Er Egill Einarsson alþjóðlegt glæpagengi?

stigamot
Feministar hafa haldið því fram að fimmtán mansalsmál hafi komið upp á Íslandi, en um leið er þó dregið í land; „einhver“ þessara mála voru sko ekki mansalsmál en það er allt í lagi, stór fyrirsögn í DV dugar til að villa um fyrir almenningi.  Lögreglan hefur aðeins heyrt um tvö mansalsmál, allt frá því að kynferðisbrotadeild var stofnuð og í öðru þeirra féll sýknudómur.  Stígamót tala um átján hópnauðganir á síðasta ári. Aðeins tvö þeirra voru kærð og löggan hefur ekkert heyrt um hin sextán málin.

Starfmaður Stígamóta hefur gefið þá skýringu á þessu misræmi að stundum komi margra ára gömul mál inn á borð Stígamóta. Í ársskýrslu Stígamóta kemur einnig fram að sum kynferðisbrotamál séu þegar fyrnd þegar tilkynning berst til Stígamóta. Þetta ætti vitanlega að duga fjölmiðlamönnum til að átta sig á því að tölur frá Stígamótum eiga aðeins við um tilkynningar til samtakanna en segja nákvæmlega ekkert um það hvort brotum fjölgar eða fækkar milli ára. Það væri því við hæfi að skýrt kæmi fram í opinberri umfjöllun að tölur frá Stígamótum segi ekkert um raunverulegt ástand og vitanlega ættu samtökin sjálf að leggja metnað sinn í að leiðrétta þann misskilning að ástandið fari stöðugt versnandi. Því er þó ekki að heilsa. Þvert á móti fullyrðir talsmaður Stígamóta að nauðgunum fjölgi, þar með hópnauðgunum og ekki stendur á skýringunni; það eru skipulögð glæpagengi sem bera ábyrgð á þessu. Hér talar hún svo um fjölgun hópnauðgana sem „óhuggulega staðreynd„. Í þessari frétt er heldur ekki gerð nein tilraun til að útskýra að mörg þessara mála séu eldgömul. Ár eftir ár hefur þessi áróður dunið á okkur og skilaboðin eru alltaf þau að ástandið fari versnandi.

Á síðasta ári voru tvær nauðganir kærðar til lögreglu, þar sem um fleiri en einn geranda var að ræða. Í fyrra tilvikinu var um að ræða tvo útlendinga sem báðir voru fundnir sekir um nauðgun. Hin kæran er mál Egils Einarssonar og unnustu hans, enn hefur ekki verið gefin út ákæra í því máli þótt tæpir fimm mánuðir séu liðnir frá því að kæra var lögð fram.  Erfitt er að sjá hvernig þessi mál koma heim og saman við skilgreininguna á skipulagðri glæpastarfsemi. Ætli það að vera af erlendu bergi nægi til þess að menn séu skilgreindir sem alþjóðlegt glæpagengi? Eða eru það Egill Einarsson og unnusta hans sem teljast alþjóðlegt glæpagengi?

Og nú er ég spurð að því hvað sé svona agalegt við smá ýkjur. Stígamótakonur eru að vinna hugsjónastarf svo af hverju mega þær ekki bara halda því fram að glæpagengi vaði uppi, hneppi konur í kynlífsánauð og nauðgi þeim? Ég meina, málefnið er gott, þær fá kannski pening út á þetta og geta þá gert góða hluti. Svo er bara svo ægilega gott að við séum „meðvituð“ um að stúlkur geta orðið fyrir hópnauðgunum því þá kannski venjum við syni okkar af því að nauðga, allavega í stórum hópum.

Málið er að orð hafa afleiðingar.  Tilhneigingin til að mála skrattann á vegginn þjónar öðrum þræði því markmiði að efla stemninguna fyrir því að slakað verði á sönnunarkröfum í kynferðisbrotamálum. Það er út af fyrir sig hryllingur en þessi umræða hefur jafnvel víðtækari afleiðingar. Helstu rök innanríkisráðherra fyrir svokölluðum forvirkum rannsóknarheimildum eru uppgangur alþjóðlegra glæpagengja sem meðal annarra glæpa leggi stund á mansal. Margt bendir þó til að tölur um mansalsmál í nágrannalöndum okkar séu stórlega ýktar. Það skýrist að hluta af því að kona sem sjálfviljug hefur farið milli landa til að vinna við kynlífsþjónustu í Svíþjóð á allavega einhvern möguleika á að fá hæli ef hún segist vera fórnarlamb mansals og Danir hafa tekið sömu stefnu. Hórur sem kunna ekki að skammast sín og viðurkenna að þær séu sjálfviljugar eru hinsvegar umyrðalaust sendar heim í eymdina. Þrátt fyrir þetta fellst þó mjög lágt hlutfall farandvændiskvenna á að láta skilgreina sig sem fórnarlömb mansals.

Ein afleiðingin af því að ýkja tölur um mansal, samtímis því sem barist er gegn flutningi vinnuafls milli landa og reyndar allri frjálsri kynlífsþjónustu, er sú að tekið er fram fyrir hendurnar á konum sem vinna í þessum geira og þær í raun þvingaðar í hlutverk fórnarlambins. Önnur afleiðing er sú að saklausir menn eru hnepptir í gæsluvarðhald og í sumum tilvikum dregnir fyrir dóm. Með tilliti til þeirrar þróunar sem hefur orðið á sönnunarkröfum í kynferðisbrotamálum á síðustu þrjátíu árum, er ekki óvarlegt að ætla að einhverjir hafi jafnvel verið sakfelldir fyrir mansal á Norðurlöndunum, án þess að neinar sannanir lægju fyrir.

Á Íslandi hefur frá upphafi fallið EINN sektardómur í mansalsmáli og þar var vissulega hópur manna að verki. Fyrir utan það mál eru einu heimildirnar um mansal og hópnauðganir á vegum glæpagengja á Íslandi vafasöm tölfræði feministahreyfinga, einkum Stígamóta og villandi upplýsingar talskvenna hreyfingarinnar. Að byggja njósnaheimildir til handa lögreglu á svo veikum grunni er fúsk af versta tagi. Það er aukinheldur undarleg ályktun hjá innanríkisráðherra að slíkar heimildir verði ekki nýttar til að njósna um grasrótarhreyfingar, ekki síst í ljósi þess að lögreglan hefur enn ekki þurft að svara fyrir sinn þátt í því að breskur njósnari var fyrir nokkrum árum sendur niður í svefnpoka ungra stúlkna sem unnu með umhverfishreyfingunni Saving Iceland. Stúlkna sem hefðu ekki snert Mark Kennedy með sótthreinsuðum töngum ef þær hefðu vitað sannleikann um hann. Full ástæða er til að spyrja að því hvort það flokkist ekki sem alþjóðleg glæpastarfsemi þegar njósnarar á vegum breskra yfirvalda blekkja fólk til kynmaka. Kannski ætti innanríkisráðherra að krefjast skýringa á því máli áður en fullyrðingar Stígamótakvenna um hópnauðgandi glæpagengi verða notaðar sem réttlæting fyrir skipulögðum ofsóknum á hendur pólitískum grasrótarhreyfingum.

Deildu færslunni

Share to Facebook