Kvenhyggjusinnar telja sig vera að uppræta kynjakerfið. Í raun og veru eru þeir aðeins að útfæra það á aðeins annan hátt, sem heldur konum í hlutverki súkkulaðikleinunnar. Þessi færsla tilheyrir pistlaröð sem heitir „Skyggnulýsingar“. Tenglar á fyrri færslur eru fyrir neðan textann.
Til upprifjunar: Á þriðju glærunni eru settir upp tveir dálkar sem eiga að skýra ólík sjónarmið; „Eva Hauks“ og „Við“. Ég hef þegar leiðrétt þá vitleysu að ég sé frjálshyggjusinni og skýrt nánar hugmyndir mínar um kynjakerfið. Í næstu línu á glærunni er því haldið fram að ég álíti að valdatengsl kynjanna sem ólíkra hópa séu ekki til staðar. Þetta er rangtúlkun og í þessum pistli mun ég fjalla um það hvernig feministar ýta undir það valdaójafnvægi sem samkvæmt þeirra eigin kenningum er grundvöllur „kynjakerfisins“.
Valdatengsl eru ekki það sama og valdaójafnvægi
Valdatengsl eru til staðar í öllum samskiptum. Þeir sem halda að ég viðurkenni ekki valdatengsl kynjanna þekkja skrif mín ekki neitt. Í mörg ár hélt ég úti bloggi sem ég kallaði Sápuóperu, þar sem valdatengsl í samskipum kynjanna voru mitt helsta viðfangsefni. (Sumar af færslunum eru komnar inn á þessa slóð og fleiri væntanlegar.) Valdatengsl merkja hinsvegar ekki það sama og ójafnvægi. Sápuóperan mín lýsti ekki kúgun karla á konum heldur því ógnarjafnvægi sem myndast í samböndum sem eru byggð á vantrausti, blekkingum og sársauka.
Ég hef oft orðið fyrir fordómum vegna kynferðis míns. Ég hef stundum orðið nett pirruð og stöku sinnum bálreið vegna slíkra fordóma en vitiði hvað – ég hef líka notið góðs af því að vera af „veikara kyninu“. Það hefur m.a.s. komið fyrir að ég hef beinlínis spilað á vilja karlmanna til að gera mér til hæfis sem konu. Á morgun ætla ég að segja ykkur frá slíku dæmi og ég ætla líka að segja ykkur reynslusögu af því hvernig fólk getur fundið karlrembu sinni farveg í feminisma.
Kynjakerfi kvenhyggjunnar
Konur hafa í gegnum tíðina verið álitnar veikara kynið og það á sér rökréttar skýringar. Í óiðnvæddu samfélagi þar sem flestir þurfa að reiða sig á líkamsstyrk til að komast af og ekkert velferðarkerfi annast veika og sjúka, er í sjálfu sér eðlilegt að konum sé hlíft við þeim verkefnum sem útheimta líkamlegt erfiði og stofna lífi þeirra í hættu. Ábyrgðin á því að framfleyta fjölskyldunni og verja föðurlandið með vopnaburði gaf körlum ákveðin forréttindi. Þeir höfðu ákvörðunarvald sem konur höfðu ekki. En konur nutu líka ákveðinna forréttinda. Líf kvenna var verðmætara en líf karla því þær komu börnum á legg, þær fengu því forgang ef hópur fólks var í lífshættu. Valdleysi þeirra gaf þeim líka ákveðin forréttindi; þær fengu t.d. mildilegri meðhöndlun en karlar í dómskerfinu og áttu rétt á því að maki þeirra bæri meginábyrgð á því að afla heimilnu tekna.
Í dag hefur þetta breyst. Konur hafa nú aðgang að þeirri menntun og störfum sem þær kæra sig um og þær eru ekki lengur álitnar veikara kynið. Eða hvað?
Jú, konum standa allar dyr opnar en við erum samt ennþá álitnar veikara kynið. Ekki vegna þess að hið illa feðraveldi haldi okkur niðri, heldur vegna þess að kvenhyggjufólk vinnur að því hörðum höndum að viðhalda þeirri hugmynd. Ekki bara með því að hlífa konum við erfiðleikum, heldur með því að útmála okkur sem fórnarlömb og kerfjast sérstakrar meðhöndlunar af hálfu hins opinbera. Það eru feministar sem róa að því öllum árum að koma á formlegu kynjakerfi sem er ekkert skárra en hið gamla og úrelta. Í stað þess að konur standi jafnfætis körlum skulu þær njóta forgangs, hvatningar, styrkja, stuðnings og sérstakar nærgætni.
Kynjakerfi kvenhyggjunnar miðar í orði kveðnu að valdeflingu kvenna. Það snýst um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Sérstaka styrki og lánveitingar til atvinnumála kvenna. Sérstaka námsstyrki sem ætlað er að hvetja konur til náms í greinum þar sem konur eru í minnihluta. Hér er t.d. gert ráð fyrir slíkum styrkjum til kvenna en ekki til karla sem vilja fara í nám í kvennagreinum. Sérstök bókmenntaverðlaun fyrir konur, jú neim itt. Og á sama tíma tekur dómskerfið mun mildilegar á konum en körlum. Skilaboðin eru þau að konur séu að vísu veikara kynið en að í stað þess að fá peninga, vernd og stuðning hjá maka sínum, eigi konan að fá peninga, vernd og stuðning hjá kerfinu.
Hin eilífa súkkulaðikleina
Ég var mjög smávaxin sem barn. Ég gat ekki hlaupið jafn hratt eða lyft sömu þyngd og hinir krakkarnir og átti í vandræðum með að grípa bolta (og það hefur ekki breyst.) Hópurinn tók á þessu vandamáli með því að veita mér forskot í leikjum. Ég fékk að vera „súkkulaðikleina“. Aðrir krakkar fengu að vera súkkulaðikleinur á meðan þeir voru að læra leikinn. Ég var hinsvegar á sérdíl sem einhvernveginn framlengdist í hverri viku án þess að þyrfti að ræða það sérstaklega.
Að lokum braut ég þetta mynstur upp sjálf og neitaði að vera súkkulaðikleina nema ég væri að læra nýjan leik. Það kostaði það að ég tapaði alltaf í þeim leikjum sem reyndu á krafta og úthald og þegar ég var orðin leið á því að tapa, hætti ég að taka þátt í leikjum þar sem ég stóð hinum langt að baki.
Sjálfsagt finnst einhverjum það ægilega sorglegt að ég hafi aldrei orðið íþróttaálfur en mér hefur aldrei þótt það slæmt. Ég blómstraði á öðrum sviðum, sviðum sem voru mér eðlileg og þar sem ég þurfti ekki að vera súkkulaðikleina. Ég naut mín í bóklegum greinum í skóla, ég skrifaði sögur og ljóð og var oft beðin að hafa orð fyrir hópnum. Ég naut virðingar fyrir það sem ég gat gert vel. Ég hafði hinsvegar aldrei fundið til mín með því að vinna spretthlaup með forskoti og þegar það gerðist vissi sá sem „tapaði“ fyrir mér ósköp vel að það var ekkert að marka þessháttar sigur.
Það eru þessháttar sigrar sem kynjakvótar og önnur sérmeðferð á að afla konum. Sigrar sem jafnvel smábörn sjá í gegnum. Kynjakerfi kvenhyggjunnar gerir konur að súkkulaðikleinum. Og það er ekkert valdeflandi við það