Münchausen by proxy?

mansal

Dag eftir dag dynja á okkur fréttir af því hvað mansal og vændi séu stór vandamál á Íslandi. Í dag, í gær og síðasta föstudag voru mansalsmál til umfjöllunar á forsíðu DV. Í síðustu viku birti visir.is viðtal við fyrrum vændiskonu. Ég hef ekki talið hversu margar fréttir af þessu tagi birtast að meðaltali en miðað við þá athygli sem vændi og mansal fá í fjölmiðlum, mætti halda að þetta væru einhverjar stærstu atvinnugreinar landans. Og það er ekki bara tíðni slíkra frétta sem mér finnst athyglisverð, heldur ekki síður efnistökin.

Hversvegna er hver vændiskonan á fætur annarri beðin að lýsa reynslu sinni, án þess að velt sé upp spurningum sem þó hljóta að flögra að flestum lesendum eða áheyrendum? Í viðtalinu á visi.is sem ég vísa í hér að ofan, er konan t.d. ekkert innt eftir því hvernig manneskja lendir í slíkri fjárhagsneyð að telja sig, þrátt fyrir háar, skattfrjálsar tekjur, knúna til að taka á móti hrotta sem hvað eftir annað hefur nauðgað henni. Hversvegna gengur blaðamaðurinn út frá því að vændið sé rót  vandans fremur en afleiðing í lífi þessarar konu, sem lýsir baráttu við fátækt, fíkn, líkamlega sjúkdóma, þunglyndi, og samskiptavanda? Af hverju ganga blaðamenn beinlínis út frá því að vændi sé í eðli sínu vandamál og að besta leiðin til að hjálpa vændiskonum sé sú að gera þeim ókleift að sjá fyrir sér? Af hverju virðist engum detta í hug að ákvörðun um að stunda vændi sé viðbragð við einhverjum öðrum vanda sem samfélagið þurfi að takast á við? Eru blaðamenn að reka áróður fyrir áliti Stígamótakvenna á þessum málum, fremur en að draga fram sem flest viðhorf og skýringar?

Ekki skána vinnubrögðin þegar mansal er til umræðu. Óheppilegt er að umsagnir skuli ekki vera leyfðar við þessa frétt sem óneitanlega vekur margar spurningar, en ég varpa nokkrum þeirra fram hér í staðinn.

Hversvegna er fyrirsögnin „15 fórnarlömbum mansals hjálpað“ þegar skýrt kemur fram í greininni að um sé að ræða 15 tilvik þar sem hugsanlegt var talið að um mansal væri að ræða og að í sumum tilvikum hafi fengist staðfest að svo var ekki?

Í hversu mörgum tilvikum fékkst staðfest að raunverulegt mansal hefði farið fram?

Hversvegna er talað um „einhver tilvik“, „sum tilfelli“ og „nokkra einstaklinga“? Þegar aðeins er um 15 manneskjur að ræða ætti að vera einfalt að sýna meiri nákvæmni en það skiptir töluverðu máli hvort verið er að tala um tvö fórnarlömb mansals eða kannski tólf.

Af hverju er manneskja sem kærir sig ekkert um aðstoð skilgreind sem fórnarlamb? Hefur vinnuteymið ástæðu til að telja að það sé vegna einhverrar nauðungar sem konan vill ekki tala við þær og ef svo er hvað hafa þær fyrir sér í því?

Frá hvaða yfirvaldi hefur teymið sjálfstætt umboð til þess að álykta hvort það séu meiri líkur eða minni á að einhver sé fórnarlamb mansals?

Hvaða tilgangi þjónar slík ályktun? Ef ég skil rétt merkir þetta að teymið megi veita aðstoð án þess að bíða eftir niðurstöðu lögreglu eða dómstóla. Nú hef ég aldrei heyrt það áður að fólki sé bannað að koma öðrum til bjargar án þess að lögreglurannsókn eða dómur liggi fyrir, svo hvað er eiginlega átt við? Varla er verið að veita „aðstoð“ í óþökk þess sem aðstoðaður er?

Og svo ágengasta og mikilvægasta spurningin, hversvegna í ósköpunum eru þessir glæpir ekki kærðir til lögreglu, málin rannsökuð og dæmt í þeim? Á Íslandi hefur fallið EINN dómur í mansalsmáli. Catalina Ncoco var einnig ákærð en hún var sýknuð. Hafa fleiri mansalsmál komið fyrir dóm?

Og nú síðast þessi frétt af konu sem af einhverjum ástæðum kærir sig ekki um þjónustu  Stígamóta. Umsagnir heldur ekki leyfðar.

Ekkert kemur fram sem gefur vísbendingu um að reynt hafi verið að ná í stúlkuna sjálfa eða aðrar konur í hennar stöðu til að fá fram skýringar á því hversvegna hún kýs frekar vernd Geira á Goldfinger en Stígamótakvenna. Látið er að því liggja að konan hafi bara ekkert vitað hvað hún var að gera, sé of geðveik til að vita hvað hún vill. Takið eftir því að hún er sögð hafa „strokið“ úr vistinni hjá bjargvættum sínum. Lítur blaðamaðurinn á kvennaathvörf sem upptökuheimili fyrir slæmar stúlkur, eða hvernig stendur á því að hún notar orð, sem venjulega er notað um þá sem af ólögmætum ástæðum flýja lögmæta yfirboðara sína?

Til stuðnings þeirri kenningu að konur sem flýja kvennaathvörf séu ófærar um að stjórna lífi sínu sjálfar er svo vitnað í fórnarlamb mansals sem samkvæmt blaðinu þiggur aðstoðina með þökkum. Hversvegna í ósköpunum er vísað í konu sem vill þiggja aðstoð Stígamóta  þegar ætlunin er að skýra það hversvegna sumar þeirra kvenna sem leita á náðir kvennaathvarfa flýja þaðan? Af hverju eru þær ekki bara spurðar sjálfar?

Er í alvörunni svona mikið um vændi og mansal á Íslandi? Og hvernig vita menn það? Sýnið mér gögnin takk.

Hvernig stendur á því að þrátt fyrir að þjónusta Stígamóta fái rækilega fjölmiðlaauglýsingu oft í mánuði, virðast fáar vændiskonur kæra sig um þá þjónustu?

Hvernig stendur á því að svo alvarlegir glæpir sem mansal er, eru ekki kærðir?

Að sjálfsögðu á að aðstoða fórnarlömb mansals sem og annað fólk sem hefur með eða án hjálpar einhverra skúrka, ratað í aðstæður sem það vill losna úr, hvort sem það er vændi, fíkniefnaneysla, kúgandi trúarsöfnuðir eða eitthvað annað. Að sjálfsögðu á að uppræta þrælahald. En það er eitthvað undarlegt við það hvernig fjallað er um mansalsmál á Norðurlöndum. Það sjást nefnilega aldrei upplýsingar um fjölda tilfella, þrátt fyrir mikið tal um að þetta sé stórt vandamál.

Sé það rétt að á Íslandi blómstri stór vændismarkaður þar sem lítill munur er á aðstæðum frjálsa vændiskvenna og kynlífsþræla, er verulega undarlegt að ekki sé meiri grundvöllur fyrir hjálparstarfi en raun ber vitni. Og sé mansal virkilega stórt vandamál á Íslandi þá er vítavert að ekkert skuli vera gert til að koma lögum yfir þá sem það stunda. En hér eins og svo oft áður þegar kyn og klám er annarsvegar, fæ ég á tilfinninguna að undarlegt afbrigði af Münchausen by proxy hrjái einhverjar úr hópi bjargvættanna og að það, fremur en fjöldi fórnarlamba, skýri kannski að einhverju leyti þessa endalausu umræðu um mansal á Íslandi.

 

Deildu færslunni

Share to Facebook