Er kynjakerfið til?

humor

Fyrri pistlar í þessari röð, sá nýjasti efst:

Skyggnulýsing 3a
Skyggnulýsing 2
Skyggnulýsing 1
Fánaberar fávísinnar
Vill einhver leka í mig leyniskjölum úr kynjafræðinni?

Tilefni þessarar pistlaraðar eru skyggnur með fyrirlestri sem tilheyrir grunnnámskeiði í kynjafræði. Þar er ég réttilega kynnt sem „kyndilberi andfeminisma“ en andfeminismi er, ólíkt kvenhyggjunni, jafnréttisstefna. Glærurnar vekja þó grunsemdir um að sú kynning sem kynjafræðinemar fá á sjónarmiðum mínum sé alltof yfirborðsleg til að gefa rétta mynd og jafnvel lituð af pólitískum rétttrúnaði. Ég ákvað því að skoða glærurnar og skýra betur eða eftir atvikum leiðrétta það sem þar kemur fram.

Ég var byrjuð á þriðju glærunni en þar eru settir upp tveir dálkar  „Eva Hauks“ annars vegar og „Við“ hinsvegar, í þeim tilgangi að sýna helstu áherslur þar sem jafnréttissinna og kvenhyggjusinna greinir á. Í næstu línu segir að ég telji kynjakerfið ekki vera til en þessi „við“ segi að kynjakerfið sé til.

 

Er kynjakerfið til?

Hugtakið kynjakerfi er samofið hugmyndinni um feðraveldi, svo kyrfilega að þau verða vart aðskilin. Áhugasamir geta séð skoðun mína á feðraveldishugmyndinni t.d. hér.

Með „kynjakerfi“ er átt við það hvernig fólki er kerfisbundið stýrt inn á ákveðin svið á forsendum kynferðis og það hvernig kyn hefur áhrif á valdatengsl og samskipti. Það er mikil einföldun að halda því fram að ég álíti kynjakerfið ekki vera til. Sýn mín á kynjakerfið og orsakir þess er hinsvegar gerólík hinni dólgafeminísku sýn.

Formlegt kynjakerfi

Stór hluti jarðarbúa býr við formlegt kynjakerfi þar sem möguleikar fólks ráðast af kyni og það er jafnvel bundið í lög. Í Sádi Arabíu ríkir formlegt kynjakerfi. Þar mega konur t.d. ekki aka bíl. Kynjakerfið er þó flóknara en svo að hægt sé að uppræta það með einfaldri lagabreytingu því um 80% kvenna í Sádi Arabíu eru því mótfallnar að konur fái ökuréttindi. Kynjakerfið birtist því líka í almennri sannfæringu um það hvað sé við hæfi.

Kerfislæg kynjamismunun viðgekkst á Íslandi fyrir nokkrum áratugum. Amma mín vann í fiski. Hún var öllum fljótari að flaka og þessvegna var henni boðið karlakaup. Hana munaði um krónurnar en þegar hún sagði mér frá þessu mörgum áratugum síðar, mundi hún ekki hversu mikið launin hennar hækkuðu. Hún mundi hinsvegar hvað henni hafði þótt þetta mikill heiður.

Kynjakerfið á Íslandi birtist einnig í því hvaða möguleikar stóðu fólki opnir. Í bók sinni „Hvunndagshetjan“ segir Auður Haralds frá því þegar hún, ung að árum, hafði áhuga á matseld og sótti um inngöngu í Kokkaskólann. Skólinn tók ekki stúlkur.

Óformlegt kynjakerfi

Íslendingar búa ekki lengur við kynjakerfi sem stýrir fólki í kynhlutverk með því að neita því beinlínis um aðgang að ákveðunum sviðum. Lagakerfið mismunar reyndar körlum ennþá hvað varðar rétt þeirra sem foreldra en konur þurfa ekki að kvarta undan lögbundinni mismunun lengur. Ef launamisrétti á grundvelli kynferðis viðgengst, eða ef karl er tekinn fram yfir konu á grundvelli kynferðis, þá er að skýrt lögbrot.

Við búum þó ennþá við kynjaímyndir sem hafa bæði áhrif á okkar eigið val og það hvernig við komum fram við hvert annað. Munurinn á mér og kvenhyggjusinnum er sá að ég sé það ekki eingöngu sem vandamál. Kynjaímyndir geta haft neikvæð áhrif fyrir einstaklinga en ég held að staðalmyndir muni alltaf þrífast að einhverju leyti og ég tel augljóst að það sé í raun og sannleika ákveðinn munur á körlum og konum sem hópum, sem skýri hluta af þessum kynjaímyndum.

 

Þarf að uppræta kynjakerfið?

Í okkar samfélagi hefur hið formlega kynjakerfi verið afnumið. Rétt eins í Sádi Arabíu einkennast þó almennar hugmyndir um kynhlutverk og valdatengsl af nokkurri íhaldssemi. Það má vel halda því fram að óformlegt kynjakerfi sé enn við lýði. Hvort slíkt „kerfi“ er umflýjanlegt og hvort þjónar tilgangi að reyna að uppræta það að fullu,  má svo endalaust deila um.
images-3Ég held að það sé raunhæfara að kalla eftir virðingu og sanngirni gagnvart þeim sem víkja frá norminu en að uppræta staðalmyndir.

Ef við ætlum að uppræta fordóma gagnvart innflytjendum er ekki skynsamlegt að afneita því að munur sé á menningu araba og Evrópubúa. Við hindrum formlega aðgreiningu með banni við mismunun á grundvelli kynþáttar og stuðlum að menningarblöndun með niðurgreiðslu á íslenskunámskeiðum. En við sökum ekki kaupmenn um rasisma þótt matvöruverslanir setji upp sérstakar hillur með vörum sem eru vinsælar í Mið-Austurlöndum, heldur prófum við þessar vörur sjálf og sum okkar taka ástfóstri við sumar þeirra.

Í stað þess að reyna að útrýma þeirri hugmynd að bleikt sé stelpulitur og blátt strákalitur, væri reynandi að halda þeirri hugmynd að börnum að það sé barasta allt í lagi þótt sumir strákar séu stelpulegir og sumar stelpur strákalegar. Ég held að flest börn séu of skynsöm til að trúa okkur ef við segjum þeim að stríðsleikföng séu stelpudót og bleikar brúður strákadót. Þau gætu hinsvegar trúað því að fólk sem fellur ekki í ákveðið form eigi rétt á því að lifa sínu eigin lífi á sínum eigin forsendum og njóta sömu virðingar og aðrir.

Deildu færslunni

Share to Facebook