Barnasala og mæðrakaup

trolleys-m

Þú getur valið það barn sem hentar þinni fjölskyldu. Að vísu er það ekki á færi skítblankra vesalinga að ættleiða barn en svo fremi sem þú átt helvítis helling af peningum þá er í boði að „shop around for a child“. Vald fólks til að velja sjálft er bara falið þar sem það er ólöglegt.

Og viljirðu ekki ala upp barn en engu að síður hjálpa munaðarleysingjum, geturðu styrkt fátækt barn í þriðja heiminum. Sum fyrirtækin bjóða fólki m.a.s. upp á að velja úr myndum af sætum krökkum. Það hefur verið gagnrýnt og margar stofnanir eru fallnar frá þessu myndavali. Engu að síður getur styrkjandinn valið land, aldur og kyn barnsins.

Eitt af því sem ég hef hvað eftir annað séð andstæðinga staðgöngumæðrunar halda fram sem rökum í málinu, er að það sé rangt að heimila staðgöngumæðrun á meðan fullt af börnum í veröldinni séu heimilislaus.

Ég get svosem verið sammála því að ættleiðing er göfugri hugmynd en sú að fá staðgöngumóður. Hinsvegar er sú ákvörðun að eignast barn í eðli sínu eigingjörn og ég bara spyr; hvaða umboð höfum við sem getum eignast okkar eigin börn til þess að setja okkur á háan hest og krefjast sérstaks göfuglyndis af þeim sem geta það ekki?

Það sem mér finnst svo aftur enn undarlegra er að sama fólk og sér ekkert athugavert við ættleiðingar eða styrktarforeldra, lítur á staðgöngumæðrun sem verslun með konur.

Ég tek fram að mér þykja ættleiðingar hið besta mál sem og það að styrkja barn í þriðja heiminum. Mér finnst verulega gagnrýnivert að fólk geti handvalið fósturbörn en ef ég á að vera alveg hreinskilin, þá er ég ekki viss um að ég gæti horft í augun á fátæku barni og sagt; „að vísu gætirðu lifað mannsæmandi lífi ef við sýndum einhverjum vel stæðum Vesturlandabúum þetta krúttlega andlit þitt en svoleiðis bara gerir maður ekki.“

Verslun með manneskjur er ekkert eins einfalt dæmi og maður gæti haldið. Ef út í það er farið erum við alltaf að selja okkur. Ekki bara hæfileika okkar til að leysa verkefni, heldur líka bros og persónutöfra. Samt erum við snögg í vandlætingargírinn þegar fátæklingar gera það sama, allavega þau okkar sem ekki hafa sett sig í þeirra spor.

Að selja afnot af móðurlífi sínu er þó talið öllu verra en að hjálpa fátæku barni að selja brosið sitt. Að ganga með barn annarrar konu er álitið svo agalegt að sumir vilja jafnvel banna íslenskum konum að gera það frítt. Með einbeittum vilja til að líta fram hjá öllum rannsóknum síðustu áratuga á staðgöngumæðrun á Vesturlöndum, tekst nýpúritanistum þannig að fella staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni undir verslun með konur.

 

Deildu færslunni

Share to Facebook