum er ekki hægt að dæma mann föður barns ef hann gefur sæði til tæknifrjóvgunar á annarri konu en sinni sambúðarkonu. Hugmyndin er væntanlega sú að hann eigi ekki að þurfa að sinna skyldum gagnvart barninu. Auðvitað væri hægt að tryggja barninu rétt til upplýsinga án þess að leggja sæðisgjafa skyldur á herðar, og ef sæðisgjafi kýs það sjálfur getur barnið fengið upplýsingar um hann við 18 ára aldur, en lögin virðast ekki gera ráð fyrir rétti fólks til að vita um uppruna sinn ef sæðisgjafi kýs nafnleynd.
Einnig skýtur skökku við að það er beinlínis löglegt að rangfeðra barn og við það missir líffaðir barnsins, og aðrir sem telja sig koma til greina sem föður þess, rétt til þess að fara í barnsfaðernismál. Ef kona kennir barnið öðrum manni en kynföður þess, og sá maður gengst við því, er líffaðir barnsins einfaldlega réttlaus. Barnið getur sjálft höfðað véfengingarmál en það gerist ekki fyrr en eftir að það hefur alist upp án þess að kynnast lífföður sínum.
Fólk sem telur sig rangfeðrað getur höfðað véfengingarmál en það tryggir manni þó aðeins rétt til þess að vita hver er EKKI faðirinn. Engin leið virðist hins vegar fær til þess að framfylgja rétti barns til að þekkja föður sinn ef móðir gefur ekki upp faðerni. Móður ber að vísu lögum samkvæmt að feðra barn sitt en ekki er að finna nein viðurlög við broti gegn þeim lögum. Þegar barnalögin eru skoðuð í heild virðist því greinin um rétt barna til að þekkja foreldra sína nánast marklaus.
Viðmælandi minn er kona á fimmtugsaldri, við skulum kalla hana Sigrúnu. Hún hefur aldrei kynnst föður sínum og móðir hennar hefur alltaf neitað að feðra hana og bræður hennar. Sigrún vill ekki koma fram undir nafni svo nöfnum hefur verið breytt. Að öðru leyti er sagan sönn.
Allir héldu að Kristján væri pabbinn
Eva: Þegar þú fæddist tíðkaðist ekki að kenna börn við mæður. Hvernig varst þú skráð í þjóðskrá?
Sigrún: Ég var skráð Kristjánsdóttir en móðir mín neitaði að gefa upp föðurnafn mannsins. Hún fékkst heldur aldrei til þess að gefa mér staðfestingu á því hver hann var. Ég taldi mig þó vita það því í bænum þar sem ég ólst upp bjó maður sem hét Kristján. Það var altalað að hann og móðir mín hefðu átt einhver kynni áður en ég fæddist og allir töldu víst að hann væri faðir minn.
Eva: Umgekkstu hann þá sem ókunnugan mann?
Sigrún: Ég umgekkst hann ekki en ég umgekkst fólkið hans. Það var samgangur á milli mömmu og fjölskyldu Kristjáns og þau töluðu alltaf við mig eins og ég væri ein af frænkunum. Ég man að þau töluðu um að ég væri lík honum í útliti. Ég fékk meira að segja gjafir frá fólkinu hans og var boðin í fjölskylduboð og ferðalög. En karlinn talaði aldrei við mig, ég sá hann bara álengdar.
Eva: Hvaða áhrif hafði það á þig að sjá hann en fá enga athygli frá honum? Fékkstu höfnunarkennd?
Sigrún: Nei, ekki beinlínis. Hann átti fjölskyldu og ég ólst upp við það að hann tilheyrði ekki mínu lífi. Ég var ekki leið yfir því að hann sinnti mér ekki en ég var forvitin um hann og fannst ægilega spennandi að rekast á hann. Ég var það forvitin að ég hringdi nokkrum sinnum í hann þegar ég var 8 eða 9 ára. Vinkona mín var með mér og stappaði í mig stálinu og okkur leið eins og við værum að gera eitthvert ógurlegt prakkarastrik.
Eva: Hvernig tók hann þér?
Sigrún: Ég spurði hann fyrst hvort hann þekkti mömmu mína og hann sagðist vita hver hún væri. Þá spurði ég hvort hann væri kannski pabbi minn en hann þvertók fyrir það. Það var svona pínulítið sárt að hann vildi ekki gangast við mér en að öðru leyti fann ég ekki til slæmra tilfinninga til hans. Mig langaði samt alltaf að kynnast honum og prófaði að hringja aftur en fékk sömu svör. Ég hringdi líka í hann í eitt skipti þegar ég var á unglingsaldri og svo fékk ég einu sinni þá vondu hugmynd þegar ég var á djamminu harðfullorðin að það væri einmitt rétti tíminn til að reyna að ná sambandi við hann. Ég sá eftir því daginn eftir, en ég hefði nú líklega ekki hringt í hann ef þetta hefði ekki legið þungt á mér.
Eva: Þegar þú varst barn var ennþá dálítið tabú að alast upp hjá einstæðri móður. Létu skólasystkini þín í ljós undrun yfir því að þú ættir ekki föður?
Sigrún: Já, já. Ég var eina barnið í bekknum sem átti ekki pabba og það var óþægilegt. Foreldrar bestu vinkonu minnar voru fráskildir en hún umgekkst þó allavega báða foreldra sína.
Við erum þrjú systkinin og öll ófeðruð og það gerði stöðuna ekki skárri. Mér fannst vandræðalegt að geta ekki gefið neinar skýringar svo ég laug upp alls konar sögum. Sagðist eiga pabba í útlöndum. Ég gerði hann bæði að kvikmyndastjörnu og hermanni. Bróðir minn, sem er mörgum árum yngri, sagði svipaðar sögur.
Eva: En bræður þínir, höfðu þeir líka einhvern pata af því hverjir feður þeirra væru?
Sigrún: Það ganga alltaf sögur í litlum samfélögum og það komu náttúrlega upp getgátur um það hvaða menn kæmu til greina sem feður bræðra minna en þeir fengu aldrei svona sterka staðfestingu eins og ég fékk frá fólkinu hans Kristjáns.
Fékk reikning vegna faðernismálsins
Eva: Reyndirðu að fá mömmu þína til að staðfesta faðerni þitt eða segja þér hverjir feður bræðra þinna væru?
Sigrún: Já, já, ég reyndi það en þetta var bara ekkert til umræðu. Einu sinni man ég að ég spurði hvort Kristján væri ekki pabbi minn og þá sagði hún „ætli það ekki“. Þegar ég var 12 ára fór hún loksins fram á DNA-rannsókn, líklega eftir þrýsting frá fjölskyldunni. En Kristján neitaði að mæta og hún gerði ekkert meira í því.
Eva: Hefurðu einhverja hugmynd um það hvers vegna hún lýsti hann ekki föður og hvers vegna hún gekk ekki harðar á eftir því að hann yrði prófaður?
Sigrún: Mér dettur helst í hug að hún hafi bara alls ekki verið viss og litið á það sem óþarfa óþægindi. Kristján átti konu og kannski hefur það líka spilað inn í. En ég var aldrei sátt við að vita þetta ekki fyrir víst og á þessu ári fór ég sjálf fram á DNA-rannsókn. Niðurstaðan var sú að hann væri ekki faðir minn. Hann þrætti náttúrlega alltaf fyrir mig en hann hlýtur samt að hafa talið líkur á því að hann ætti mig fyrst hann mætti ekki í þetta DNA-próf fyrir rúmum 30 árum. Ég meina, hverju hafði hann að tapa ef hann var svona viss?
Eva: Hvernig gengur þetta fyrir sig? Þurftirðu að stefna honum og var einhver kostnaður við það?
Sigrún: Já, ég þurfti að stefna honum. Ég fékk gjafsókn og taldi því að ég þyrfti ekki að borga fyrir þetta en vegna þess að prófið var neikvætt þarf ég að borga málskostnaðinn hans. Ég þarf ekki að borga faðernisprófið, DNA-próf eru mjög dýr og ef prófið hefði verið jákvætt hefði hann verið rukkaður fyrir það, en þar sem hann er ekki faðir minn fellur sá kostnaður á ríkið. Ég þarf heldur ekki að borga mínum lögfræðingi því ég fékk gjafsókn. En ég þarf að borga lögfræðikostnaðinn hans og það var staðfest í Hæstarétti. Þetta eru 200 þúsund krónur sem ég skulda fyrir það að vilja fá að vita hver faðir minn er. Mér finnst það ekki sanngjarnt.
Eva: Lögum samkvæmt eiga börn rétt á að þekkja foreldra sína og ég hefði haldið að það væri ábyrgð stjórnvalda að tryggja þann rétt? Hefurðu spurt lögfræðing álits á því hvernig beri að túlka lögin?
Sigrún: Já. Hún er mjög ósátt við að ég þurfi að borga þetta og ráðlagði mér að vísa þessu til mannréttindadómstólsins í Haag. Þetta er farið þangað en það getur tekið ár og daga að fá niðurstöðu. Ég ákvað samt að gera það því mér finnst ekkert réttlæti í því að fá gjafsókn og sitja samt uppi með kostnað. Ég hafði enga aðra möguleika á því að komast að mínu faðerni en að stefna honum og ég hafði góða ástæðu til þess að telja hann föðurinn þar sem allir sem til þekktu töldu hann eiga mig.
Mamma segist ekki muna neitt
Eva: Hvernig leið þér eftir að hafa trúað því allt þitt líf að hann væri faðir þinn og fá svo neikvæða niðurstöðu?
Sigrún: Ég er eiginlega ennþá að reyna að átta mig á því. Ég var sannfærð um að hann ætti mig og taldi mig m.a.s. sjá ættarsvip með börnunum mínum og börnum sem ég taldi vera mín frændsystkin. Mér finnst mjög óþægilegt að vita ekkert hver minn uppruni er og nú velti ég því fyrir mér hver annar komi til greina og hvort ég þekki kannski einhverja nána ættingja án þess að vita af því. Það er í raun nýtt fyrir mig en bræður mínir hafa lifað með þessum spurningum allt sitt líf. Undanfarið hef ég staðið sjálfa mig að því að leita að tengslum nánast hvar sem er. Um daginn fékk ég t.d. vinarboð á facebook frá manni sem ég kannaðist ekkert við og þegar ég sá að hann var á aldur við móður mína tók hjartað í mér kipp og það fyrsta sem mér datt í hug var að hann væri pabbi minn, þótt ég hefði auðvitað enga ástæðu til að halda það. Þessi leit að upprunanum er einhvern veginn alltaf í bakgrunni hjá mér.
Eva: Gaf mamma þín eitthvað út á þessa niðurstöðu? Hefur hún t.d. nefnt aðra sem gætu komið til greina?
Sigrún: Nei, hún hefur ekki gert það. Þegar þessi niðurstaða lá fyrir tókum við systkinin okkur saman og kröfðum móður okkar svara en hún segist ekki muna hverjum hún hafi sofið hjá. Mér finnst það ekki trúverðugt. Það er langt á milli okkar svo við erum ekki að tala um djammtímabil á sokkabandsárunum þar sem hún var meira og minna blekuð. Það er heldur ekki eins og hún hafi verið að koma heim með nýjan mann um hverja helgi. Ég man til þess í eitt einasta skipti öll mín uppvaxtarár að hafa orðið vör við að það væri maður hjá henni.
Ég held að það sé frekar það að hún vilji ekki nefna þá sem koma til greina. Ég hef heyrt misskemmtilegar getgátur um faðerni mitt, m.a. að hún kunni að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Svoleiðis mál voru litin öðrum augum á þeim tíma en í dag og kannski hefur skömm og aðrar vondar tilfinningar ráðið því að hún vildi ekkert segja. En nú hafa tímarnir breyst og mér finnst það dálítið mikil ábyrgð að eiga þrjú börn og gefa ekki upp faðerni neins þeirra. Réttur okkar til að vita sannleikann ætti að vega þyngra en réttur hennar til að leyna einhverju sem henni finnst óþægilegt. Við erum ekki að spyrja að þessu til þess að dæma hana, við viljum bara fá að vita um ætterni okkar.
Það skiptir máli að fá að vita um uppruna sinn
Eva: En nú er rétt skráning engin trygging fyrir því að faðir umgangist barn sitt. Sérðu fleiri ástæður til að tryggja börnum réttar upplýsingar um faðerni?
Sigrún: Já, það eru margar ástæður fyrir því. Við búum í litlu samfélagi og ég vil t.d. að börnin mín hafi möguleika á því að vita hvort þau séu að fjölga sér með nánum ættingjum.
Þetta skiptir bræður mína auðvitað ekki minna máli. Það hafa gengið sögur, og einn maður hefur sérstaklega verið nefndur sem hugsanlegur faðir annars þeirra. Sá maður lést úr sjaldgæfum sjúkdómi og auðvitað þætti bróður mínum betra að fá úr því skorið hvort þetta sé eitthvað sem hann ætti að láta fylgjast með hjá sér. Honum finnst hann samt ekki geta gert neitt í því þar sem þetta eru bara sögusagnir. Þannig að þetta skiptir líka máli upp á heilsufarssögu.
Og svo er það tilfinningalegi og félagslegi þátturinn. Það er óþægilegt að vera alltaf í óvissu um það hvort þeir sem maður á samskipti við séu tengdir manni blóðböndum og í samfélagi þar sem ættfræðiáhugi er mikill er líka erfitt fyrir krakka að geta ekki bent á neina ættingja. Ættleidd börn og rangfeðruð geta að minnsta kosti nefnt nöfn en það er ekki gaman fyrir barn að þurfa að segja öðrum að það viti ekki hver pabbi þess sé.
Eva: Sérðu fyrir þér einhverjar lausnir á þessum vanda? Eitthvað sem kerfið gæti gert?
Sigrún: Það er hægt að skikka feður í faðernispróf og það er gert ef manninum er stefnt en það er voðalega lítið hægt að gera ef mamman bara man ekki hverjum hún hefur sofið hjá. Það væri þó algert lágmark að ríkið tryggði manni rétt til að leita svara án þess að það hafi kostnað í för með sér.
Annars er þetta auðvitað ábyrgð mæðra og þeirra sem koma til greina sem feður. Þegar Kristján neitaði að mæta í DNA-próf hér um árið þá hefur hann líklega ekki hugsað mikið út í rétt 12 ára barns til þess að vita sannleikann, hvað þá réttinn til að eiga föður. Hann hefði getað sparað okkur báðum 30 ára óvissu, óvissu sem hann var kannski reiðubúinn til að sitja uppi með en ég ekki. Og hvað móður mína varðar þá veltir maður því fyrir sér hvort henni finnist kannski að okkur komi þetta bara ekki við.
Ríkið getur ekki tryggt réttindi barna nema að takmörkuðu leyti. Það sem skiptir meginmáli er að fólk sýni smá virðingu fyrir rétti barna sinna og átti sig á því að flestir hafa þörf fyrir að vita um uppruna sinn. Það er kannski hægt að bæta löggjöf um réttarstöðu ættleiddra barna og þeirra sem verða til með tæknifrjóvgun en lögin ná ekki yfir það hvernig fólk hegðar kynlífi sínu. Þess vegna er mikilvægt að fólk hugsi aðeins út í það að þegar maður sefur hjá einhverjum með þeim afleiðingum að barn verður til, þá er það ekki lengur einkamál og það má ekki láta eiginhagsmuni eða skömmustutilfinningu koma í veg fyrir að barnið fái réttar upplýsingar.